19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

3. mál, landsreikningar 1930

Magnús Guðmundsson [frh.]:

Ég held, að ég hafi, er umr. sleit síðast, verið búinn að svara hv. þm. V.-Húnv. og hv. frsm. meiri hl. n. að mestu leyti. Og þá vildi ég aðeins benda á nokkur atriði út af sumum aths. yfirskoðunarmanna við LR. Í sambandi við 4. aths. yfirskoðunarmanna viðvíkjandi rekstrarreikningi tók ég það fram í gær, að stj. hefði fært of lítið af útgjöldunum á rekstrarreikning og að ýmsar upphæðir tilheyrandi rekstrinum væru færðar annarsstaðar, sýnilega í þeim tilgangi, að geta sýnt betri rekstrarútkomu heldur en er í raun og veru. Sem dæmi um þetta má benda á það, að á rekstrarreikningi er ekki sýndur neinn halli af rekstri síldarbræðslustöðvar ríkisins á Siglufirði, enda þótt vitanlegt sé, að þar hefir rekstrarhallinn á árinu 1930, að viðbættum vöxtum, numið um 130 þús. kr. Það er auðvitað alveg rangt að færa þetta á stofnkostnaðarreikning verksmiðjunnar. En sé þessi upphæð sett á rekstrarreikning, þar sem hún á heima, þá kemur þar fram mismunur, sem nemur henni. Þetta nefni ég aðeins sem dæmi, en ýmsar aðrar upphæðir hefðu einnig átt að koma á þann reikning. Um þetta voru yfirskoðunarmenn ekki sammála. Ég skildi samverkamenn mína svo, að þeir væru ánægðir með þessa reikningsfærslu, eins og frá henni var gengið, en það var þvert á móti um mig. — Um húsaleigu fyrir íbúðir í Laugarnesspítala er það kunnugt, að í LR. fyrir árið 1929 voru færðar 20 þús. kr., sem notaðar voru til þess að útbúa ibúðir í Laugarnesspítala; ársvextir af þeirri upphæð eru 1200 kr., en leigan, sem ríkissjóður fær á ári fyrir þessar íbúðir, er aðeins 994,05 kr., svo að það er ekki einu sinni fyrir vöxtum af þeirri upphæð, sem lögð var í aðgerðina, og auk þess grunar mig, að þessi leiguupphæð sé fyrir lengri tíma en í ár. Við spurðumst fyrir um, fyrir hvað langan tíma þessi leiga væri reiknuð, en fengum ekkert svar við því. Þrátt fyrir þetta skilst mér, að meiri hl. fjhn. vilji ekkert athuga þetta frekar. En þó ber að taka það til greina, að þær 20 þús. kr., sem greiddar voru til endurbóta á húsinu, eru þar komnar í húseign, sem það opinbera á ekki. Það er kunnugt, að ríkissjóður á ekki þetta hús, og þessar 20 þús. kr. eru ekki afturkræfar. Það mundi þykja lítil hagsýni í því hjá einstaklingum að leggja fram tugi þús. kr. til umbóta á eignum annara manna, og fá ekki einu sinni endurgreidda vexti af þeirri upphæð, hvað þá meira.

