17.05.1932
Neðri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

3. mál, landsreikningar 1930

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, var LR. ekki lagður fyrir þingið fyrr en mjög var orðið áliðið. Ég verð að telja þetta mjög óheppilegt. Stafar það nokkuð af því, hve reikningurinn var yfirleitt síðbúinn frá hæstv. stj., og yfirskoðunarmennirnir hafa nú í sinni fvrstu aths. átalið þetta, eða réttara sagt endurnýjað aths. sína um þetta frá síðasta ári. Það er auðvitað afskaplega óþægilegt, að LR. sé svona seint tilbúinn, bæði fyrir yfiskoðunarmenn, að geta ekki fengið hann fyrr — það er að verða geysilegt verk að endurskoða LR., og vil ég þó ekki kvarta neitt fyrir þeirra hönd — og fyrir þingið og þá n. þingsins, sem um reikning þennan fjallar. Ef þm. ætla að vinna þar nokkurt gagn og setja sig inn í LR., þá verður hann að vera lagður fyrir þingið miklu fyrr. Það er ekki einungis að stuttur tími sé orðinn til stefnu, heldur alkunnugt, að þegar komið er svo fram á þingtímann, þá eru störfin orðin þannig, að þm. hafa h. u. b. engan tíma afgangs til þess að vinna slík störf sem þetta. Eftir að fjvn. þessarar hv. d. hefir lokið störfum sínum, sérstaklega fyrir 2. umr. fjárl., er farið að halda hér þingfundi svo að segja allan daginn og því mjög erfitt fyrir aðrar n. að geta komið saman og fyrir einstaka menn að geta unnið nokkuð að LR. Fyrir mitt leyti get ég sagt, að ég hefi haft allt of lítinn tíma til að setja mig inn í svona flókið mál. Ég verð því að mestu leyti að halda mér við aths. yfirskoðunarmannanna eins og þær liggja fyrir. Annars verð ég að segja það, að ég skil ekkert í því, hve langan tíma það þarf að taka fyrir hæstv. stj. að gera grein fyrir eða svara aths. yfirskoðunarmanna. þeir unnu verk sitt furðu fljótt, en svo hefir allur þessi langi tími gengið í að fá svör stj., svo að yfirskoðunarmenn gætu gert sínar till. á því mun hafa staðið meginhluta þingsins.

Á LR. má líta frá tvennu sjónarmiði, sem einfalda skýrslu um hvað gert hefir verið. f því er engar aðrar kröfur hægt til hans að gera en að ekki sé skrökvað til, og það er lítil aðstaða, sem þm. hafa til þess að gera sér grein fyrir því út af fyrir sig. Yfirskoðunarmenn verða að athuga, hvort þar er í rauninni tekið allt, sem þar á að vera. Ég heyrði það á umr. um næsta mál hér á undan, að e. t. v. hafi verið nokkur misbrestur á því, að hæstv. stj. hafi í rauninni tekið í LR. öll þau gjöld, sem þar hafi átt að vera, en ég býst við, að það liggi betur við fyrir endurskoðendur LR. að gera till. út af því. En það er vítavert, ef stórupphæðir, sem raunverulega hafa verið greiddar á árinu, eru ekki teknar með. Það er einnig svo um ytra form LR., að komið hefir í ljós, að hið nýja fyrirkomulag hans muni ekki vera ljósara til yfirlits en hið gamla var, og ýmsir þeir, sem ekki hafa neina sérstaka aðstöðu til að kynna sér þetta, þeir, sem samt sem áður eiga að hafa yfirumsjónina með öllu saman — kjósendurnir — munu verða dálítið undrandi á því, hvernig á því geti staðið, að þegar reikningurinn yfir inn- og útborganir sýnir rúml. 25 millj. 769 þús. kr. gjöld, og vitanlegt er, að tekjur ársins hafa á hinn bóginn orðið miklu minni, eða eins og rekstrarreikn. sýnjr rúml. 16 millj. 716 þús. kr., þá skuli rekstrarreikningur ríkissjóðs samt sem áður sýna tekjuafgang. Ég býst við, að þetta verði mönnum talsvert erfið hnot að brjóta. Nú gæti allt verið með felldu, þótt þannig væri, og mismunurinn væri ekkert annað en peningar, sem oltið hefðu inn og út án þess að koma rekstri ríkisins annars nokkuð við, eins og t. d. að lán væru tekin og greidd. Rekstrarreikningur einhverrar verzlunar getur verið mjög langt frá sjóðreikningi í þessum efnum. Hundruð þúsunda geta komið inn í sjóðinn t. d. í víxlum, og það er ekkert undarlegt, þegar gert er svo upp um áramót, þótt ekki beri saman rekstrarreikningi og sjóðreikningi. Sé það talið, sem hingað til hafa verið talin bein útgjöld ríkisins, þá er hér um stórkostlegan tekjuhalla á árinu að ræða. En þar kemur inn í þessi liður, sem má fóðra út frá reikningsfærslu, en mörgum mun þykja undarlegur, og það eru þessar eignahreyfingar, sem nema mörgum millj. króna. Svo og svo mikið, sem ríkið ræðst í, er alls ekki talið með útgjöldum þess, heldur „eignahreyfing“. Ef t. d. byggt er hús eða annað slíkt, þótt það gefi ekkert af sér, þá kemur það inn í „eignahreyfingu“, því að það hefir komið þar sem eign á móti. Yfirleitt er öll skýrslan á bls. XIX í LR. þess eðlis, að þær útborganir, sem þar standa, myndu hafa verið taldar með venjulegum útgjöldum ríkisins, og er allt þannig, að sjá verður fyrir tekjum til að standast kostnaðinn, sem þar um ræðir.

