08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (2804)

30. mál, vigt á síld

Vilmundur Jónsson:

Ég skal vera miklu hreinskilnari en hv. frsm, meiri hl. n. og viðurkenna, að tilefnið til þess, að frv. Þetta er fram komið, er hneyksli það, sem kom fyrir á Hesteyri í sumar — annað Krossaneshneyksli. Sjómenn fyrir vestan hafa sumir haft nokkur viðskipti við bræðsluverksmiðjuna þar og jafnframt við verksmiðjuna á Sólbakka. Þá hefir lengi grunað, en fengið fulla vissu fyrir því í sumar, að þegar þeir fara með síld til Hesteyrar, skapast þeir um 20% á móts við það að selja hana á Sólbakka. Togarinn Hávarður Ísfirðingur hafði um 3 ára skeið selt síldarafla sinn til Hesteyrar. Á þeim tíma mældist aldrei meira upp úr togaranum en 1500 mál, en síðar, er hann fór að selja til Sólbakka, hafa mælzt upp úr honum rúm 1800 mál. Sumt af þessari skekkju mun stafa af því, að drýgra vigtast fyrir seljandann en mælist, þótt mælikerin séu rétt. Þetta álita menn, að muni nema um 10%. En auk þessa reyndust síldarmálin á Hesteyri svo gölluð, að á því munaði til uppjafnapar öðrum 10%. Þetta er sannfæring sjómanna í þessum efnum, ekki einungis vestfirzkra sjómanna, heldur og sjómanna hér syðra, sem hafa sömu reynslu, og þess vegna kemur þeim saman unt að skora á Alþ. að breyta þessum lögum eins og hér er farið fram á. Ég verð að segja, að það bendir á litla hæversku hjá hv. þm. G.-K., hvernig hann tekur í þetta mál. Ekki þar fyrir, að auðvitað væri rétt að krefjast þess af hv. þm. G.-K., að hann gæfi þinginu nákvæma skýrslu um þetta hneykslismál. En búast hefði mátt við, að hann flytti hana fremur bljúgur, þar sem afstaða hans í þessu efni er mjög undarleg og tortryggileg. Hér er flutt fyrir tveimur árum frv. um, að öll síld skuli vegin. Til þess á að hafa löggilta vog og viðstaddur á að vera löggiltur vigtarmaður. Einnig á að skoða síldarvogina einu sinni á ári og búa sem tryggilegast um allt. Þá smeygir hv. þm. G.-K. þeim fleyg inn í frv., að eftir sem áður megi mæla síldina án nokkurra tilsvarandi trygginga og settar voru um síldarvigtunina. Nokkru síðar kemst það upp, að hans eigin verksmiðja er eina verksmiðjan á landinu, sem mælir síld og notar í tilbót of stór mál. Allt er þetta svo tortryggilegt, að það mætti vera mikill heiðursmaður, sem í hlut ætti, ef menn freistuðust ekki til þess að gruna hann um græsku. Það er vitanlegt, að hv. þm. átti uppástungum að þessum lagafleyg, og það er hv. frsm. meiri hl. n. sannarlega ekki til heiðurs, að hann skyldi hlaupa til að flytja hann með honum á sínum tíma. En aftur á móti ber að viðurkenna það, að hann hefir nú seð að sér og reynir að bæta fyrir það, sem hann hafði áður brotið. Ég skal gjarnan láta það liggja á milli hluta, hvort yfirleitt sé heppilegra að mæla síld eða vega, en hitt er víst, að tryggilega verður að ganga frá þeim málum, hvor aðferðin sem er viðhöfð. Ef álitið er nauðsynlegt að skoða allar síldarvogir árlega og nota aðeins löggiltar vogir, það á eigi síður að viðhafa hina sömu varúð um mælikerin og síldarmælingarnar. Og ef á annað borð á að vega síld, þá á að vega alla bræslusíld undantekningarlaust. Nú er það svo, að aðeins ein verksmiðja á landinu mælir síld, en vegur ekki. Það hér að hafa hugfast, þegar verið er að ræða um, að með þessu frv., ef að l. verður, sé verið að leggja skatta og kvaðir á atvinnureksturinn í landinu. Það er aðeins um eitt atvinnufyrirtæki að ræða, sem á að veita sérstök hlunnindi. Allir aðrir atvinnurekendur í sömu grein hafa tekið upp síldarvigtun, lagt í þann kostnað, sem því er samfara, og bíða tjón af vigtuninni, ef hún hefir tjón í fór með sér. Það er aðeins eitt fyrirtæki í landinu, sem á að græða á mælingunum.