Þá kem ég að 19. aths. yfirskoðunarmanna, þar sem minnzt er á aftaldar og niðurfelldar lausaskuldir í LR. 1929. Stj. svarar þessu svo, að 1929 hafi verið taldar í lausum skuldum hjá menntaskólanum á Akureyri kr. 388,83. Upphæð þessi hafi ekki verið færð til gjalda í reikningum skólans 1930 og heldur ekki til skuldar í árslok; þess vegna virðist stj. rétt að færa hana til tekna, eins og gert hefir verið. Þegar við yfirskoðunarmenn gengum frá till. til úrskurðar um þetta atriði, þá vissum við ekki annað en að þetta mætti svo vera. En fyrir fáum dögum hringdi skólameistari menntaskólans á Akureyri mig upp í síma og sagði, að þessi upphæð væri enn ógreidd til skólans, og kvaðst mundu krefja um hana síðar. Þannig kom í Ijós, að aths. var rétt og að þessa skuld mátti ekki fella niður, því að hún verður að borgast síðar. Annars er það merkilegt, að þegar stj. svarar aths. yfirskoðunarmanna, þá skuli hún ekki grennslast eftir því, hvort búið sé að greiða þessa upphæð eða ekki. Þess vegna vil ég nú taka það fram, að þó að við í till. okkar segðum: „Má við svo búið standa“, — þá er það ekki rétt. Það er rangt að hafa þetta af skólanum, þótt gleymzt hafi að færa upphæðina á reikningum hans, og verður því að greiða hana síðar. Þessar 388 kr. eru því vantaldar í skuldum ríkissjóðs. — Þá er rétt að nefna 25. aths., um greiðslur fyrir aukavinnu í stjórnarráðinu. Sá kostnaður vex svo gífurlega frá ári til árs, að á því er ekkert hóf; hann er 30% meiri árið 1930 heldur en 1929, og árið 1929 var hann 25% hærri en árið áður. Ég tók eftir því, að hv. þm. V.-Húnv. taldi, að inni í þessari hækkun mundi vera falið nokkuð af kostnaði við alþingishátíðina. Hvað á hv. þm. við með þvi? (HJ: Vegna aukinnar starfsemi í stjórnarráðinu í sambandi við hátíðahöldin). Nú, hv. þm. byggir það ekki á öðru. Ég þori nattúrlega ekki að fullyrða um, hvað störfin hafa aukizt vegna hátíðarinnar, en þó að það hefði máske verið skrifað 100–200 bréfum fleira en venja var til, þá getur það ekki munað mörgum tugum þúsunda kr. í auknum kostnaði fyrir aukavinnu, eins og LR. sýnir.

Um skrifstofukostnað tollstjórans í Rvík og kostnaðinn við tolleftirlitið þýðir víst ekki að ræða hér. Ég flutti frv. um það snemma á þinginu, að sá kostnaður væri lækkaður, og nál. var skilað um það frv. fyrir 2 mánuðum síðan, en þrátt fyrir það hefir frv. ekki verið tekið á dagskrá.

Um vinnuhælið á Litla-Hrauni hefir hv. 4. þm. Reykv. nokkuð rætt, og skal ég ekki fara frekar út í það.

En þá kem ég næst að 40. aths. yfirskoðunarmanna, um útgjöld ríkissjóðs vegna friðunar á Þingvöllum. Ég vil upplýsa það, að yfirskoðunarmönnum kom það nokkuð spánskt fyrir, að greitt hafiði verið útsvar Markúsar Jónssonar á Svartagili úr ríkissjóði. Svar stj. er, að þessi útsvarshluti sé greiddur samkv. lögum um friðun Þingvalla, en það getur ekki verið rétt, því að þessi maður býr fyrir utan hið friðlýsta svæði á Þingvöllum. Skrifstofustjórinn í fjmrn. hefir nú sagt mér, að þetta útsvar, 300 kr., sé ekki greitt fyrir Markús, heldur fyrir staðarhaldarann á Þingvöllum.

Um ýmsar af aths. yfirskoðunarmanna er nú búið að ræða svo mikið, að ég skal ekki að svo komnu bæta meiru við það. En út af óánægju hv. þm. V.-Húnv. yfir hinum mikla kostnaði í sambandi við alþingishátíðina, vil ég benda á, að mér fannst hann gleyma þar einum lið, sem eigi getur talizt mjög nauðsynlegur, en það er 1000 kr. greiðsla til sýslumannsins í Strandasýslu fyrir lögreglustjórn á Þingvöllum hátíðardagana. Ég hygg, að yfirvaldið hafi ekki verið þar nema 1 eða 11/2 dag, svo að honum hefir verið býsna vel borgað fyrir þann tíma. Aftur á móti þótti hv. þm.V.-Húnv. ákaflega illa farið með fé ríkissjóðs, þar sem borguð hafði verið 1000 kr. þóknun handa fátækum manni, sem starfaði kauplaust á annað ár í alþingishátíðarn. Ég á erfitt með að finna samræmi í þessu eða sanngirni hjá hv. þm. og býst við, að svo fari fyrir fleirum.