Ég ætla ekki að ræða um þetta form á fjárl. og LR., en ég ætla aðeins að minnast á það, að þegar LR. kemur nú fyrst gerður eftir þessu nýja formi, býst ég varla við, að hann verði ljósari fyrir hinum almennu kjósendum, sem eiga að dæma um meðferð fjárins á þessu ári. (MG: Þessi reikningur er sambland af hinu nýja og gamla formi). Já, en hið nýja hefir verið tekið til greina eftir því sem hægt var, og þegar það er alveg komið á, þá býst ég við, að hann verði fullkomlega óskiljanlegur hinum almennu leikmönnum! Ég ætla frá bókfærslusjónarmiði ekkert að hafa á móti þessari aðferð, en álít hana óheppilega til þess að gera grein fyrir fjármeðferð stj. og gera kjósendum synu erfiðara fyrir með að átta sig á því, og það er vissulega nóg, hversu rétt sem það kann að vera frá sjónarmiði hinna lærðu bókfærslumanna. Annars er þetta, eins og hv. frsm. meiri hl. sýndi fram á, allt saman hálfgerður hrærigrautur, því að ef farið væri eftir till. Péturs Þórðarsonar, sagði hann, að þær gerðu það að verkum, að ekki þyrfti að vera að telja þessi innkomnu lán með. Þá kemur hinsvegar í ljós, að í hans till. er líka settur upp reikningur, þar sem þessi lán koma fullkomlega til greina. Það er sjóðreikningurinn á bls. 147 í LR. Þar eru inn- og útborganir ekki 253/4 millj. eins og í LR., heldur þvert á móti 381/3 millj., sem hefir komið inn á þessu ári, og er mér ekki hægt að sjá annað en ef á að setja þetta upp, þá komi það rétt heim á sjóðreikningi herra Péturs Þórðarsonar. Þar eru taldir þeir peningar, sem í ríkissjóðinn hafa komið og úr honum hafa verið greiddir, í stað þess, að í reikningnum um inn- og útborganir í LR. eins og hann liggur fyrir, er ekki tekið annað en einskonar jöfnunarupphæð af þessum lánum, og sér maður, hvernig hún er fengin, með því að líta á skýrslu, sem gefin er um útborganir ríkissjóðs á bls. XVI. Hinn raunverulegi sjóðreikningur ríkisins 1930 er því rétttalinn 38362580,38 kr., eins og skýrsla Péturs Þórðarsonar sýnir.

Ég er alveg sammála hv. frsm. meiri hl. um það, að þetta form á LR. sé óheppilegt. Það er einhversstaðar á miðri leið milli hins eldra forms og þess, sem lögskipað er. Ég get vel gengið inn á það, að hið eldra form LR. hafi ekki verið fullkomið frá bókfærslulegu sjónarmiði, en það hafði þó það til síns ágætis, að það var skýrt og sýndi glöggt það, sem það náði til, en það er meira en hægt er að segja um form. LR. nú. Af þessu tvennu tel ég því till. Péturs Þórðarsonar beztar.

