08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2805)

30. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Hv. frsm. meiri hl. n. vildi halda því fram, að vigtun síldar þyrfti ekki að vera til tafar, ef vogin væri til. En hinsvegar er það alltaf fast í hans huga, að ekki þurfi að hafa þessa vog til, þótt hann nú, gagnstætt till. sínum árið 1930, vilji skylda alla til þess að vega, en banna að mæla. þessi hugsun kom enn berar í ljós, þegar hann mælti þessi orð, sem og skrifaði orðrétt eftir honum: „En ef vogina vantar, er ekki útilokað, að kaupandi og seljandi geti áætlað þungann eða komið sér saman um að nota mælingu“. Ég ætla nú aðeins að biðja hv. frsm. að fara eftir sannfæringu sinni í þessu máli, bara í þetta eina skipti.

Það leit út fyrir, að landlæknirinn, hv. þm. Ísaf., væri að skeyta skapi sínu á mér fyrir það, að hv. þm. voru í dag að minnast á bitlinga þessa hálaunaða gæðings. En ég lagði þar ekkert til málanna. Hv. þm. Ísaf. sagðist vilja vera hreinskilnari en frsm. meiri hl. og segja, að það væri þetta „hneyksli“ á Hesteyri, sem væri ástæðan til flutnings þess. máls. Hann sagði ennfremur, að sjómenn hefði lengi „grunað“, að svik væru viðhöfð á þessum stöðum, og svo spann hann langan vef um það, að Hávarður Ísfirðingur hefði selt í 3 ár til bræðslustöðvarinnar á Hesteyri og ávallt verið svikinn um 20% af aflanum, en Kveldúlfur myndi hafa stolið eins árs afla af þessu skipi. Allt fram til ársins 1931 var öllum, sem síld keyptu, heimilt að mæla hana. Það hefði ekki orðið fyrr en síðastl. sumar, sem l. gátu komið til framkvæmda, hefði ég ekki „smeygt inn“ þessum „fleyg“. Sönnunin fyrir þessum skaða, sem sjómennirnir eiga að hafa orðið fyrir, er sú, að togarinn Hávarður Ísfirðingur hefði um hríð selt afla sinn á Hesteyri, en þar hefði aldrei mælzt úr honum nema 1500 mál, en undir eins og hann hóf viðskipti við verksmiðjuna á Sólbakka, mældust úr honum 1800 mál. Ég skal skýra frá því og heimila hverjum sem er í hv. d. að koma og skoða bækur Kveldúlfs, til þess að ganga úr skugga um það, að öll þau fjögur ár, sem við höfum starfrækt þessa verksmiðju, hefir sá afli, sem skipin hafa komið með í einstakri veiðiför, farið síhækkandi. Fyrsta árið kom hæsta skipið inn með 1100 mál í einu. Árlega hefir þetta farið vaxandi hjá öllum skipunum, og nú á síðastl. sumri komst þetta hámark upp í 2300 mál. Orsökin til þessa er vaxandi reynsla; skipstjórarnir hafa komizt að því, að rétt sé að taka lestarúm skipanna fyrir síld, og einnig að hafa sem allra minnst af kolum og salti, til þess að rýra ekki burðarmagn skipanna. Af þessu hefir það leitt, að hámark aflans hefir aukizt jafnt og þétt frá 1100 upp í 2300 mál. Þessar sannanir hv. þm. eru því gripnar úr lausu lofti og falla dauðar niður. Það er ekki mikið í ræðu hv. þm., sem ég þarf að svara, að undanskildu því, er hann sagði, að ég mætti vera mikill heiðursmaður til þess að vera ekki grunaður um græsku í þessu máli, og auðfundið var, að þm. þótti mikið skorta á, að ég væri slíkur heiðursmaður.

Ég vil í tilefni af þessu víkja að því, hvort líkur séu fyrir sviksamlegum tilgangi mínum eða þeirra manna, sem stjórna því fyrirtæki, sem hér hefir orðið fyrir árásum.

