04.06.1932
Neðri deild: 94. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

826. mál, lán til skipaviðgerðarstöðvar í Reykjavík

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Það, sem í raun og veru réttlætir það, að stj. skerist hér í leikinn og heiti nokkrum styrk til þess að koma þessu fyrirtæki fram, er það, að fyrirtæki eins og þetta er alls ekki gróðafyrirtæki. Það er miklu fremur hætta á, að það beri sig illa. Hinsvegar er það með öllu ófært, að hér sé engin dráttarbraut til, þar sem hægt sé að taka upp þau skip, sem þarf að botnskoða. Mér hefir virzt, að sumir hv. þdm. haldi, að þegar þessi dráttarbraut sé komin á, þá eigi að gera þar við öll þau skip, sem einhverrar viðgerðar þurfa við, en þessu er alls ekki svo varið. Það á aðeins að taka skip á dráttarbraut, þegar um botnskemmdir er að ræða, eins og t. d. á Esju nú. Hitt dettur engum í hug, að þar eigi að gera við þau skip, sem hafa t. d. bilað dekk. Það væri bæði óþarfi og líka allt of kostnaðarsamt að þurfa að borga í sambandi við slíkar viðgerðir það háa daggjald, sem verður að greiða fyrir þau skip, sem tekin eru á dráttarbrautina. Fyrirtækið er jafnnauðsynlegt fyrir því, þó að erfitt verði að láta það bera sig. Hinu er ég algerlega á móti, að bærinn eða það opinbera fari eins og nú standa sakir að skipta sér af þessum málum. Hinsvegar eru samningarnir þannig útbúnir, að ef þetta firma gefst upp, þá er það skyldugt að láta bæinn fá þetta, og eftir 20 ár getur bærinn tekið þetta fyrirtæki í sínar hendur, ef það er ekki rekið með nægu tilliti til þess, sem almenningsheill krefst.