Það, sem ég nú hefi sagt um LR., er það, sem ég vildi segja um hann sem skýrslu yfir það, sem gerzt hefir. En þá er eftir að athuga aðalhlið hans, en það er, hvernig hann er sem grg. stj. um það, hvernig hún hefir farið með fé ríkisins, og það, sem hér liggur fyrir, er að samþ. hann eða hafna honum, gefa stj. kvittun fyrir meðferð hennar á fé ríkisins eða neita henni um hana. Ég hefi nú lagt til, að þetta samþykki verði ekki veitt. Út af fyrir sig hefir það ekki neina sérstaka þýðingu, en samþykki þingið reikninginn, gerir það sig samsekt stj. um meðferð fjárins, en það vil ég a. m. k. ekki gera.

Ef litið er yfir LR. og aths. yfirskoðunarmanna, rekur maður fyrst augun í umframgreiðslurnar. Ég skal þó játa, að sumar þær upphæðir, sem greiddar hafa verið umfram heimild fjárl., eru í sjálfu sér ekki óþarfar, en það, sem ég vil átelja, er, að svona miklu fé skuli vera eytt umfram heimild þingsins, því ég veit ekki, til hvers þingið á að vera að sitja hér viku eftir viku og mánuð eftir mánuð og skera við neglur sér þessar fjárveitingar, þegar stj. kemur svo á eftir og hefir ákvarðanir þess og samþykktir að engu. Ég sé t. d., að Alþingi hefir ekki seð sér fært að veita til Vesturlandsvegar nema 20 þús. kr., en stj. hefir veitt til viðbótar fullar 36000 kr. Þá er hér vegur sem heitir Langadalsvegur; til hans hefir Alþingi veitt 10 þús kr., en stj. látið vinna fyrir 17 þús., eða 7 þús. umfram fjárveitingu. Til er og annar vegur, sem til eru veittar 25 þús., en unnið er fyrir 38 þús., eða 13 þús. umfram fjárveitingu Alþingis. Þá eru og aftur til vegir, sem fé hefir verið veitt til, en ekki notað, því að hlutaðeigendur hafa ekki verið undir náðinni hjá stj. Til viðhalds þjóðvega hafa verið veittar 240 þús., en stj. hefir látið vinna fyrir 611 þús., eða 371 þús. umfram fjárveitingu. Við þessa umframeyðslu væri í raun og veru ekkert sérstakt að athuga, ef hér væri eingöngu um að ræða viðhald þjóðvega. Þá mætti segja, að þinginu hefði missýnzt, en nú er ekki því að heilsa, því að mjög miklu af þessu fé hefir verið varið til nýrra vega. Þannig hefir mér t. d. verið sagt, að allt það fé, sem varið hefir verið til að gera sumarvegi fyrir bíla, hafi verið tekið af þessu fé. Það er að sjálfsögðu þarflegt og gott að gera þessa vegi, en mér finnst ekki mega minna vera en Alþingi sé spurt að því, hvort verja megi fleiri hundr. þús. kr. til þessara hluta. Að stj. taki það alveg upp á sitt eindæmi að veita þessar miklu fjárhæðir, án þess að spyrja húsbóndann, sem hér er Alþingi, hið minnsta um leyfi, er með öllu óhafandi og verður ekki átalið eins og það er vert.

Alveg verður hið sama uppi á teningnum, þegar litið er til annara samgöngumála. Til brúargerða hefir þingið veitt 200 þús., en stj. hefir látið byggja brýr fyrir 508 þús. Til slitlags á akvegum hafa verið veittar 60 þús. en stj. hefir bætt við 50 þús. Til akfærra sýsluvega hefir þingið veitt 454 þús., en stj. hefir þó þurft að auka þá upphæð um 361/2 þús. Af þeim dæmum, sem hér hafa verið tekin, verður það ljóst, að stj. telur, að þingið megi vera ánægt, ef það fær að ráða helmingi þeirrar fjárhæðar, sem notuð er. Það má því heita merkileg þolinmæði, bæði hjá fjvn. og þinginu í heild sinni, að nenna að sitja yfir því að hnitmiða niður hverja fjárveitingu, þegar stj. kemur svo á eftir og hefir að engu till. þess og ákvarðanir. Veitir sumstaðar helmingi meira fé en þingið hefir ákveðið, og í hinu tilfellinu aftur greiðir ekki þær fjárveitingar sem það hefir samþ. M. ö. o., þverbrýtur vilja þingsins eins og henni frekast er unnt.

