04.06.1932
Neðri deild: 93. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2370 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

826. mál, lán til skipaviðgerðarstöðvar í Reykjavík

Flm. (Einar Arnórsson):

Eins og hv. dm. mun kunnugt. var samþ. á sumar þinginu í fyrra þál. um skipun 3 manna n. til þess að athuga möguleikana fyrir því að koma upp skipaviðgerðarstöð hér í Rvík. Í n. þessa voru svo skipaðir þeir Pálmi Loftsson framkvæmdarstjóri, Ásgeir Þorsteinsson verkfr. og Ben. Gröndal verkfr., og hafa þeir nú skilað ýtarlegu áliti um málið. Í framsöguræðu minni í fyrra gerði ég grein fyrir nauðsyn þessa máls og get því að mestu vísað til þess, sem ég sagði þá. Mun ég þó að einhverju leyti endurtaka það, sem ég sagði þá, til frekari áréttingar. Mér taldist svo til í sumar, að hér á landi væru um 100 skip 100 tonn og þar yfir. En nú er svo ástatt hér, að velflest þessi skip verða að fara utan, ef þau þurfa að fá verulega aðgerð, því að hér á landi er ekki hægt fyrir þau að fá hana. Þetta kostar landið eðlilega stórfé. Þannig er t. d. talið, að vinnulaun, sem greidd hafa verið út úr landinu vegna þessara aðgerða, hafi numið á síðastl. ári allt að 1/2 millj. kr. Auk þess rennur allur ágóði af sölu á efni til viðgerðanna í vasa erlendra manna. Er því hér um allmikið fjárhagslegt atriði að ræða.

Þegar strand á sér stað hér við land og skipin nást út, er ekki hægt að fá nema lítilsháttar bráðabirgðaaðgerð hér. Alla aðalviðgerðina verður að fá ytra. Sem dæmi um það, hve þetta er erfitt og kostnaðarsamt, má nefna síðasta strandið. Eins og kunnugt er rakst Esja á sker vestur á Breiðafirði. Hún losnaði af skerinu og komst hingað til Rvíkur. Bráðabirgðaaðgerð á henni hér er talin munu kosta um 10 þús. kr. Síðan þarf að sigla henni út til aðalviðgerðarinnar. Það þarf alls ekki að lýsa því hér, hvílíkur kostnaðarauki það er að sigla skipinu svo út. Það þarf að greiða skipverjum kaup, greiða kol til ferðarinnar o. fl. o. fl. Það er því bersýnilegt, að nauðsyn ber til að ráða einhverja bót á þessu ástandi. Það munar miklu, ef hægt yrði að losna við að greiða a. m. k. 1/2 millj. út úr landinu árlega fyrir þessa hluti.

Hvað togarana snertir, þá getur þetta skipt mjög miklu máli. Það þarf ekki annað en að togari brjóti gat á botninn á sér, þá þarf hann að fara til útlanda til viðgerðar. Hann getur orðið frá veiðum mestalla vertíðina. Væri hægt að gera við hann hér, myndi fyrst og fremst sá tími, sem til viðgerðarinnar færi, verða miklu styttri. Auk þess gætu hlutaðeigendur haft eftirlit með aðgerðinni sjálfir, sem erlendis verður að kaupa dýrum dómum.

Síðan ég flutti þáltill. í fyrra, hefir það gerzt í þessu máli, að félag hér í bænum hefir keypt tæki til þessara hluta, sem nú eru á leið hingað með Selfossi. Þegar búið er að koma þeim fyrir, mun vera hægt að gera við flest skip hér, nema þá þau allra stærstu. Félag þetta mun nú ekki geta komizt af án þess að fá einhverja opinbera aðstoð, og er talið, að það muni vanta um 100 þús. kr. Þegar nú ekki er um stærri upphæð að ræða, finnst mér ekki vansalaust fyrir þingið, sem búið er að sitja á annað hundrað daga, að hlaupa ekki á einhvern hátt undir bagga með þessu nauðsynjafyrirtæki. Að það hafi dregizt svona lengi að taka mál þetta fyrir, er sökum þess fyrst og fremst, að ég var veikur um tíma og gat því ekki sinnt þingstörfum, og í öðru lagi vegna þess, að nú síðari hluta þingins hefir þingmálum beinlínis verið sáralítið sinnt.

Ef hv. d. sér sér fært að láta mál þetta ganga áfram, mun ég koma fram með brtt., sem gefur stj. heimild til þess að taka þann kostinn fyrirtæki þessu til hjálpar, sem henni þætti hagkvæmastur.

Sé ég svo ekki ástæðu til að hafa þessa framsöguræðu mína lengri.