19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

3. mál, landsreikningar 1930

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Hv. frsm. minni hl. og hv. 2. þm. Skagf. hafa nú gert allmargar aths. í sambandi við LR., sem fyrir liggur. Þær skiptast í tvennt, almennar aths., sem aðallega hafa komið frá hv. frsm. minni hl. og svo hugleiðingar um einstök atriði, sem fram hafa komið frá báðum.

Okkur frsm. ber í raun og veru ekki mikið á milli um það, sem hv frsm. minni hl. sagði um málið almennt. Ég get verið honum sammáIa um margt af því, sem hann sagði, og þá fyrst og fremst um það, að stj. beri að binda sig meira við vilja þingsins um meðferð ríkisfjár heldur en gert hefir verið, bæði að þessu sinni og á fyrri árum. Það er gamalt og nýtt ólag, að stj. hafa leyft sér að verja miklu fé umfram heimildir fjárlaga og annara laga. Og þó það þyki hafa borið með mesta móti á því það ár, sem hér er um að ræða, þá liggja einnig til þess nokkrar sérstakar ástæður, eins og ég gerði nokkra grein fyrir við umr. fjáraukalaganna. Aftur erum við frsm. ósammála um það, hvernig beri að snúast við þessu ólagi. Hv. frsm. minni hl. vill byrja á því nú að synja um staðfestingu þingsins á LR. og koma þannig, að því er ég tel, aftan að stj. En afstaða meiri hl. n. er sú, að það verði að samþ. þennan LR. eins og aðra, þótt á honum séu þær misfellur, sem áður hafa verið á mörgum LR. Meiri hl. álítur að rétt afgreiðsla á málinu geti verið sú, að gefa nú stj. aðvörun fyrirfram, jafnhliða því sem reikn. er samþ., og ganga svo eftir því í framtíðinni, að gætt sé meira hófs í þessum efnum en verið hefir.

Það hafa orðið hér nokkrar almennar umr. um form LR. Ég vék að því í upphafi, að ég býst við, að það nýja form, sem LR. eru nú í, sé ekki komið í svo fastar skorður, að það geti ekki staðið til bóta. Það hefir verið minnzt nokkuð á till. eins yfirskoðunarmannsins, Péturs Þórðarsonar, um form LR. Það er margt í reikningsforminu, sem gera má að álitamáli. Að vísu eru bæði formin, form Péturs Þórðarsonar og form. LR., sem fyrir liggur, nokkuð lík.

Það eru þrír höfuðreikningar hjá báðum. Á LR. sjálfum er það rekstrarreikningur, reikningur yfir allar inn- og útborganir og sjóðreikningur, sem er skilgreining um sjóðeign ríkisins í ársbyrjun, þær jafnaðartölur, sem inn koma af hinum öðrum reikningum, og sýnir niðurstaðan svo, hver sjóðeignin er í árslok. Auk þessara þriggja höfuðreikninga eru svo ýmsir fylgireikningar og skýrslur þeim til skýringar. Skal ég geta um, hverjar þær eru, fyrst ég er farinn að tala um þetta á annað borð. Fyrst er skýrsla um lántökur ríkissjóðs. Önnur skýrslan er um lausaskuldir ríkissjóðs, þriðja um innstæður ríkissjóðs eða útistandandi skuldir hans. Þá er reikningur eða skilagrein yfir eignahreyfingar, skýrsla um eignir og skuldir ríkisins, skýrsla um flokkun ríkisskuldanna, sem hagstofan hefir gert, og svo loks skýrsla um ábyrgðir ríkissjóðs. Á eftir þessu koma svo fylgiskjöl eða ágrip af þeim.

Í reikningsformi Péturs Þórðarsonar er líka rekstrarreikningur, sem er mjög líkur þeim, sem er í LR., er fyrir liggur. Þó munar þar einhverju á færslum, en sá munur kemur þá fram á öðrum reikningum.

Svo hefir hann sjóðreikning, sem tekur yfir allar tekjur og öll rekstrargjöld ríkisins, allar lántökur á árinu og greiðslur vegna þeirra og sjóðeign í ársbyrjun og árslok.