Til þess að sýna fram á, að nokkur ástæða muni vera til þess fyrir sjómenn að heimta, að þessu verði kippt í lag, má geta þess, að sumir þeirra álíta sig hafa tapað stórfé á síldarmælingunum. Togarinn Hávarður Ísfirðingur hefir t.d. á 3 árum selt til Hesteyrar um 32 þús. mál af síld. Eftir því sem mælingin á Hesteyri og vigtunin á Sólbakka hefir reynzt, reiknast svo til, að tapast muni allt að 1/5 á því að leggja síld upp á Hesteyri á móts við það að selja hana á Sólbakka. M. ö. o., ef togari á borð við Hávarð Ísfirðing skiptir við Hesteyri í 5 ár, fær bræðslustöðin eitt árið allan aflann úr skipinu fyrir ekki neitt. Er ekki rétt reiknað? (ÓTh: Ég reikna á eftir). Eigendurnir hafa 1/5 minna upp úr síldinni og sjómennirnir 1/5 minni premíu fyrir það að fara til Hesteyrar, en ekki Sólbakka. Þetta mundi nema um 10 þús. málum á 5 ára meðalafla. Það er ekki stórfé, á að gizka 50 þús. kr., en þó laglegur hlutur tekinn á þurru landi. Ég skal ekki fjölyrða miklu frekar um þetta atriði. En sem sagt, ef menn vildu gruna hv. þm. G.-K. um græsku, þá hefir það verið vel til vinnandi fyrir hann að skjóta þessum fleyg inn í frv., og þakklátur má hann vera hv. frsm. meiri hl., sem hefir verið honum hjálplegur með að fáa aðstöðu til að geta grætt með svo hægu móti 50 þús. kr. jafnvel á einu skipi.

Sjómennirnir á Hávarði Ísfirðing eru búnir að reikna út, að sú premia, sem þeir væru búnir að tapa þessi 3 ár, næmi 174 kr. á mann. Það eru ekki miklir peningar frá sjónarmiði okkar hv. þm. G.-K., en eigi að síður miklir frá sjónarmiði þeirra manna, sem ekki sízt nú búa við þröngan kost og bera skarðan hlut frá borði atvinnuveganna. Þessir sjómenn búast við að gera kröfu á hendur togarafél., um að það endurgreiði þessa peninga, sem á þennan hátt voru af þeim hafðir vegnu þess, að félagið hafði ekki séð um, að rétt premia kæmi þeim í hendur. Togarafél. mun svo aftur gera kröfu á hendur verksmiðjunni á Hesteyri. Eftir því sem mér hefir skilizt, mun þeirri kröfu verða tekið greiðlega, og er það vel, því að fél. er illa stætt og getur naumast greitt sjómönnunum þetta lítilræði, nema Kveldúlfur taki málinu vel.

Ég vil áður en ég lýk máli mínu mótmæla þeim skilningi, sem fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. n., og myndi e. t. v. verða mikið farið eftir, ef ómótmælst væri og mál rísi út af l. þessum, að heimilt sé eftir sem áður að mæla síld, ef kaupandi og seljandi koma sér saman um það. Það á að vera skylda að vega alla síld, og við gerum ekki ráð fyrir þeim tilfellum, að það sé ekki hægt. Það má auðvitað ímynda sér, að vog bili, en þá er að hafa nógar til vara. Öll áhöld geta bilað, en í þessu tilfelli getur slíkt ekki gilt sem afsökun. Ég vil láta þann skilning koma skýrt fram, að eftir að þessi l. eru gengin í gildi, er með öllu óheimilt að mæla bræðslusíld, en skylt að vega hana undir öllum kringumstæðum.