21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2823)

30. mál, vigt á síld

Vilmundur Jónsson:

Ég vil fyrst leiða athygli að því, að ekki er nauðsynlegt að setja þessar vogir á bryggjur eða bryggjusporða, heldur geta þær verið hvar sem vill á leiðinni frá skipi til verksmiðjunnar, því að vigtun síldarinnar fer þannig fram, að vögnunum er ekið á vogina einhversstaðar á þessari leið. Mér hafa og sagt skipstjórar, sem vitanlega bera bezt skyn á þessi mál, að því sé fjarri, að seinlegra sé að vigta síldina en að mæla hana, því að það sé þvert á móti fljótlegra, enda er þetta skiljanlegt, þegar athugað er, að málin þarf að fylla á ný, ef þau slást svo mjög til, að meira eða minna af síld hrýtur úr þeim, eins og offlega kemur fyrir, og tefur þetta auðvitað fyrir losuninni, en til þessa kemur hinsvegar ekki, ef síldin er vegin. Legg ég miklu meira upp úr umsögn reyndra skipstjóra í þessu efni heldur en umsögn forstjóra löggildingarstofunnar, sem mér vitanlega ber hvorki skyn á síld né síldarafgreiðslu, og er þetta ekki sagt forstjóranum til neins lasts.

Ég get bætt því hér við til fróðleiks, vegna þeirrar skýringar, sem hv. þm. G.-K, kom með við 1. umr. málsins hér í deildinni á því, af hverju hefði komið meira og meira upp úr skipunum á Hesteyri, eftir því sem þau lögðu þar upp fleiri vertíðir, að ég hefi heyrt aðra skýringu á þessu fyrirbrigði en skýringu hv. þm. G.-K., sem var fólgin í því, að skipin hefðu verið hlaðin misjafnlega hinar ýmsu vertíðir, og sú skýring, sem ég hefi heyrt, er miklu skiljanlegri en þessi skýring hv. þm. G.-K., þegar til þess er litið, að málin reyndust misstór, enda þótt þau séu öll smíðuð af sama beykinum og öll eftir sama löggilta málinu. Sannleikurinn mun vera sá — a. m. k. er það skoðun manna almennt fyrir vestan —, að beykirinn smíðaði till málin jafnstór í upphafi, og öll eins stór og stærstu málin reyndust, en við notkunina brotnuðu laggirnar á mörgum málunum, og var botninn í þeim færður upp af þeim ástæðum jafnótt og gert var við laggarbrotin. Þessi skýring er miklu skiljanlegri en skýring hv. þm. G.-K., því að ella verður það óskiljanlegt, af hverju málin urðu misstór, og vera þó öll smíðuð eftir sama málinu af sama beykinum.