09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (2815)

30. mál, vigt á síld

Vilmundur Jónsson:

Ég fæ ekki séð, að nein ástæða sé til þess að ræða öllu meira um þetta mál. Hv. þm. G.-K. hefir viðurkennt, að síldarmálin á Hesteyri hafi verið of stór, og það er það, sem mestu skiptir í þessu sambandi. Það er fullgilt tilefni og ástæða til þess að samþ. frv. það, sem hér liggur fyrir. — Þá hefir hv. þm. látið sér sæma að vera með persónulega áreitni til mín, en jafnframt verið svo lítilþægur, að óska eftir siðferðisvottorði sér til handa frá mér og vitnað í 25 ára kunningsskap okkar í því sambandi. Það er ekki rétt, að við höfum þekkzt í 25 ár. Við þekktumst fyrir 25 árum. Síðan höfum við ekkert þekkzt, og get ég því engan vitnisburð gefið honum um hegðun hans síðan. En fyrir 20–25 árum þekkti ég hann að því í skóla að „svindla“ sig gegnum hvert próf með engri þekkingu, en því meira monti, kjaftavaðli og hundavaðshætti. Hvort hann hefir breytzt síðan, get ég ekkert um sagt, en mér virðist hann vera mjög svipaður því, sem hann var.