Þegar þetta allt er tekið á einn reikning, kemur út hin haa tala, sem hv. 2. þm. Skagf. nefndi, 38 millj. kr. Péur Þórðarson hefir þannig í raun og veru samið tvo af þeim reikningum, sem á LR. eru nú, reikninginn yfir út- og innborganir og sjóðreikninginn. En svo hefir hann reikning yfir eignir og skuldir ríkisins, sem ég tel formlegri heldur en skýrslur LR. um það efni.

Það getur vitanlega orðið ágreiningur um það í einstökum tilfellum, hverjar útborganir á að færa á rekstrarreikning og hverjar sem eignahreyfingar. Þó ætti að vera hægt að setja um það nokkurnveginn ákveðnar reglur. Allar inn- og útborganir, sem verða til þess, að einhver eignarliður hækkar eða lækkar, svo sem kostnaður til nývirkja, sem færast upp til eignar á eignareikningi, umbætur á eignum umfram viðhald og fyrningu, sem látnar eru valda verðhækkun á eigninni og afborganir skulda, eiga vitanlega að færast sem eignahreyfingar, en aftur á móti allt, sem heyrir til rekstri og viðhaldi eigna, á rekstrarreikning.

Meiri hl. af ræðum þeirra manna, sem andmælt hafa LR. eða einstökum atriðum hans, hefir snúizt um aths. yfirskoðunarmannanna, svör hæstv. stj. við þeim og till. yfirskoðunarmanna til úrskurðar. Þetta hefir allt legið skjallega fyrir öllum þingheimi síðan LR. kom út, og auk þess er nú verið að prenta það upp í einu aðalblaði bæjarins, svo að það mun allt orðið vel kunnugt. Þó vil ég ekkert sérstaklega um það fást, ef hv. þm. hafa ánægju af að lesa þetta upp hér í d. Þeir gera það sennilega sér til hugarhægðar og afþreyingar, eða í þeim ákveðna tilgangi að koma því inn í Alþt. Mun það þó óþarfi, því að ég hygg, að LR. sé lát inn fylgja Alþt. út um landið. Og þar að auki hafa mörg þeirra atriða, sem hér hefir verið rætt um, verið aðalumræðuefni blaðanna um undanfarin ár og á framboðsfundum við síðustu kosningar.

Af þessum ástæðum þykir mér ekki sérstök þörf á að fara ýtarlega út í þessi einstöku atriði, og að því leyti, sem ég ætla þó að minnast á þau, geri ég það ekkert frekar til þess að andmæla því, sem um þau hefir verið sagt, þótt ég sé því ekki sammála, heldur fyrst og fremst til þess að lýsa dálítið öðrum sjónarmiðum heldur en fram hafa komið.

Hv. frsm. minni hl. byrjaði á því að tala um umframgreiðslur til vegamálanna. Taldi hann nokkra vegi, sem mikið hefði verið greitt til umfram fjárl.heimild. Ég veit ekki, af hverju hann gerir þetta svo mjög að umtalsefni, því að það er ekki annað en það, sem algengt hefir verið. Ég veit ekki til, að það hafi áður verið átalið sérstaklega, þótt stj. hafi látið vinna fyrir meira heldur en tiltekið hefir verið í fjárlögum að vegagerðum og öðrum beinum umbótum á landi og landshögum, hafi fé verið fyrir hendi til þess. Til þess að sýna, að þetta er ekkert eindæmi, skal ég rifja upp, hvað greitt var til nokkurra vega umfram það, sem tiltekið var í fjárlögum árið 1926, þegar hin sparsama íhaldsstj. sat að völdum. Það er þá fyrst Kjalarnesvegur; til hans voru veittar í fjárlögum 8 þús. kr., en unnið var fyrir 31 þús. kr. Til Holtabrautar voru veitt 20 þús., unnið fyrir 28500. Til Sauðarkróksbrautar voru veittar 20000 kr., unnið fyrir 29500. Til Hróarstunguvegar voru notaðar tæpar 17000 kr. umfram fjárveitingu. Til Vaðlaheiðarvegar 4500 kr. umfram fjárveitingu. Til Norðurardalsvegar var ekki veitt ein einasta króna í fjárlögum, en unnið fyrir tæpar 30 þús. kr. Til Vestmannaeyjarvegar var heldur ekkert veitt, en unnið fyrir 2500 kr. Það er smá upphæð, en ég nefni hana aðeins með, af því að hv. 2. þm. Skagf. talaði um ýmsar smáar upphæðir.

