03.06.1932
Efri deild: 93. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

824. mál, tekju- og eignarskattsauki

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Fjhn. flytur þetta frv. að tilmælum hæstv. fjmrh. Frv. felur í sér heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta með 25% viðauka tekju- og eignarskatt fyrir árið 1932. Það er bent á í hinni stuttu grg., sem frv. fylgir, að útlit sé fyrir, að ekki verði hjá því komizt að nota heimildina. En ég hefi fengið leyfi hæstv. fjmrh. til að lýsa því yfir hér, að meiningin sé að nota ekki heimildina nema brýn nauðsyn sé til, og eins og frv. ber með sér, á ekki að innheimta viðauka þennan fyrr en eftir 1. okt., eða ekki fyrr en sjá má fyrir, að ríkissjóður þurfi á þessum tekjuauka að halda.

Ég vil geta þess, að þó að fjhn. flytji frv., þá hafa einstakir nm. sérstöðu um málið, sem ég býst þó ekki við, að komi fram við þessa umr., en þeir munu aftur á móti áskilja sér rétt til að bera fram brtt. við 2. umr.

Ég sé ekki ástæðu til, að frv. verði vísað til n., en hinsvegar mun fjhn. taka málið til athugunar og ræða það við hæstv. fjmrh. á milli umr. Legg ég svo til, að frv. fái að ganga til 2. umr.