09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2811)

30. mál, vigt á síld

Jón Ólafsson:

Já, ég sé nú ekki ástæðu til að halda langa ræðu um þetta mál. Mér fyrir mitt leyti finnst þetta mál rekið á hann hátt frá hlið hv. þm. Ísaf. og tekið undir það hér í hv. d. í þeim gamla tón, sem hér hefir mikið borið á á undanförnum þingum, sem sé, að hér á Alþ. ætti að setja lög um allt viðkomandi viðskiptum vinnusala og vinnukaupanda á þeirri útgerð, sem hér um ræðir.

Það, sem hv. þm. Ísaf. fer hér með, er ekki annað en þessar gömlu teoríur jafnaðarmanna, að reyna að gera aðra tortryggilega og þá sérstaklega þá, sem standa framarlega í framleiðslunni. Það mætti ýmislegt segja um félag það, sem hv. flm. er viðriðinn á Ísafirði, hvernig þeirri starfsemi er komið nú og heim pólitíska tilgangi, sem það er stofnað í, og þeirri mislukkun, sem það hefir orðið fyrir í meðferð þeirra manna, sem fyrir því standa. En það skiptir ekki máli hér, heldur hitt, að þessir menn eru sí og æ að reyna að finna út, hvar þeir eigi að leggja net sín, í hvaða vatni þeir eigi að fiska, pólitískt. Þetta er undirrótin að þessu máli, og á hana verður að líta. Við útgerðarmenn erum búnir að kenna á þessu og höfum orðið fyrir miklu afhroði vegna þekkingarskorts, skilningsleysis og talhlýðni hv. þm. í þessum málum. Við höfum orðið fyrir því afhroði fyrir aðgerðir Alþingis, svo sem vegna vökulaganna frægu o. fl. laga, sem það hefir sett. Það er orðið útilokað að reka þennan útveg í samkeppni við nærlendar þjóðir, sem skilið hafa það, að það verður að láta vinnuna ganga meðan á því stendur að ná í aflann. Þeir standa nú algerlega yfir höfuðsvörðum okkar í þessu máli, af því að það er ekki kleift fyrir okkur að láta útgerðina bera sig með þeim allskonar kvöðum, sem á hana hafa verið lagðar. Afleiðingin af þessu skilningsleysi er svo sú, að þeir eru nú bráðum búnir að svipta okkur þessum arðvænlega atvinnuvegi, því þessi útgerð, sem hefir gefið mest af sér, er nú að verða útdauð hér. Eftir getum við þá setið með afleiðingarnar af því skilningsleysi að hlynna ekki í einu og öllu að þessum arðvænlegasta og afkastamesta atvinnuvegi landsmanna, og hafa látið ráða hugsun og teoriur þeirra manna, sent ekki vilja skilja, hvað útgerðin þolir, og nota tortryggnina sem agn til að komast fram með það, sem er til niðurdreps og bölvunar fyrir landslýðinn. Því þetta er það, sem ræður frumkvæðum þessara manna í þessum málum. Það er alls ekki umhyggjan fyrir þeim, sem þetta er rekið til hagsmuna fyrir og að þessu eiga að búa um atvinnu, sem ræður hjá þessum mönnum, því það er þeim til niðurdreps. Þetta vita menn. Og ég þykist vita, að hv. þm. Ísaf. viti þetta líka, ef hann rótar dálítið upp í sinni samvizku. (ÓTh: O, hún er nú engin til hjá honum). Þetta lítur vel út í augum þeirra manna, sem ekki hafa þekkingu til að dæma um þessa hluti, en ekki í augum hinna, sem hafa þekkingu og greind í þessum efnum. Þegar verið er að fiska, verða menn að leggja alla krafta fram til að ná sem mestum afla, vegna eigin atvinnu; það er nauðsyn sjálfra þeirra.