Þá var varið til byggingar í Fornahvammi 51 þús. kr., sem ekki höfðu verið veittar í fjárlögum. Engin af þessum upphæðum kom þó á LR. fyrir árið 1926, heldur voru þær allar geymdar, taldar í sjóði um áramótin og færðar til útgjalda á næsta árs reikningum.

Um þá aðferð var mikið rætt í sambandi við LR. í fyrra, og var þá bannfærð af hv. stjórnarandstæðingum. Það gengur svona, að klögumálin ganga á víxl, menn gæta ekki alltaf sanngirni, þegar verið er að leita að einhverju til þess að ásaka og ámæla andstæðingunum fyrir, og gleyma oft að stinga hendinni í sinn eigin barm.

Þá talaði hv. frsm. minni hl. einnig um umframgreiðslur til vegaviðhalds og brúargerða. Framkvæmd þessara mála er eins og menn vita í höndum vegamálastjóra, og ekki er ósennilegt, að það velti að einhverju leyti á honum, hverju fram fer í þessum efnum. Og benda má á það, að fjárveitingin til vegaviðhalds hlýtur að skoðast aðeins áætlunarupphæð. Það mun vera tilætlun þingsins að helztu vegum landsins sé haldið færum, hvort sem það kostar meira eða minna. En það getur verið mjög mismunandi og fer m. a. eftir veðráttunni: Þegar votviðrasamt er, þarf að kosta meiru til vega viðhalds heldur en þegar þurrviðrasamt er. — Um brúargerðirnar má e. t. v. segja, að síður sé en um vegaviðhald ástæða til að kosta meiru til þeirra heldur en tiltekið er í fjárl. Þó vil ég ekki telja það fé eftir, sem til þeirra hluta hefir verið varið, því að brúargerðir eru einhverjar þær nauðsynlegustu umbætur, sem hægt er að gera, og sem betra er, að gerðar séu í dag heldur en á morgun, ef hægt er. Auk þess má benda á, að svo getur staðið á, þegar fjárveitingin er búin, að e. t. v. margar brýr séu í smíðum, lengra eða skemmra á veg komnar. Þá er um það tvennt að velja, hvort það á að hætta og láta það, sem búið er að gera standa hálfgert og e. t. v. í hættu fyrir eyðileggingu eða skemmdum og a. m. k. ónothæft, eða hvort halda á áfram og fullgera brýrnar, þótt kostnaðurinn fari fram úr fjárveitingu fjárlaganna. Þannig mun einmitt hafa staðið á árið 1930, og ég fyrir mitt leyti tel, að hæstv. stj. þurfi ekki að taka sér það nærri, þótt hún verði fyrir ávítunum fyrir að hafa varið fé til brúargerða um fram það, sem til var tekið í fjárlögum.

Þá hefir mikið verið rætt um héraðsskólann á Laugarvatni, hvað kostnaður við hann færi langt fram úr heimild. Hefi ég vikið að þessu áður, og er, eins og kunnugt er, von á sérstakri till. í því máli frá einum yfirskoðunarmanninum. Tala ég því ekki ýtarlega um það mál að sinni.

