25.04.1932
Efri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Baldvinsson:

Það er fjvn. Nd., sem á heiðurinn af því að koma þessu frv. af stað. Frv. þetta, sem í fyrstu var nokkru styttra, flutti fjvn. Nd. óskipt, og nú hefir hún orðið sömuleiðis sammala um að flytja vatill. við frv., og loks flytur hv. 2. þm. Skagf. vatill. við það. Þetta frv. sýnist því muni eiga sterkan stuðning stóru flokkanna í þinginu, og því er líklegt, að ekki þýði mikið að mæla á móti því. Það má segja það um hv. sjálfstæðismenn, sem að þessu hafa ekki látizt ætla að samþ. neinn tekjuauka fyrir stj. fyrr en séð væri fyrir um góð úrslit stjórnarskrármálsins, að nú séu þeir búnir að finna upp nýja leið til þess að hjálpa stj., nefnilega þá, að reyta fé af ýmsum ríkisstofnunum og framkvæmdum í ríkissjóðinn jafnhliða því, sem þeir hafa nú leyft verðtollsfrv. til 2. umr.

Mér skilst eftir lauslegri áætlun, sem ég hefi gert, að tekjur samkv. þessu frv. muni sennilega nema um 600 þús. kr., eða nákvæmlega reiknað um 534 þús. kr., miðað við áætlun yfirstandandi árs, en auðvitað geta þessar tekjur orðið meiri, en sennilega varla minni. Þetta var þá skýið, sem hæstv. fjmrh. var að boða nýlega, að mundi ganga yfir; það er þá komið hingað.

Mér hefir skilizt á hv. 1. landsk., að flokksmenn hans í Nd. mundu að svo stöddu ekkert tekjuaukafrv. samþ. fyrir hæstv. stj., en raunin er nú eitthvað önnur, að ég nú ekki tali um hv. framsóknarmenn, sem með þessu frv. fella niður flestöll þau áhugamal, sem þeir hafa átt og barizt fyrir árum saman, eða a. m. k. einstakir menn í þeim flokki. Ég get sagt eitthvað svipað um þetta frv. eins og sagt var í hv. Nd., að með því sé stj. að lóga sínum eigin afkvæmum. Það er nú hart í ári, enda hefir Framsókn nú fundið sig knúða til þess, í samráði við Sjálfstæðisflokkinn, að bera út sín eigin börn. Ég skil, að það er ein meiriháttar jarðarför, sem hér á að fara fram í dag, eða þegar þetta frv. verður samþ., en ég ætla að lýsa því yfir strax, að ég greiði atkv. á móti frv. Ég ætla ekki að gerast líkmaður við þessa jarðarför. Það er nú ekki annað að verða eftir fyrir framsóknarstj. til þess að eyðileggja allar þær framfarir undanfarinna ára, sem hún hefir beitt sér fyrir, en að gera Reykholtsskólann aftur að fjósi, loka Laugarvatnsskólanum og afhenda Jóa V. aftur letigarðinn; þá er hún næstum því búin að strika út allar framkvæmdir sínar á undanförnum árum, svo að ég veit varla, hvort nokkuð er eftir. Að vísu hefir þessi niðurskurðarstefna einna minnst komið niður á hæstv. forsrh., því að Búnarbankinn stendur enn.

Þó hv. framsóknarmenn séu nú á góðum vegi með að eyðileggja sín fyrri verk, þá er það engum vafa bundið, að það er erfitt fyrir þá að kingja því, sem þeir hafa áður sagt og barizt fyrir. Það er í sjálfu sér ekki eins erfitt fyrir hv. sjálfstæðismenn að taka þátt í niðurskurðinum, því mörgum þessum málum hafa þeir áður verið á móti, en þó verður þessi framkoma þeirra gagnstæð þeirra fyrri yfirlýsingum um það að neita stj. um nýja tekjuauka. En hér á eftir öllum sólarmerkjum að dæma að finna nýja leið til þess að jafna ágreininginn milli hinna stóru flokka og hjálpa stj. til þess að sitja, þó ekki sé sérlega skemmtilegt fyrir hana að taka við þessu frv.

Ég ætla ekki að fara út í einstaka liði frv.; ég get þó minnt á það, að ekki eru liðnir nema nokkrir mán. síðan sum þau lög voru samþ., sem hér á nú að nema úr gildi. Það var víst í ágúst síðastl. sumar, sem það var ákveðið með lögum, að ágóði af tóbakseinkasölunni skyldi renna til byggingar verkamannabústaða og byggingar- og landnámssjóðs. Að nú eru felldar niður greiðslur til þessara stofnana og féð látið renna í ríkissjóð, þýðir vitanlega ekki annað en það, að nú á að minnka þessar framkvæmdir. Framsóknarfl. er, eins og áður er tekið fram, að ganga frá flestum sínum áhugamálum, sem hann hefir barizt fyrir undanfarin ár.

Ég sé ekki ástæðu til þess að draga það að greiða atkv. móti þessu frv. og mun því gera það þegar við þessa umr.; svo mjög fer það í bága við samþykktir undanfarinna þinga og þá samninga, sem gerðir voru á síðasta þingi milli Alþýðufl. og Framsóknarfl. um skiptingu arðsins af tóbakseinkasölunni. Ég sé því enga ástæðu til þess að vilja halda lifi í frv.