21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (2825)

30. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Hv. þm. Mýr. taldi með réttu nauðsynlegt að leita einhvers óskeikuls úrræðis um afhendingu síldar, sem seld er í bræðslu, og kvað hann sig hafa sannfærzt um það af viðtali við kunnuga menn þessum hlutum, að þetta óskeikula úrræði væri að vega síldina. hér liggur nú fyrir umsögn manns, sem fer í þveröfuga átt, og verða ekki bornar brigður á það, að þessi umræddi maður, sem hér hefir og verið nafngreindur, beri fullkomlega skyn á þessa hluti, og skora ég því á hv. þm. Mýr. að tilgreina þessa menn, sem hann ber fyrir sig og trúir betur en forstjóra löggildingarstofunnar. Ég er að vísu sannfærður um það, að ef hv. þm. Mýr. hefði séð umsögn hr. Þorkels Þorkelssonar áður en hann skrifaði undir nál., mundi hann ekki hafa gert það, enda í samræmi við það, sem hv. þm. sagði í viðtali við mig, þegar þetta mál kom til athugunar í sjútvn.

Þá vildi hv. þm. Mýr. rökstyðja nauðsynina á að lögbjóða vigtun á allri síld, sem seld er til bræðslu, með því, að þannig væri hægt að koma í veg fyrir, að slík slysni gæfi hent menn, sem eru fullkomlega heiðarlegir menn í hvívetna, að dómi hv. þm., að nota stærri mál en lögboðið er. Út af þessu vil ég fyrst leiða athygli að þeim orðum hv. þm., að „jafnt megi svíkja mál sem vog, ef kaupendur síldar vilji leggja sig niður við það“, en þar næst benda á þau ummæli hr. Þorkels Þorkelssonar, að þó að vog vegi rétt í upphafi, getur hún verið orðin stórvægilega röng, þegar líður á síldveiðitímann, og er enda skoðun hans, að yfirleitt sé það heppilegra að mæla síldina en að vega hana. Hver sá maður, sem vill gera rétt í þessu máli, getur ekki komizt hjá því að hlusta á þessi orð, og hver sá maður, sem af alvöru vill girða fyrir það, að heiðarlegir menn verði felldir rógi og níði af vondum mönnum, sem vilja vekja grun á þeim í huga lítt dómbærs almennings, á því ekki að halda með vigt á síldinni, heldur þvert á móti reyna að vinna að því, að öll síld verði mæld, eins og hr. Þorkell Þorkelsson álítur, að réttast mundi vera. Ef hvorki ég né aðrir getum haft gat á, að mælikerin séu rétt, hvernig mættum við þá hafa gat á, að vogirnar séu réttar, sem eru enn flóknari og margbrotnari í meðförunum.

Hv. þm. Ísaf. sýndi það nú enn á ný, hve óráðvandlega hann rökstyður sitt mál. Þótti honum sem öryggisleysi þyrfti ekki að stafa af því um vogirnar, að þær væru settar á bryggjur eða bryggjusporða, því að þessa væri engin þörf. Vogirnar gætu verið hvar sem væri á leiðinni frá skipinu upp að verksmiðjunni. Nú veit ég, að hv. þm. veit það eins vel og ég, að skipin lenda við bryggjurnar, og er síldinni ekið eftir þeim skemmstu leið upp í þrærnar, sem hafðar eru við bryggjuendann.