Það, sem mest er átalið og ekki er hægt að neita, að rétt sé, er tvennt, að ekki hafi verið gætt skilyrðis héraðsskólalaganna um framlag á móti ríkisstyrknum, og að farið hefir verið fram úr heimild fjárlaga um framlög til skólabyggingarinnar. Það atriði, að farið hefir verið fram úr hálfu framlagi á móts við framlag annarsstaðar frá, er hægt að laga með því að krefja héraðið um það, sem á vantar helmings framlag. Hygg ég þó, að þetta myndi reynast erfitt í úrlausn, því að eftir þeim tölum, sem fyrir liggja, munu standa rúmar 100 þús. kr. upp á héraðið. Fjárveitingin umfram fjárlagaheimild er óneitanlega há, eins og ég nefndi áður. Ráða þm., hvað þeir vilja gera út af því. En það verður líka að líta á þörf og gagn héraðsins af því að fá svona mikinn og myndarlegan skóla. Verður hver og einn að ráða það við sig, hvað hann vill gera út af þessu máli, úr því sem komið er.

Hv. 2. þm. Skagf. spurði mig, út af 28. aths. yfirskoðunarmannanna, sem snertir dýrtíðaruppbót til tollstjórans í Rvík, hvort það væri ekki rétt skilið hjá honum, að fjhn. fellist á till. yfirskoðenda, að þetta fé beri að innheimta. Get ég ítrekað það, sem ég sagði áður, og skilur hann það rétt, að n. álítur, að innheimta beri féð. Vilja n.menn þó ekki bera ábyrgð á því, að innheimtan takist. Ef tollstjóri álítur þetta ranglega greitt, endurgreiðir hann það eflaust fúslega. Annars verður sjálfsagt mál út af kröfunni, og veltur þá á dómi. Meiri hl. n. hefir ekkert sérstakt á móti því, að þetta sé reynt. — Viðvíkjandi greiðslunni til læknisins í Keflavík ítreka ég það, sem ég hefi áður sagt, að meiri hl. n. þykir vel mega við svo búið standa. (MG: Og líka í framtíðinni?). Hér segir ekkert um það. Till. tekur aðeins til þess, sem orðið er.

Þá minntist hv. 2. þm. Skagf. á 40. aths., a. og b., sem er ein af þeim aths., sem yfirskoðunarmenn hafa ekki gert beina till. út af. Hefir nokkuð verið um þetta rætt áður, þ. á m. í blöðunum, og gert mikið veður af. Hv. þm. hefir nú fengið grun um, að það myndi vera einhver misskilningur um þetta atriði. Hygg ég, að sá misskilningur sé æðimikill, og byrjar hann í hendi yfirskoðunarmanna. Hefi ég í hendi frumkvittanir fyrir þessum útsvarshlutum, sem ég hefi fengið frá fjmrn. Kvittunin fyrir útsvarshluta sr. Guðm. Einarssonar er ekki upp á 1116 kr., eins og í aths. segir, heldur 116 kr. Lítur út fyrir, að hér sé um misgáning að ræða frá hendi yfirskoðunarmanna. (MG: Ætli það geti ekki verið prentvilla?) Kvittunin er skrifuð. (MG: Ég á við aths.). Getur verið, ég veit ekkert um það, en þá hefðu yfirskoðunarmenn ekki þurft að gera svona mikið veður út af þessu.

Viðvíkjandi útsvarshlutanum, sem talið er, að greiddur hafi verið til Markúsar Jónssonar, hefir yfirskoðunarmönnum líka yfirsézt. Stendur hér á kvittuninni: Greitt til Markúsar Jónssonar vegna Jóns Guðmundssonar, útsvar Þingvalla. Hafa yfirskoðunarmenn því ekki lesið nákvæmlega texta kvittunarinnar, þegar þeir gerðu aths.

Það má í einu orði segja um hinar mörgu aths. hv. frsm. minni hl., að þar er tínt til bæði smátt og stórt. Það, sem þykir stórt, er blásið út, en um það, sem minna þykir, er dylgjað með tvíræðum orðum, eins og: „á mjóum þvengjum — og öðru þess háttar góðgæti. Mætti benda hv. þm. á það, að slíkar dylgjur sem hann hefir haft, gætu hitt fleiri en núverandi stj., því að oftar en nú hefir verið farið einnig smávegis fram úr heimildum. Að gefnu þessu tilefni, skal ég minnast á atriði, sem ég man frá fyrri árum, meðan Björn heitinn Líndal var á þingi. Bar ég þá fram ásamt honum till. um fjárveitingu til landsfundar kvenna á Akureyri. Hún var felld. Bárum við þá till. aftur fram með lægri upphæð, og var hún líka felld. En þegar fjáraukal. komu fyrir það ár, þá var þar m. a. leitað aukafjárveitingar fyrir fjárgreiðslu til þessa landsfundar kvenna, sem Alþingi var búið að fella, ekki einu sinni, heldur tvisvar.

