17.05.1932
Neðri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

3. mál, landsreikningar 1930

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Þetta frv., sem við höfum hér til meðferðar, er í raun og veru skylt því, sem við vorum nú að afgr. (fjáraukal. 1930).

Ég skal geta þess fyrst fyrir n. hönd, að hún hefir borið frv. saman við I,R. og þar ber ekkert á milli. N. vann að þessu í einu lagi, en svo þegar kom til þess að taka afstöðu til málsins, þá klofnaði n., eins og í hinu málinu. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ., minni hl. að það verði fellt. Að þessu sinni eru aths. yfirskoðunarmanna við LR. með flesta móti. Um meiri hl. aths. gera yfirskoðunarmenn ákveðnar till. Eru till. ýmist: „upplýst“, „má við svo búið standa“ eða „til athugunar framvegis“, og e. t. v. eru fleiri tegundir af till. til úrskurðar. En út af nokkrum aths. og svörum stj. gera yfirskoðunarmenn engar sérstakar till., þ. e. um 17., 27., 29., 32., 35. og 40. aths., stafl. á og b, en vísar þeim til aðgerða Alþingis. Fjhn. veitti þessum aths., sem engar till. voru gerðar um frá hálfu yfirskoðunarmanna, alveg sérstaka athygli og meiri hl. sýndist svo, að um þessar aths. megi yfir höfuð segja, að annaðhvort megi þær teljast „upplýstar“ eða „við svo búið megi; standa“. En þó stendur nokkuð sérstaklega á um eina þessara aths., sem sé um 35. aths., að því er snertir Laugarvatnsskólann. Þar kemur í ljós, sérstaklega í framhaldsaths. eins yfirskoðunarmannsins, hv. 2. þm. Skagf., að fullnaðarreikningar fyrir skólabyggingarnar eru ekki gerðir, enda hafa þeir ekki verið endurskoðaðir af hinni umboðslegu endurskoðun. Jafnframt gerir þessi yfirskoðunarmaður ráð fyrir, að þegar reikningarnir liggi hreint fyrir, geri hann sérstakar till. út af þessum aths. Meiri hl. telur, að þrátt fyrir það, þótt svona se, verði ekki hjá því komizt að samþ. reikninginn eins og hann er, en það sé þó hægt að taka afstöðu til þessa atriðis seinna, þegar yfirskoðunarmaðurinn hefir gert sínar sérstöku till.

Ég skal þá þessu næst leyfa mér að gefa örstutt yfirlit yfir reksturinn þetta umrædda ár. Tekjur á rekstrarreikningi hafa orðið kr. 16716551,68, en útgjöldin kr. 16251648,20, og þá tekjuafgangur samkv. því kr. 464903,48. Tekjuáætlunin í fjárlfrv. var tæpar 12 millj. kr. og hefir því farið fram úr áætlun um rúml. 4,7 millj.

Gjöldin voru áætluð tæpar 12 millj. kr. og hafa því farið fram úr áætlun um rúmar 4 millj. kr. — Þetta er yfirlit yfir hinar eiginlegu tekjur og yfir gjöld ársins, sem við koma hinum árlega rekstri. En það verður ekki svo gefið yfirlit yfir reikninga þessa árs, að ekki þurfi að minnast á, að á árinu hafa verið tekin stór lán, eða alls kr. 14185125,80. Þessi lán hafa verið tekin vegna ýmsra sérstakra stofnana og fyrirtækja eða framkvæmda samkv. fyrirmælum þingsins á f. á. Af þeim hafa rúmar 8 millj. gengið beint til sérstakra stofnana og fyrirtækja, og skal ég nú nefna þessar upphæðir: Til Landsbankans upp í stofnfé 1,5 millj. kr., til Útvegsbankans í hlutafé 1,5 millj. kr., til Búnaðarbankans 3.6 millj. kr., til Útvarpsstöðvarinnar, sérst. lán, 620200 kr., til Landssímastöðvarinnar 950500,80 kr., sem alls gerir þá upphæð, er ég fyrr nefndi. Af lánunum hafa þá rúmar 6 millj. gengið í gegnum reikning yfir inn- og útborganir. Hefir þeim verið varið sumpart til greiðslu á lausaskuldum rúmum 2 millj. 698 þús. — sumpart til innstæðuaukningar, sem nemur Í millj. 56 þús., sumpart til fyrirtækja og framkvæmda, sem heimilaðar hafa verið lántökur til, og nemur það um 2 millj 260 þús. kr. Í grg. reikningsins fyrir eignahreyfingum má fá nánari sundurgreiningu á þessum 2 millj. 260 þús. kr. Stærstu liðirnir þar eru síldarbræðslustöð á Siglufirði, sem byggð var fyrir lánsfé, til kaupa á strandferðaskipi og til skrifstofubyggingarinnar Arnarhváls.