Strax og sá kvittur kom upp, að dómsmrh. hefði sent varðskipið „Þór“ til þess að mæla síldarmálin á Hesteyri, og er fregn kom um það, að málin hefðu mælst stærri en lög standa til, gerði Kveldúlfur grein fyrir þessu máli, og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hér upp úr þeirri greinargerð.

Við byrjum á því að skýra frá, að síldarmálin séu smíðuð eftir löggiltri fyrirmynd og eigi að vera 150 lítra stór. Við greinum ennfremur frá því, að sami maður hafi smíðað öll þessi mál. Þessi maður hefir gefið vottorð, sem ég með leyfi hæstv. forseta vil leyfa mér að lesa upp:

„Undirritaður Einar Þorsteinsson beykir, Lindargötu, vottar hér með, að árið 1927 kom Söbstad, verkstjóri á Hesteyri, til mín og bað mig að smíða síldarmál fyrir hlutafél. Kveldúlf eftir fyrirmynd, sem Söbstad afhenti mér og var 150 lítra mál löggilt af löggildingarstofunni. Síðan hefir ég smíðað öll síldarmál fyrir Hesteyrarstöðina og hefi ég gert það eftir beztu getu og reynt að hafa öll eins“.

Ég skal taka það fram, að enginn okkar bræðra hafði kynni af þessum manni áður en hann kom í þessa þjónustu, sem byrjaði með því, að verkstjóri okkar bað hann að smíða málin. Ennfremur skal ég geta þess, að það mun vera upplýst fyrir rétti, að aldrei hafi neinn af okkur bræðrum átt tal við hann um það, hvernig hann smíðaði málin eða hvernig hann skyldi smíða þau. Í þessari grein vörpuðum við svo fram þeirri spurningu, hvort það sé líklegt, að við höfum framið hér eitthvað í sviksamlegum tilgangi, og um það farast okkur svo orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrst viljum við taka það fram, að þegar skip okkar hófu síldveiðar á síðastl. sumri, var það á allra vitorði, að verðlag á síldarmjöli og síldarlýsi var svo lagt, að telja mátti a. m. k. mjög vonlítið um hagnað af rekstri skipanna eða starfrækslu bræðslustöðvar okkar á Hesteyri. Hinsvegar var mikil áhættu samfara þessum atvinnurekstri, eins og líka hefir komið greinilega á daginn. Því að þrátt fyrir alveg eindæma aflaár, er útlit fyrir halla á rekstrinum.

Þrátt fyrir það afréðum við af ýmsum ástæðum að gera út á síldveiðar. En það sem langmestu réði um, að hafizt var handa, var það, að við vildum ekki fyrr en í síðustu lög láta niður falla starfsemi, sem veitir góða atvinnu yfir tvö hundruð manns, sem annars hefðu flestir orðið atvinnulausir. Þessi hugsun okkar skar úr ákvörðun okkar um starfrækslu síðastl. sumar, og viljum við eigi láta þess ógetið, enda þótt við búumst ekki við, að forráðamenn sjómanna vilji taka það trúanlegt. —

Þá komum við að þeirri meginspurningu, hvort líklegt sé, að við höfum viljað gera tilraun til þess að hafa fé af hásetum okkar með því að nota svikin síldarmál. —- Nokkrar tölur svara þessu alveg tvímælalaust.

Hásetar á skipum okkar hafa 214 kr. lágmarks mánaðarkaup, auk þess tæpa 6 aura premíu af hverju síldarmáli, ennfremur ókeypis fæði og loks ókeypis salt í þann fisk, er þeir afla í tómstundum sínum. Þeir báru í sumar nokkuð misjafnt úr býtum, eftir afla skipanna. Lægsta eftirtekja lægst launaða háseta varð 1320 kr., en hin hæsta 1823 kr., auk fæðs og hlunninda.