Alveg gegnir sama máli þegar litið er 5 fjárveitingar til símamálanna. Þingið heimilar 400 þús., en stj. eyðir nær 718 þús. En sú umframeyðsla telst víst til eignahreyfinga, eins og stj. kallar það, svo þar þykist hún víst hafa hreinan skjöld.

Á sumum öðrum liðum fjárl. kveður þó ennþá rammara að með sukkið heldur en nokkurntíma á þeim, sem ég nú hefi nefnt, og má þar fyrst og fremst nefna tillagið til héraðsskólanna. Ég skil hreint og heint ekkert í því, hvernig stj. hefir farið með þann lið. Í lögum um héraðsskóla er svo ákveðið, að ríkissjóður leggi fram helming stofnkostnaðar skólanna, eftir því þó, sem fé sé veitt til þess í fjárl. Árið 1930 veitir þingið 30 þús. kr. til að reisa héraðsskóla í sveitum; á því að vera hægt að byggja héraðsskóla á því ári fyrir minnst 60 þús. kr., ef héruðin legðu aðeins fram til jafns við ríkissjóð. En á þessum lið eru gjöld ríkissjóðs talin 58 þús., eða nær helmingi hærri upphæð en fjárveiting er fyrir. Hér fylgir hún nefnil. gömlu reglunni, að skipta fjárveitingarvaldinu jafnt milli sín og þingsins. Maður skyldi nú ætla, að hún hefði látið hér við sitja um umframeyðslu til þessara hluta, en það er nú ekki alveg því að fagna, því að á öðrum lið bætir hún við hartnær 210 þús. samkv. þessum sömu lögum, sem segja, að framlag til að reisa héraðsskóla í sveitum skuli ekki fara fram úr helmingi stofnkostnaðar og sé bundið því, hvað veitt sé til þeirra í fjárl. Um þetta hafa yfjrskoðendur gert aths., en hvort þeir ætla að standa við hana, veit ég ekki. Mér þætti það þó líklegt, því að í þessu tilfelli hefir Alþingi ekki nema 1/9 part af fjárveitingarvaldinu, en stj. 8/9. Fyrir þessum lið er engin afsökun. Fénu er eytt í fullu heimildarleysi. Að sjálfsögðu getur þingið heimilað þetta eftjr á, í fjáraukalögum, en hvort það er fúst til þess, veit ég ekki. Mér þætti þó sennilegt, að það vildi ekki ganga inn á þá braut. Hér er alveg um sama að ræða og ef maður tæki peninga úr sjálfsvörzlu og eyddi þeim, en komi svo til eigandans á eftir og beiddi um samþykki hans fyrir eyðslunni. Hér eyðir stj. fé, sem henni er trúað fyrir, og kemur svo til þingsins og biður um samþykki þess fyrir eyðslunni. í sambandi við þetta dettur mér í hug nákvæmni stj. í ejnu tilfelli. Til sundhallar hér í Rvík voru á sínum tíma veittar 100 þús. kr., eða allt að helmingi kostnaðar. Þetta byggðist á því, að kostnaður við byggingu snndhallarinnar hafði verið áætlaður 200 þús. kr., en er til kom, reyndist hann miklu meiri. Nú kom það til kasta stj. að ákveða, hvort hún ætti að borga aðeins 100 þús. kr. eða helming kostnaðar við byggingu hallarinnar En hvað skeður? Nákvæmnin er svo mikil, að hún hverneitar að greiða einn eyri fram yfir 100 þús. Þó stendur svo á hér, að það eru tvo ákvæði, sem sitt segir hvort. Gat hún því verið alveg óátalin, þó að hún hefði greitt helming kostnaðar í þessu tilfelli. En hvað framlag til héraðsskólanna snertir hefir hún enga slíka afsökun. Hún eyðir nífalt meiri upphæð en heimiluð er, án þess að hin minnsta átylla sé til þess. Þetta dæmi sýnir aðeins, að um fjárgreiðslur stj. fer aðeins eftir því einu, hvernig hinn pólitíski vindur blæs í það og það skiptið.

