04.06.1932
Efri deild: 95. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

824. mál, tekju- og eignarskattsauki

Magnús Torfason:

Ég vil aðeins geta þess, að í öðrum löndum hefir það verið gert að bæta við skatt á hátekjum og mun hafa verið fullgild ástæða til þess að það var gert. Það er ekki langt síðan samþ. var í Danmörku slíkur skattur sem þessi. Ég ætla ekki að fara út í ástæðurnar fyrir þessu að öðru leyti en því, að ég býst við, að þessi skattur komi til að hvíla harðast á launamönnum yfirleitt. — Þá verðum við að líta svo á, að eftir því sem krónan hefir lækkað, þá hafi lægri tekjur lækkað svo um leið, að þær megi illa við að bera þennan skattauka. En það verður ekki í allt horft og þeir hafa þó að föstu að ganga. Annars sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál nú, er séð er, að komið er alveg að lokaþætti þess.