Ég hefi áður minnzt á það, að eftir uppgerð Péturs Þóðarsonar á LR. eða till. hans til uppgerðar, er gerð grein fyrir öllum lántökum og því, hvernig lánsfenu hefir verið varið upp á eyri. Út af þessu sagði hv. 2. þm. Skagf., að heimildir myndu að vísu hafa verið til frá Alþingi, en að þingið myndi ekki hafa veitt þær, hefði það vitað fyrir, að tekjur yrðu svo miklar sem raun varð á. Veit ég ekki, fremur enn hann, hvað þingið myndi hafa gert, ef það hefði vitað, að tekjurnar yrðu svona miklar. Hér kemur að mikilsverðu atriði, og það er þetta: Hvers vegna urðu tekjur svona miklar umfram áætlun? það virðist hafa komið flatt upp á menn, sérstaklega stj.andstæðinga. Hafa þeir gripið til þeirrar skýringar, að skattar og tollar hafi verið hærri í stjórnartíð Framsóknarstj. en á tímabilinu næst á undan, tímabili íhaldsstj. því hefir verið mótmælt; að tollur hafi til uppjafnaðar verið hærri á seinna tímabilinu en því fyrra, en það hefir verið látið gott heita, að skattar og tollar hafi verið álíka háir á báðum tímabilunum. Ég fullyrði og get sannað, að skattar og tollar voru ekki að meðaltali hærri á síðara tímabilinu en því fyrra, heldur þvert á móti lægri.

Þegar þess er nú gætt, að árferði var á þessum tveim tímabilum mjög líkt og sambærilegt, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefir gert grein fyrir í því merka tímariti Stefni — ég ber það fyrir mig, ef þetta verður véfengt —, og að tekjustofnar voru lægri að meðaltali síðara tímabilið en það fyrra, þá hljóta að vera einhverjar sérstakar ástæður fyrir því, að tekjur urðu svona miklu meiri en áður. Þær ástæður þurfa ekki að vera torfundnar eða duldar. Í stjórnartíð núverandi stj. hefir verið betra eftirlit með öllum embættisrekstri í landinu en áður var, og er það önnur höfuðástæðan. Hin höfuðástæðan er hið aukna tolleftirlit, sem núv. stj. hefir harðlega verið ásökuð fyrir. Það er aðal „embættafarganið“, sem stjórnarandstæðingum hefir orðið svo tíðrætt um. — Vitanlega var ekki hægt að framkvæma það, án þess að það kostaði nokkurt fé, en það fé hefir komið margfalt aftur. Þessi er skýring á því, því tekjur urðu svo miklu meiri á stjórnartíma Framsóknar en Íhaldsflokksins. Ef tekjur þessara tveggja tímabila eru bornar saman, þá er munurinn ekki lítill. Tekjurnar eru um 6 millj. kr. hærri síðara tímabilið, í sambærilegu árferði, þrátt fyrir lægri tollastofna. Finnst mér, að þegar lagt er svo mikið kapp á það að áfellast núverandi stj. fyrir það, að hún hefir verið ör á fé til ýmissa aðkallandi og þarflegra hluta, þá megi líka hafa það í huga, að hún hefir átt beinan þátt í því að afla ríkisfjárins umfram áætlanir, líkur og vonir, miðað við undanfarna reynslu. Menn eru oft minnugri á það, sem þeim þykir ekki vel gert, en á hitt, sem vel er gert. Og þá ætla ég, að dómurinn sé sönnu næstur, ef tekið er tillit til hvorstveggja.