Sama gegnir um síldarbræðslustöðina á Siglufirði. Upphaflega er veitt 1 millj. til þess að reisa síldarbræðslustöðvar á Norðurlandi, en svo notar stj. 11/2 millj. til aðeins einnar síldarbræðslustöðvar á Siglufirði, og það í algerðu heimildarleysi. Í ofanálag heldur hún svo stóreflis veizlu, sem kostar of fjár, eins og henni hafi ekki þótt kostnaðurinn nógur áður.

Fyrir utan þessar umframgreiðslur er ýmislegt annað, sem er mjög athugavert. hannig er t. d. í 23. aths. yfirskoðunarmanna bent á það, að vátrygging á róðrarbát Laugarvatnsskólans sé tilfærð undir liðnum: Brunaábyrgðir og sótaragjöld o. fl. fyrir nokkrar opinberar byggingar. Það er nú vitanlegt, að stj. hefir enga heimild haft til þess að kaupa þennan róðrarbát, en úr því að hún hefir gert það, ber að sjálfsögðu að færa allan kostnað af honum á Laugarvatnsskólann, en að telja hann með sótaragjöldum og öllum þremlinum nær vitanlega ekki neinni átt. Það sýnir aðeins, hvað stj. ruglar öllu saman og færir útgjöldin undir allt aðra liði en ber að færa þau, enda er einn liðurinn í aths. yfirskoðunarmanna beinlínis aðfinnslur við stj. út af þessu.

Þá má minna á 28. aths. yfirskoðunarmanna, þar sem þeir spyrjast fyrir um það, hvernig standi á því, að tollstjóranum hér í Rvík hafi verið greiddar fullar 10 þús. kr. sem uppbót á laun hans fyrir árin 1925–1928. Embættismaður þessi hefir þótt vel launaður, a. m. k. var mikið um það talað af núv. stjórnarflokksmönnum, þegar verið var að breyta embætti hans síðast. En það kemur þessu máli ekki við, heldur hitt, hvort hér hafi verið um löglega greiðslu að ræða. Í svari sínu við þessari fyrirspurn yfirskoðunarmanna segir stj., að þessi maður hafi ekki gengið undir launalögin þegar þau voru sett 1919, og því ekki fengið dýrtíðaruppbót af launum sínum. En með breyt., sem gerð var á launalögunum 1920, hafi svo verið ákveðið, að allir embættis- og sýslunarmenn landsins, einnig þeir, sem tækju laun sín eftir öðrum lögum en launalögum, skyldu fá dýrtíðaruppbót þá, sem launalögin ákvæðu. Að tollstjórinn, sem þá var lögreglustjóri, gekk ekki undir launalögin 1919, mun hafa verið af því, að hann hafði meiri tekjur af embætti sínu með því að halda því eins og það var heldur en ganga undir launalögin. En svo segir stj., að dýrtíðaruppbót hafi ekki verið greidd af launum lögreglustjdra á arunum 1925–1928, og því hafi hann átt upphæðina hjá ríkissjóði. Út af þessu vil ég benda á, að það er alveg skýrt tekið fram undir umr. um breyt. launalaganna 1925, bæði af stj. og frsm., að undir það ákvæði ættu ráðherrarnir aðeins að falla. Þetta er svo skýlaust tekið fram, að það er enginn vafi á, að hvaða dómstóll sem væri myndi dæma það svo, að samkv. þessari breyt. launalaganna væri ekki heimilt að greiða öðrum en ráðherrunum dýrtíðaruppbót. Það er því tvímælalaust, að þessa upphæð verður að endurgreiða í ríkissjóðinn, því að hún er úr honum greidd í heimildarleysi. Fyrir þetta er ég þó alls ekki að saka stj. mikið; hún hefir litið skakkt á lögin og ekki tekið eftir ummælunum um þau.

Þa má benda á 30. aths. yfirskoðunarmanna út af vinnuhælinu á Litla-Hrauni. Til þess eru veittar 12 þús. kr., en stj. eyðir 82 þús. Auk þess er ólag á fjárreiðum hælisins. Það á t. d. útistandandi hjá Árnessýslu og ýmsum hreppsfélögum þar eystra, en skuldar þó sjálft hartnær 17 þús. í árslok.