Hv. þm. G.-K. hefir upplýst, og ég hefi enga ástæðu til að rengja það, að þeir menn, sem voru hjá honum á síldveiðum síðastl. sumar, hafi haft um 2000 kr. fyrir tveggja mán. tíma; þeir hafa þannig haft yfir 30 kr. á dag. Þarna sér maður það, að það er stærsta spursmálið og mest um það vert að liggja sem skemmst í höfn. Það er það, sem er afgerandi í þessu máli. Þess vegna skiptir það ekki svo miklu máli, hvort það munar einhverjum kílóum eða prósentum, heldur að ná í aflann. Það má vel vera, að þetta sé alveg eins ónákvæmt á Sólbakka. Það getur alveg eins komið fyrir ónákvæmni um vigtina eins og um málin, þegar verið er að flytja afgreiðslu skipa, sem þurfa að komast út. Yfirleitt eru menn þá ekki að hugsa um þetta. Ég sé, að hv. þm. Ísaf. hlær. En ég skal segja honum dæmi upp á þetta. Það er sem sé dálítil keppni um það milli síldarverksmiðjanna, hvor fær meira út úr sínu hráefni, Sólbakkaverksmiðjan, með sína vigt á málinu, eða þeir á Hesteyri með málið, sem hefir verið mælt. og það merkilega var nú, að það komu nákvæmlega jafnmörg % af lýsi og mjöli úr málinu á báðum stöðvunum. Þetta er talandi vottur þess, að Hesteyrarstöðin fær ekki meiri síld úr málinu en Sólbakkastöðin, þar sem ekki fæst meira af lýsi og síld úr hverju máli. Þetta er líka ofur eðlilegt. Þegar vigtað er, er þess nákvæmlega gætt, að ekki sé sjór eða annað í síldinni, sem þyngir hana. Og það kemur augljóslega fram í þessari útkomu, sem hér er nefnd. Við uppskipun og vigtun á síldinni á Sólbakka er þess gætt, að ekki sé sjór eða annað óverðmætt vigtað með. Þegar verið er að flýta sér að mæla, fer alltaf ýmislegt með í málin, sem ekki gefur arð í útkomunni. Þeir, sem því athuga þetta, hljóta að sjá, að af mælingu síldar geta hásetar hagnazt. En aðalatriðið í þessu máli er þó það sem öllum ætti að vera augljóst, að það er tafsamara að vigta en mæla, svo að afgreiðsla gengur verr og skipin liggja lengur, sem er tap fyrir alla aðila. Og þegar menn hafa 30 kr. á dag, er það fljótt að koma. Ef skipið tefst, segjum t. d. 4 klst. lengur, er þar komið langtum, langtum meira tap fyrir skipshöfnina en þó það munaði 1, 2, 3 eða jafnvel 4% á síldarmálunum. Það gefur ekki stórtalt eða stórgróða. Og þetta vil ég biðja menn að athuga, að um leið og þetta er sett í l., að alla síld skuli vigta, er verið að draga úr aflabrigðum skipanna. Og um leið er verið að lækka tekjur þeirra manna, sem að þessu vinna. með því að láta þá vera að núlla við vigtina í stað þess að mæla.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Það ætti að vera óþarfi. Það á að vera hverjum manni skiljanlegt, og svo veit ég ekki betur en að það sé mjög grandgæfilega passað af þeim, sem hlut eiga að máli, að mælingin fari rétt fram. Þessa er gætt við allar affermingar úr þessum skipum, og það vill því brenna við, að það skjóti upp gömlu skoðuninni, að það sé syndlaust að svíkja kaupmanninn. Það er þá setið um að gera það, sem gefur annað resultat en vera ætti, svo að jafnvel hefir orðið að skerast í leikinn. Þeir, sem verðlaun eiga að taka, vilja hafa sem allra mesta vigt, og voru svo mikil brögð að þessu á Sólbakka fyrir 2 árum, að ráð varð að breyta til.

Og það mun alstaðar vera svoleiðis, að þessir menn gæta sinna hagsmuna, og óþarft fyrir aðra að vera að hugsa um það, þeir eru alveg fyrir um að annast það sjálfir.

En þegar maður lítur á það, sem þessir menn hafa borið úr býtum, þá verð ég að segja, að það er ekki gott eða þakklátt verk að koma af stað þeirri sundurþykkju, er gæti orðið til þess, að þessir menn fengju ekki eins glæsilega útkomu í framtíðinni og þeir hafa haft undanfarin ár. Það er þegar búið að ganga of langt í þessa átt. Og enn er hér á ferðinni eitt atriði, að vísu ekki stórt, en þó í sömu áttina. Mér sýnist því allt bera að sama brunni, að við munum missa þessi afkastamestu framleiðslutæki, sem landsmenn hafa eignazt, vegna skilningsleyis hv. þm. á þessum málum.