Eins og ég gat um, er tekið inn í þennan LR. af lánum rúml. 6 millj. kr., auk þess, sem gengið hefir á sjóðinn, sem reikningurinn sýnir, um 2,5 ,millj. kr. Fyrir þá skuld, að þetta er tekið inn í reikninginn, verður heildarreikningsupphæðin alveg óvenjulega há. Auðvitað hefði verið hægt að taka allt lánið — þessar rúmu 14 millj. kr. — upp í LR. Þá hefði heildarupphæðin orðið þeim mun hærri, sem hefði numið rúmum 8 millj. kr. En á sama hátt hefði einnig mátt hugsa sér uppgerð rekstrarreiknings og reiknings yfir inn- og útborganir, án þess að taka nokkuð af lánunum inn á reikninginn og láta þau ganga beint til þeirra stofnana og fyrirtækja, sem þau eru tekin fyrir. En þetta mun ekki hafa verið talið rétt, vegna þess að þau fyrirtæki voru reikningslega komin inn í LR. og eru þá raunverulega færð út á þann hátt að taka lánið inn í reikninginn og færa svo aftur upphæðina til fyrirtækjanna. Ég hygg þó, að slík færsla, að taka ekkert af lánunum inn í LR., hafi vakað fyrir einum yfirskoðunarmanninum — Pétri Þórðarsyni —, sbr. till. þær um breyt. á reikningum, sem hann hefir gert einn út af fyrir sig og sjá má aftast í LR. Ég skal segja það fyrir sjálfan mig — ég hefi ekki borið mig saman við meðnm. mína um það, — að slík uppgerð sem Pétur Þórðarson leggur til í LR. og ýmsum fylgireikningum hans, virðist mér að ýmsu leyti skilmerkilegra en reikningurinn eins og hann liggur fyrir. (MG: Þetta er alveg rétt). Með því formi er gerð skýr grein fyrir því, hvernig lánum ársins hefir verið varið til sérstakra framkvæmda og eftir hvaða heimildum, og fær hann það fullkomlega til að jafnast. Ef slík uppgerð hefði verið höfð, þá hefði ekki þurft að taka neitt af lánunum upp í LR. Auðvitað má gera slíkt að álitamáli, hvaða reikningsform sé rétt, og ætla ég ekki að ræða frekar um það, enda verð ég að játa, að ég hefi ekki haft nógan tíma til þess að bera svo nákvæmlega saman uppgerð reikningsins eftir till. Péturs Þórðarsonar við það, sem er, að ég geti sagt um þetta til fullnustu, því að LR. kom ærið seint í hendur n. En ég skal þó til viðbótar benda á það, að mér sýnist ólíkt formlegri uppgerð á eignarreikningi eftir till. Péturs Þórðarsonar. Þar eru skuldir ríkissjóðs uppfærðar í hreinu reikningsformi, en eins og er, er uppgerð þessa reiknings líkari skýrslu. Sú skýrsla hefði auðvitað getað verið sem fylgiskjal eða til skýringar við aðalreikninginn. — Ég vil leyfa mér að benda á þessa till. Péturs Þórðarsonar til athugunar framvegis, bæði fyrir stj. og yfirskoðunarmenn, þótt mér sé hinsvegar alls ekki ljóst, hve fastar hugmyndir eða hvert álit menn muni hafa á því.

Ég hefi þá leitazt við að gefa stutt yfirlit yfir þennan stóra reikning eins og hann liggur nú fyrir, og að svo stöddu tel ég ekki ástæðu til að lengja mál mitt. Ég geri ráð fyrir, meðfram út af þeim umr., sem urðu um síðasta mál, að ýms atriði reikningsins komi til frekari umr. hér í d., og að þau skýrist þá e. t. v. nokkru nánar.