Þá er 59. aths., viðvíkjandi reikningum landhelgissjóðs. Þar reyndu yfirskoðunarmennirnir mikið að komast til botns, en gátu þó hvergi fundið 40 þús. kr. Leitaði þó hv. þm. V.-Húnv. rækilega að þeim, fór upp í skipaútgerð ríkisins og fékk að sjá reikninga hennar, en hafði ekkert upp. En svo þegar svar ráðh. kemur, stendur þar, að þessi upphæð hafi farið í kostnað við „risnu, bifreiðar, hestahald og fleira, sem greitt er að öllu úr landhelgissjóði“. Ég verð að segja, að mér ofbýður það alveg, að það skuli hafa verið á einu einasta ári bara úr landhelgissjóði notaðar 40 þús. kr. til risnu, bifreiða og hestahalds, og er ekki að furða, þótt fé landhelgissjóðs hverfi skyndilega, þegar svo er að farið.

Í svari stj. við þessari aths. segir, að grg. fylgi. En sú grg. er þannig úr garði gerð, að það er ómögulegt að taka hana gilda. Yfirskoðunarmennirnir hafa því heimtað alla reikninga sjóðsins til frekari yfirskoðunar, og skoða ég þá kröfu samþ., eftir því sem orð fellu hjá hv. frsm. meiri hl. Heildarreikningarnir eru þannig úr garði gerðir, t. d. efnahagsreikningurinn, að þar er stórum liðum alveg sleppt, og þarf því að semja þá upp af nýju. Sem dæmi um reikningsfærsluna 1930 má nefna, að meðal eignanna eru taldir 2 hestar, en kostnaður við hestahaldið var 1929 talinn 4400 kr. Af þessu gæti maður haldið, að hestarnir hafi verið fleiri árið 1929 heldur en árið 1930 og að einhverju af þeim hafi verið fargað á þessu tímabili. En þá hefði átt að finnast einhver tekjuliður, sem sýndi andvirði þeirra hesta, sem seldir hefðu verið eða lógað. Ekki gátu þeir orðið að engu. En svo kemur það merkilegasta. árið 1930 er kostnaður við hestahald ennþa mörg þús. kr., þótt talið sé, að landhelgissjóður eigi einungis tvo hesta, sem virtir eru á 600 kr. Það eru þeir dýrustu hestar, sem ég hefi nokkurn tíma komizt í kynni við. Hér hlýtur annaðhvort að vera falinn á bak við einhver kostnaður, sem ekki á heima á þessum lið, eða reikningarnir eru beinlínis rangir. Hitt er útilokað, að svona mikill kostnaður hafi verið við tvo hesta á einu ári.

Auk þessara 40 þús. kr., sem hafa verið notaðar úr landhelgissjóði til veizluhalda, bíla og hestahalds, hafa verið keyptir nýir bílar fyrir á 13. þús. kr., var þó áður búið að kaupa bíla fyrir landhelgissjóð. Maður skyldi halda eftir þessu, að eitt aðalstarfið við landhelgisgæzluna væri bundið við bílferðir.

Þetta er náttúrlega út af fyrir sig ekki nema lítið sýnishorn af meðferð hæstv. stj. á fé hins opinbera á árinu 1930. Skal ég ekki þreyta þá fáu hv. þm., sem í d. eru, á því að telja fleiri dæmi, þótt ástæða væri til þess að fara ýtarlegar út í þetta mál, því að enn er af nógu að taka.