Þá vildi hv. þm. halda því enn fram, að ekki væri fljótlegra að mæla síldina en að vigta hana, og færði það til um þetta, að svo seinlegt væri að ganga svo frá málunum við losunina, að ekki væri í þeim annaðhvort of eða van. Ég get nú sagt hv. þm. það, að þetta er alls ekki hnitmiðað, a. m. k. hefir það ekki verið gert á stöð Kveldúlfs fyrir vestan, nema þá ef vitanlegt var, að verið var að gera sér leik að því að vanfylla málin. Hefir þetta og verið upplýst í réttarhöldunum fyrir munn ekki lögfróðari manns en sjálfs formanns framsóknarfélagsins hér í Rvík, sem bar það fyrir rétti, að sá af framkvæmdarstjórum Kveldúlfs, sem hann um eitt skeið vann undir þarna fyrir vestan, hefði lagt svo fyrir, að ekki væri ástæða til að fjargviðrast út af fyllingu málanna, ef ekki væri um visvítandi brögð að ræða. Þó að vantaði svo sem 1–2 tommur á málin, væri ástæðulaust að vera að fetta fingur út í það, og jafnvel þó að vantaði 3 tommur, sem þó svarar til 9 lítra, sem er sú skekkja, sem að meðaltali hefir reynzt á málunum fyrir vestan. Ef menn því vilja hneigjast að því að láta vigta síldina, verður það að byggjast á því, að með því fáist fram meira öryggi, en eins og ég áður sagði, er þetta hvert ofan í umsögn hr. þorkels Þorkelssonar, forstjóra löggildingarstofunnar, sem ætti manna bezt að bera skyn á þessa hluti, því að hann heldur því fram, að meira öryggi fáist með því að mæla síldina.

Hv. þm. Ísaf. notaði enn á ný tækifærið til að sýna góðgirni sína og fyrirlitningu á hv. þdm. Ég hafði lesið hér upp skýrslu um aflabrögð togarans Hávarðar Ísfirðings, þar sem það kom greinilega fram, að hann lagði alltaf meiri og meiri afla upp á Hesteyri frá ári til árs, og hafði ég skýrt þetta með þeim alkunnu rökum, að eftir því sem skipstjórinn betur hefði kynnzt skipinu, hefði hann farið að taka minna af kolum og salti með í hvern túr og aukið þannig burðarmagn skipsins. Skal ég nú endurtaka hér þessa skýrslu. Árið 1927 var mestur afli togarans 1035 mál, 1928 1373 mál, 1929 1507 mál, og 1931, þegar togarinn lagði upp á Sólbakka, 1800 mál, enda hefir komið á daginn, að ný lest í skipinu hafði verið tekin til notkunar fyrir síld frá því sumarið 1929, er skipið lagði upp á Hesteyri síðast. Nú kom hv. þm. Ísaf. með þá skýringu á þessu, að við hefðum notað stærri mál til að byrja með, en síðan farið að minnka þau smátt og smátt, og sagði hv. þm., að þetta skýrði hinn aukna afla Hávarðar Ísfirðings fullkomlega. Nú reyndust málin að meðaltali 159 l., og leiðir beint af því að við höfum átt að nota um 240 I. mál 1927. (HG: Fyrr má nú rota en dauðrota). Já ég vil taka undir þetta með hv. þm. Seyðf. Fyrr má nú misbjóða hv. d. en að halda fram slíkum rökum. (VJ: Hvernig stóð á því að málin voru misstór?). Hv. þm. Ísaf. er bezt að spyrja beykinn að því, en flestum mun nú virðast svo sem það sanni einmitt það öfuga við það, sem hv. þm. Ísaf. vill vera láta, því að ef beykirinn hefði ætlað sér að svíkja málin, hefði hann sjálfsagt haft þau öll jafnstór. Annars vil ég vísa til þess, sem ég áður hefi sagt um þetta, og vil svo aðeins að lokum endurtaka það, að það er öryggismeira að mæla síldina en að vega, og ég get bætt því almennt við um vogir, að þær eru yfirleitt ekki öruggur mælikvarði á hlutina. A. m. k. þekki ég eitt fyrirbrigði úr dýraríkinu, sem þarf að láta 18 þús. kr. á vogarskálina til að vega upp á móti, en kemst þó prýðilega fyrir í vasa hæstv. dómsmrh. Hinn bitlingum hlaðni landlæknir getur frætt hv. þd. á, við hvern ég á.