25.04.1932
Efri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (2683)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. 2. landsk. virðst mjög áhugasamur um, að sem flestir sviki hann og hans flokk. Hann ber svik upp á Framsóknarfl. í sambandi við tóbakseinkasölutekjurnar, og honum virðist líka áhugamál, að Sjálfstæðisfl. sviki í einhverju öðru máli. Mér er ekki kunnugt um þá samninga, en ég hygg, að það sé frekar um fögnuð að ræða hjá hv. þm. heldur en um nokkurn ótta við svikin. En um tóbakseinkasöluna er mér ekki kunnugt, að Framsóknarfl. hafi í einu né neinu samið á þann hatt við Alþýðufl., að hægt sé að tala um brigðmælgi, þó tekjurnar af tóbakseinkasölunni séu látnar renna beint í ríkissjóðinn í hálft annað ár. Hvað sem líður samkomulagi frá síðasta þingi, þá hefir aldrei verið samið um að taka ákvörðunarvald af seinni þingum um þetta efni; um slíkt er yfirleitt ekki samið. Breyttar ástæður valda því, að ríkissjóður má ekki við því að missa þær tekjur, sem hér er um að ræða, eins og nú stendur. En vonin um það, að svo verði ekki lengi, kemur skýrt fram í frv., svo að að því leyti er ekki fallið frá þeim leiðum, sem fallizt var á á síðasta þingi. En allt þetta tal hv. 2. landsk. um svik hinna flokkanna beggja er ósköp skiljanlegt, þegar maður lítur á það mark, sem þessi hv. þm. og hans flokkur stefnir að á þessu þingi, sem hann orðar þannig, að það eigi að gera stj. ómögulegt að stjórna landinu. (JBald: Nema hún gangi inn á stjórnarskrárbreyt.). Það telur hann víst þá stærstu nauðsyn, sem nú kallar að, og með það fyrir augum er afstaða hans heppileg.