Við skulum nú gera ráð fyrir því, að rétt sé, að mælikerin hafi reynzt að meðaltali 160 lítrar, í stað 150 lítra, og nemur sú skekkja um 6%. Þá hefði hásetum borið 61/3 eyrir í premíu af innihaldi hvers mælikers, í stað 6 aura. — Hverju mundi sú upphæð nema? Það þykja góð aflabrögð, ef síldarafli togara nær 10 þús. málum. Árið sem leið var hið einstakasta aflaár, sem dæmi eru til, svo að meðalafli skipa okkar varð 18 þús. mál, en hefir áður hæst orðið 12100 mál.

Það liggur nú í augum uppi, að hver sá, er hefði ráðgert að hagnast á sviknum síldarmálum, hefði við útreikning á væntanlegum gróða miðað við afla í meðalári. Við skulum því fyrst reikna út, hver sá gróði getur orðið. Í fjögur ár höfum við gert út togara okkar til síldveiða. Meðalársafli þeirra allra til samans hefir verið á þessum árum 51 þús. mál. Premia hásetanna er sem næst 1 krónu á málið, og nemur því premia allra hásetanna að meðaltali 51 þús. kr. á ári.

— Svikagróði okkar hefði því átt að verða 6% af þessari upphæð, eða rúmar 3 þús. kr. En venjulegur kostnaður með rekstur togaranna yfir síldveiðitímann og hagnýtingu og sölu síldarafurðanna hefir verið 800 þús. kr. til 1 milljón á ári.

En nú skal útreiknað, hverju þessi umtalaði gróði hefði getað numið á hinu einstæða aflasumri síðastl. ár.

Þess var getið, að lægst launaði hástetinn á skipum okkar bar úr býtum 1320 kr. auk fæðis, sem kostar útgerðina um 180 kr., eða alls 1500 krónur. Hefði hann nú fengið í viðbót 1/3 úr eyri á hvert mál, sem skipið lagði á land á Hesteyri, hefði það numið —16 kr., og kaupið því orðið 1546 kr. í stað 1500 kr. Hæst launaði hásetinn hefir, eftir sama reikningi, fengið 2003 kr., en ætti að hafa fengið 60 kr. meira, eða alls 2063 kr.

Og hvað hefði nú Kveldúlfur grætt á slíku atferli?

Alls voru lögð á land á Hesteyri tæp 80 þús. mál, og nemur premían af því, samkv. því, sem fyrr var sagt, um 80 þús. kr. Svikahagnaður okkar hefði því átt að nema 6% af þeirri upphæð, eða alls um 4800 kr., en rekstrarkostnaður við síldarframleiðsluna hefir í ár orðið sem næst 820 þús. kr.

Fæst nú nokkur maður til þess að trúa því, að það atvinnufyrirtæki, sem tekur á sig alla þá áhættu, sem fylgdi síldveiðum okkar í sumar, og sem fúslega geldur hásetum 2003 kr. auk hlunninda fyrir 60 daga vinnu, geri leik að því að leggja mannorð sitt í veð til þess eins að geta ranglega haft 1/3 úr eyri af sjómönnunum af síldarmálinu, eða alls 46–60 kr.?

Og hver fæst til að festa trúnað á, að stærsta verzlunar- og útgerðarfélag landsins taki upp á því að láta búa til svikin mæliker, og noti þau allt sumarið í augsýn allra þeirra, sem verið er að hafa af, einungis til þess að seilast til 3000–000 kr. ránfengs, upp í 800 þús. til einnar millj. kostnað? Þessu trúir enginn.

Enginn af sjómönnum okkar hefir borið fram neinar kvartanir við okkur, og er ólíklegt, að þeir menn, sem bera úr býtum 1500 –2000 kr. á sama tíma sem aðrir sjómenn, sem samskonar vinnu stunda og skiptu við síldareinkasölu ríkisins, höfðu aðeins 100–200 kr., fari að hefja málaferli á hendur þeim, sem kaupið hafa goldið, án þess að gera tilraun til að ná rétti sínum áa friðsamlegan hátt. Upptök þessa máls liggja því áreiðanlega annarsstaðar, svo sem væntanlega sannast, þegar öll kurl koma til grafar.

F.h. stjórnar h/f Kveldúlfs,

Richard Thors“. [Frh.].