21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

30. mál, vigt á síld

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Hv. þm. Mýr. kvaðst fylgja frv. til þess að koma í veg fyrir, að slíkar deilur risu út af mælingu síldar hér eftir sem hingað til. Deilur út af þessu hafa tvisvar risið, sem kunnugt er, í Krossanesi og á Hesteyri. Tilefnið í Krossanesi var, að málin reyndust stærri en menn bjuggust við. Þetta voru norsk mæliker og samkv. norskri reynslu áttu að fast úr þeim 150 lítrar. Við vitnaleiðslu kom í ljós, að þótt einstaka skip kunni e. t. v. að hafa afhent eitthvað lítið meira af síld en átt hefði að vera, þá munu þó fleiri hafa afhent minni síld en vera átti. Þegar Krossanesmálin voru minnkuð, svo að verksmiðjan fékk minni síld úr þeim en áður hafði verið, borgaði hún, eins og eðlilegt var, minna fyrir það minnkaða síldarmagn, sem hún eftir það fékk úr málunum. Það kom henni í sama stað niður, og seljendunum raunar líka, en þeir græddu ekkert á breytingunni.

Um hitt atriðið, Hesteyrarmálin, hefir verið rætt svo mikið hér í deildinni, að ég hirði ekki að bæta við þær alm. umræður. En ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm. Mýr., hvaða tryggingu hann hefir fyrir því að deilur geti ekki risið í framtíðinni um vigt á síld, þó bannað yrði með öllu að mæla hana. Hvernig hugsar hann sér að koma í veg fyrir, að vog geti bilað á miðri vertíð og vegið rangt skemmri eða lengri tíma án þess að tekið væri eftir? Ekki útilokar það deilur eftir á, þegar uppvíst verður. mér kæmi ekki á óvart, ef þetta frv. yrði samþ., að Alþ. yrði að flýta sér að nema það úr lögum aftur, vegna þess að þvílíkt slys hefði komið fyrir og leitt af sér deilumál.

Það hefir komið fram hjá allmörgum hv. þm., að ekki væri meiri töf að því að vigta en mæla. Ég mótmæli þessu algerlega. Enda er þetta augljóst, ef t. d. vog bilar og þarf að gera við hana, en hinsvegar bannað að nota mæliker að viðlögðum sektum. Af þessu gæti leitt margra klukkutíma og máske sólarhringstöf, sem hlyti að valda miklu tapi einmitt fyrir framleiðendur

Hv. þm. V.-Húnv. virtist okkur minni hl. sammála um það, að óhætt væri að láta seljendur og kaupendur um það, hvort vegið skuli eða mælt. En viðvíkjandi blóðblönduninni við jafnaðarmenn, sem hann var að tala um, þá hélt ég satt að segja, að hv. þm. Ísaf. væri búinn að blanda blóði við Framsóknarflokkinn. En ef svo er nú ekki og ílát vantar undir blöndunina, og ef það er eitthvert sáluhjálparatriði, að hún endilega verði látin renna í síldarker, þá vil ég fyrir mitt leyti mæla með því, að Kveldlúfur eða einhver annar síldarmálaeigandi láti slíkt ker góðfúslega af hendi til þessara sérstöku nota.