25.04.1932
Efri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Baldvinsson:

Ég verð að segja það, að ég er litlu nær fyrir þessa diplomatisku yfirlýsingu hv. 1. landsk. Hann sagði, að örlög þessa frv. yrðu ákveðin hér í hv. Ed. af Sjálfstæðisflokknum, að því leyti, sem hann gæti um þau ráðið, en hann sagði ekkert um, hvort flokkur hans ætlar að láta málið ganga áfram eða ekki. Mér finnst ég geta dregið þá ályktun út úr þessum orðum í sambandi við það, sem áður hefir fram komið, og að flokkur hv. 1. landsk. stendur í hv. Nd. að miklu leyti óskiptur bak við frv., að það sé ætlun Sjálfstæðsflokksins að fylgja frv. fram. Annars voru þessi orð hv. 1. landsk. dálítið dularfull. En þó hann segi ekki beinlínis, að flokkur hans ætli að fylgja þessu máli fram, þá get ég ekki dregið aðra ályktun af orðum hans.

Um orð hæstv. fjmrh. þarf ég ekki að ræða, nema hvað hann sagði, að ég mætti sjálfum mér um kenna, að þetta frv. væri fram komið, því hann hefði boðið upp á samkomulag um að taka tóbakstekjurnar ekki nema að nokkru leyti af byggingar- og landnámssjóði og verkamannabústöðunum. Þetta er svipað eins og með einn framsóknarmann, sem spurði frambjóðanda, sem í kjöri var við Alþingiskosningar, hvort hann gæti ekki svikið hina dálítið. Framsókn ætlaði fyrst að svíkja „dálítið“ í þessu máli. En mér fannst bara engin ástæða til þess að ganga inn á, að hún sviki neitt þau loforð, sem hún gaf í fyrra um, hvernig tóbakstekjunum skyldi varið. Mér fannst engin ástæða að láta skipast við þær hótanir, að ef ekki fengist að svíkja dálítið, þá yrði allt svikið. Annars virðist hæstv. fjmrh. ekki í neinum vafa um það, að þetta frv. gangi fram, eftir því fylgi, sem það hafði í hv. Nd., og styrkir það mig enn í þeirri skoðun, að hann hafi einhverja vissu þar um. Að þetta eigi aðeins að gera til bráðabirgða og að það eigi ekki að gilda nema til loka næsta árs, má hver trúa sem vill, en því trúa naumast þeir, sem kunnugir eru, hvernig farið er með slíka hluti hér á Alþingi. Þegar einu sinni hefir verið búið að koma í gegn tekjuauka eða ákveða, að einhverjar tekjur skuli renna beint í ríkissjóð, þá hefir reynzt erfitt að ná þeim þaðan aftur. Ég held, að ég hafi bent á það áður á þessu þingi, hvað oft hafa verið sett lög um tekjuauka handa ríkissjóði til bráðabirgða, lög, sem ekki hafa átt að gilda nema eitt fjárhagstímabil eða svo, en svo hafa gilt eða verið framlengd ár eftir ár. Það er því ekkert að marka þessar yfirlýsingar um það, að þetta eigi ekki að gilda nema eitt ár. Þegar árið er liðið, koma sömu mennirnir og segja, að ríkissjóður megi ekki missa þessar tekjur og það sé því ekki hægt að taka þær af honum, þótt það sé mjög leiðinlegt o. s. frv.

Ég veit ekki, hvað hv. 2. þm. Eyf. hefir átt við, þegar hann var að bendla mig við það, að ég mundi „vitanlega“ verða sammála hv. sjálfstæðismönnum um þetta mál. Mér finnst þvert á móti allt benda til, að ég verði þar á öndverðum meiði við þá. Ég hefi ætlað mér að greiða atkv. móti frv. bæði við þessa umr. og þær seinni. Það er engin tilsvarandi yfirlýsing komin fram frá hv. sjálfstæðismönnum í þessu máli, heldur liggur fyrir yfirlýsing frá þeim, sem frekar gefur annað til kynna.