21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2834)

30. mál, vigt á síld

Magnús Guðmundsson:

Mér þykir það undarlegt, að hv. þm. Barð. skuli kalla það kúgun, ef einhver vill ekki kaupa vöru með þeim skilyrðum, sem seljandi setur. Lögin fyrirskipa engum að kaupa síld. Auðvitað verður síldarkaupandinn að ráða, hvort hann gengur að þeim samningum, sem seljandinn setur. Það, sem hv. þm. Barð. sagði, er því ekki nema blekking.

Ég er hræddur um, að það verði erfitt að sannfæra almenning í þessu máli um kúgun á sjómönnunum á síldveiðum hjá h/f Kveldúlfi síðastl. sumar, þar sem þeir fengu allt að 2000 kr. kaup fyrir 60 daga vinnu, þegar þeir, sem veiddu í ríkisverksmiðjuna á sama tíma, fengu nærri því ekkert kaup. (BJ: Ég sagði ekki, að þeir hefðu verið kúgaðir). Nei, hv. þm. talaði ekki um kúgun á þeim, sem unnu fyrir lítið eða ekkert kaup, heldur á þeim, sem unnu fyrir meira en ráðherralaun. Það er ekki verið að tala um þetta á sanngirnisgrundvelli; það eina, sem stefnt er að, er að reyna að sverta hv. þm. G.-K. Það er grundvöllurinn, sem undir þessu máli liggur allt frá upphafi. Það kom fram undir eins við flutning málsins.

Mér virðist það lítill sanngirni á slíkum tímum sem nú að krefjast þess, að lagt sé í mikinn kostnað, sem vitanlega hlýtur að lenda á þeim, sem kaupa síldina, jafnvel þó að það sé upplýst, að það sé ekkert tryggara að vega síldina en að mæla hana.

Það hefir verið bent á það hér áður, að sett hafi verið lög um að vega salt, en heim hafi ekki verið framfylgt. Ég held, að sama máli sé að gegna um bæði þessi mál. Í hinu „praktíska“ lífi hefir reynslan verið sú, að mæling hefir verið miklu heppilegri en vigt.

Ég er alveg viss um það, að þótt það komi fyrir, að vog bili, svo að á beri, þá geta þær oft bilað án þess að nokkur viti um það ég veit það líka, að ef vart verður við, að vog bilar, þá er skipið ekki látið liggja meðan gert er við vogina, heldur er síldin þá afhent á annan hátt en eftir vigt. Það er ekki nema til ills eins að setja atvinnuvegunum slík þvingunarlög, sem ekki er hægt eða a. m. k. óþægilegt að fara eftir. Það er kunnugt um þessar vogir, að þær eru dýrar og ekki tryggar heldur. Ég veit ekki, hver ætti að vera kunnugri því máli en sá maður, sem í mörg ár hefir haft á hendi stjórn á löggildingu mælitækja og vogarahalda hér á landi.

Annars tala menn hér um þessa mælingu á síldinni eins og hún fari fram með einhverri óskaplegri nákvæmni. Ég hefi aldrei séð meira flaustursverk en mælingu á síld. Málin voru hellt full, kannske kúfuð, en svo þegar verið var að lyfta heim upp, þá slógust þau í og helltist svo og svo mikið úr þeim og enginn skipti sér af því.