03.06.1932
Efri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (2711)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Jónsson [óyfirl.]:

Það yrði mikil röskun á frv., ef allar þær brtt., sem fram eru komnar, yrðu samþ. Ég hefi ekki gert mér það fyllilega ljóst, hversu mikil sú röskun yrði, en hún yrði geysimikil, líklega þriðjungur af tekjunum. Eins og ástatt er nú um tekjuhallann á fjárl., er það varla fært, nema að koma með aðrar till. í staðinn til tekjuauka, en þær hafa enn ekki komið fram. Ég get ekki seð, að það sé nokkur þörf á að halda þessu til verkamannabústaðanna eins og þeir leggja til, hv. 1. og 2. landsk. Samkv. lögum um verkamannabústaði fá þeir nú um 80–90 þús. kr., og er það allrífleg upphæð. Auk þess veit ég ekki betur en að nú sé minni húsnæðisskortur í Rvík en oft áður, og nokkuð hafa þær byggingar, sem þegar eru komnar, greitt úr. Þeim hlutum mun því vera eftir atvikum nokkurn veginn borgið. Hitt skal ég jata, að frá því sjónarmiði að efla atvinnuna í landinu geti verið ástæða til að gera eitthvað. En ég helt, að bezt væri, að þeir fáu aurar, sem ríkið hefir ráð á til þess, gengju mest til atvinnu í landinu sjálfu, en færu siður til að kaupa byggingarefni frá útlöndum. þess vegna legg ég fyrir mitt leyti á móti þeirri till., sem ræðir um þessa hluti, og sé ég ekki frekari ástæðu til þess, að byggingar- og landnámssjóður fái það, sem honum var ákveðið samkv. tóbakseinkasölulögunum.

Hv. 2. landsk. var eitthvað að minnast á það, að ég væri kröfuharðari f. h. presta en almennings í þessu byggingarmáli. Það er ekki allskostar sanngjarnt að segja, að ég hafi verið kröfuharður fyrir presta, því að í sumar var framlagið úr ríkissjóði lækkað um þriðjung samkv. till. frá mér, frá því, sem var fram komið hér í d. Svo talar hv. þm. um það, að ég sé sérstaklega að heimta fyrir presta. Hitt er annað mal, þótt maður vilji fullnægja þeirri skyldu, sem lög landsins leggja manni á herðar, með því að sjá fyrir prestunum, og á sumum stöðum eru ekki til hús. Þar sem hv. 2. landsk. var að minnast á, að ég væri að heimta eitthvað fyrir hæstaréttardómarana, þá þætti mér gaman, að hann benti á eitthvað þessháttar. Ég hefi ekki farið fram á nokkurn skapaðan hlut fyrir þá, og gæti þó vitanlega verið ástæða til þess, því að laun þeirra eru ekki mjög há. En ég hefi ekkert ymprað í þá átt og ég held, að þegar fram kom till. um það hér á árunum, að þeir ættu að fá hærri laun, þá hafi ég greitt atkv. á móti henni.

Þá var hv. 2. landsk. eitthvað að tala hér um, að hann væri kominn hingað fyrst og fremst til þess að heimta og heimta. Það er virðulegt starf að heimta og heimta. Það er margt, sem þarf að gera hér á landi og æskilegt, að komi í framkvæmd. En ég hugsaði þó, að það væri ein ríkasta skylda þm. að sjá ríkinu farborða og sjálfstæði þjóðarinnar, en það kalla ég ekki gert, ef stefnt er út í vitleysu með afgr. fjárl. — Sami hv. þm. vildi forsvara sig með því, að hér væri bara um mismunandi leiðir til tekjuöflunar að ræða. En áhugi hans sýndi sig við afgreiðslu frv. þess, sem kom hér fram um hækkun tekju- og eignarskatts, því að þegar var verið að leita atkv., þá fékkst hv. þm. ekki fyrr en í þriðja sinn til þess að drattast til að leyfa málinu til 2. umr. Þetta var nú allur áhuginn. Hann þarf svei mér ekki að monta af áhuga á því að sjá ríkissjóði borgið. Hann hefir gert miklu meira að því að setja fram ósanngjarnar kröfur heldur en að sjá ríkissjóði borgið.

Hv. þm. var eitthvað að tala um, að ég sé trúr stuðningsmaður hinnar væntanlegu stj. mér þykir varla tilhlýðilegt að tala um stj. fyrr en maður sér framan í hana. Eftir því, sem menn hafa heyrt um stj., þá skal ég játa, að ég mun vera fylgismaður tveggja manna í henni. Úr því að sú stj., sem nú er, fann upp á því að fara að segja af sér, þá tel ég þessa tvo einhverja þá beztu menn, sem völ er á. Þriðji maðurinn í stj. er mér óviðkomandi. Mun ég þó sjálfsagt styðja hann, ef hann hefir eitthvað gott fram að færa. Annars mun ég ekki ræða um stj. fyrr en maður sér framan í hana.

Þá hafa komið fram till. frá hv. 1. landsk. og hæstv. dómsmrh. um að halda meiru til Menningarsjóðs en gert er í þessu frv. Ég verð að segja, að það er ánægjulegt fyrir hæstv. dómsmrh., sem vitanlega hefir borið fram margar hugsjónir hér á þingi, en oftast í óþökk andstæðinganna, að sjá það eftir þetta mörg ár, að aðalforgöngumaður andstöðuflokksins gerist til þess að beita sér mjög fyrir því, að þessar hugsjónir fái sem bezt notið sín áfram. Það er ánægjulegt fyrir hæstv. dómsmrh. að fá þessa viðurkenningu, þegar hann er að fara úr stj. Ég viðurkenni þennan Menningarsjóð, og væri æskilegt, að hann fengi að njóta sín, en teldi samt viðunandi, þótt þetta væri eitthvað takmarkað í þetta skipti. En ég sé samt ekki annað, úr því andstöðuflokkarnir sýna svona mikinn áhuga fyrir þessu, en að ég verði að fylgja till. hæstv. dómsmrh., en lengra mun ég ekki sjái mér fært að ganga.