09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2810)

30. mál, vigt á síld

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Ég heyri það, að hv. þm. Ísaf. hefir síðan í gær leitað upplýsinga um hina afarseinu afgreiðslu síldarskipa á Siglufirði hjá útgerðarstjóranum á Ísafirði. Mér kemur það ekki á óvart, þó að þessi ágæti flokksbróðir hv. þm. gæfi yfirlýsingu honum í vil í þessu efni, en ég ætla ekki að órannsökuðu máli að leggja mikið upp úr slíkri yfirlýsingu.

Hv. þm. vildi halda því fram, að ég hefði farið rangt með prentaða heimild, en það er ekki rétt; ég las aðeins upp úr umræddri skýrslu þá frásögn, sem hann hefir ekki getað mótmælt, og hún er dæmi þess, að almenningur lítur svo á, að vigtun á síld tefji afgreiðsluna að mun. Benda má og á það, að bili vogin, sem í flestum tilfellum mundi vera eina vogin, sem um væri að ræða, meðan á uppskipun stendur, þá má gera ráð fyrir, að það geti tekið töluverðan tíma að gera við hana, en uppskipunin stöðvaðist á meðan. Þetta getur verið mjög bagalegt, einkum þegar mikið berst að af síld, og valdið því, að skip þurfi að bíða aðgerðalaus eftir því, að vogin komist í lag. En ef þessi lagabreyt. verður samþ., er það augljóst, að annaðhvort verður skip, sem selja vill afla sinn þegar svo ber undir, að vog er eigi fyrir hendi eða í ólagi, að fara burt við svo búið eða að viðkomandi verksmiðja veitir síldinni móttöku og er þar með fallin undir sektarákvæði frv. og getur orðið að borga allt upp í 20 þús. kr. sekt. Ég vil taka það fram og undirstrika það, að við, sem erum á móti þessu frv., höfum alls ekki lagt á móti því, að síld verði vegin. Við teljum það eðlilegt og rétt, eða a. m. k. eins eðlilegt, að hún sé vegin eins og að hún sé mæld. En við viljum ekki einskorða þetta og teljum það óeðlilegt og óhafandi, að út af því megi ekki breyta, hvernig sem á stendur. Og við höfum bent á fordæmi fyrir því, að þetta sé ekki heppilegt; við höfum bent á l. um vog á salti, og það er viðurkennt, að þau séu ekki haldin. Og það má benda á fleira, sem er eðlilegt, að sé vegið, en ekki mælt; t. d. ætti að fara svo með kol. En það er mjög mikið gert að því að afhenda kol eftir máli, þannig, að fyrstu körfurnar eru vigtaðar, en það er svo látið duga og sú vigt lögð til grundvallar. Þetta er ekki af því, að það þykir ótryggara að vega en mæla, heldur af því, að þörfin á hraðri afgreiðslu fær menn til að víkja frá þessum lagafyrirmælum og taka upp þá aðferð, sem fljótlegri er.

Alveg sama er að segja um síldina, því að af öllum veirutegundum er afgreiðslan á síld sú afgreiðsla, sem mestan þarf að hafa hraðann við og mestu tjóni veldur, ef bið og uppihald verður á afgreiðslunni, ef alveg er bannað að mæla hana.