Þá má minnast á 32. aths. Hún er þess eðlis, að mér finnst ómögulegt annað fyrir þingið en að taka hana til greina. Það er beinlínis stórvítavert, hvernig dómsmrh. fer þar að. Hann greiðir Sigvalda Kaldalóns héraðslækni í embættislaun 6800 kr., í stað 4900 kr., eða hartnær 2 þús. umfram embættislaun hans. Það sjá nú allir, út í hvaða óefni það myndi fara, ef stj. væri leyft að fara út á þá braut að greiða hærri laun en ákveðin eru í launalögunum. Þetta tilfelli hefir aldrei komið fyrir áður, og er því eftirtektarvert, hverju stj. svarar aths. yfirskoðunarmanna um þetta. Vil ég því með leyfi hæstv. forseta lesa svar hennar hér. Það hljóðar svo: „Eftir að Sigvaldi Kaldalóns hafði sótt um og fengið veitingu fyrir Keflavíkurhéraði, tilkynnti hann heilbrigðisstj., að hann óskaði að fá að setjast aftur í sitt gamla læknishérað vegna þeirra óþæginda, er hann yrði að þola af hálfu þeirra manna, er vildu binda hendur heilbrigðisstj. um veitingu Keflavíkurhéraðs. Heilbrigðisstj. tilkynnti há Iækninum, að ekki þætti fært að neita honum að fá aftur Flateyjarhérað, en að jafnskjótt og hann hefði fengið veitingu fyrir því, myndi verða notuð heimild stjórnarskrárinnar til að flytja hann milli jafngóðra embætta. Beygði læknirinn sig fyrir þeirri vissu, og var þá sleppt því formi að láta fara fram nýjar veitingar honum til handa, en laun hans í Keflavíkurhéraði ákveðin hin sömu og honum bar í Flateyjarhéraði“. Þetta er þannig fóðrað með því, að það séu hærri laun í Flateyjarhéraði en Keflavíkurhéraði. En þessu til skýringar skal það tekið fram, að laun héraðslækna eru ákveðin mjög misjöfn. Launin eru ákveðin lægri í heim héruðum, þar sem aukatekjurnar eru miklar, en hærri þar sem þær eru litlar. Það er reynt að miðla því þannig, að embættistekjurnar verði sem jafnastar. Þó hefir reynslan orðið sú, að það eru beztu héruðin, þar sem föstu launin eru lægst, en aukatekjurnar mestar. Þannig er það t. d. víst, að Keflavíkurhérað er miklu tekjumeira en Flateyjarhérað. Það gat því ekki komið til mála að fara að borga á milli embættanna, þó að flutt væri á milli þeirra. Keflavíkurhérað er eitt með tekjumestu héruðum landsins vegna mannfjöldans. Hitt kemur málinu ekkert við, þó að læknirinn sé þannig, að hann sé lítið sóttur. Annars er það svo, að til þess, sem hér hefir verið gert, er engin heimild í stjórnarskránni. Í 16. gr. hennar segir, að flytja megi menn milli embætta, ef þeir missi einskis í af embættistekjum. Hér er ekkert talað um föst laun, heldur embættistekjur, svo að það, sem stj. er að skjóta undir þessa grein, getur alls ekki undir hana heyrt. En svo ber þess ennfremur að gæta, að maður þessi var aldrei fluttur á milli embætta. Það stóð víst meira að segja aldrei til. Allt það, sem sagt er í svari stj. við þessari aths. yfirskoðunarmanna, er því skáldskapur einn og uppspuni. Hinsvegar er það svo, að þessi heimild til að flytja milli embætta hefir verið lítið notuð og ætti að vera lítið notuð. Sjá allir, hvaða afleiðingar það getur haft fyrir embættismenn, ef stj. ætlar að staðaldri að rífa menn upp úr stöðum sínum og flytja í önnur embætti. Er það varhugavert fyrir ríkissjóð, ef alltaf á að borga mönnum viðbót við laun þeirra, því að annar maður kemur í hitt embættið og fær líka hærri laun. Er ekki ástæða til þessa í því tilfelli, sem hér um ræðir. Held ég því, að ekki sé hægt að komast hjá því að láta endurgreiða þessar upphæðir. Að því er snertir þessar endurgreiðslur gegnir þó ekki sama máli um þessa tvo menn. Annar þeirra hefir vel efni á að borga, en hinn síður, en ekki er þó hægt að láta það raða. — Hefði ekki annað þurft í þessu máli en að láta vélritara í stjórnarráðinu skrifa 3 bréf, umsókn, veitingu og svo 3. bréfið, þar sem læknirinn er fluttur milli embættanna. En ekki er nú svo mikil lotningin fyrir Alþingi, að þessi bréf séu skrifuð. [Frh.].