25.04.1932
Efri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Einar Árnason:

Hv. 1. landsk. lýsti því yfir f. h. síns flokks, að afdrif þessa frv. yrðu ákveðin með afstöðu sjálfstæðismanna til frv. hér í hv. d. (JónÞ: Já, að því leyti, sem afdrif frv. eru á valdi Sjálfstæðisflokksins). Mér skilst, að ef þetta er ákveðið, þá sé þýðingarlítið að ætla að gera brtt. við frv., ef hv. 1. landsk. er á móti þeim. Hinsvegar finnst mér þó ólíklegt, að frv. sé svo fullkomið, að ekki kunni að vera hægt að breyta því til bóta, en það getur verið þýðingarlítið, ef frv. á ekki að fara aftur til Nd. Ég vildi gjarnan fá skýringu á þessu hjá hv. 1. landsk.