21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2821)

30. mál, vigt á síld

Vilmundur Jónsson:

Ég ætla að vænta þess, að hv. d. taki ekki of hátíðlega þessum vitnisburði, þar sem röksemdirnar stangast eins og hrútar. Aðalatriðið í þessu máli er það, að bræðslusíld er vegin um allt land nema hjá einni verksmiðju. Ég býst við, að þeir menn, sem að hinum verksmiðjunum standa, hafi eins gott vit á þessu efni og fyrrv. löggildingarstjóri, sem vafasamt er um, að nokkurntíma hafi séð síld. Þeir una vigtuninni vel og dettur ekki í hug að skipta um. Því leitar ekki minni hl. n. vitnisburðar þeirra.

Það er aðeins ein verksmiðja, sem mælir síld og vill halda áfram að gera það. Hún hefir útvegað sér vottorð, sem fyrst og fremst er ómerkt í sjálfu sér, og því minna virði sem þessi sama verksmiðja, er leggur það fram sem gagn í málinu, hefir gert sig seka í stórfelldu hneyksli í sambandi við síldarmælingar og allt að því lútandi.