21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2837)

30. mál, vigt á síld

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér skildist á hv. þm. Ísaf., að hér væri um það að ræða að skipta jafnt á milli þegnanna, eins og hann orðaði það, og það misrétti, sem nú ætti sér stað, mundi lagast, ef síldin væri vegin. Mér virðist hitt aððalatriðið, að mælitækin séu rétt, svo skipti minna máli, hvort vegið sé eða mælt. Það skiptir t. d. litlu máli eftir mínu viti, ef einhver kaupir voru, hvort einingin er 100 eða 200 kg. Ef rétt er vegið og báðir aðiljar vita, að hverju þeir ganga, þá er aðalatriðið fengið.

Það segir ekki mikið, þó að enn hafi engar kvartanir komið út af rangri vigt á síld. Bæði er það, að reynsla manna á vigt er lítil, og svo er miklu erfiðara að verða var við, ef vog er röng heldur en ef mál er rangt. Vogin er löggilt, og menn treysta henni og taka því ekki eftir, ef vogin t. d. stirðnar, og þá er haldið áfram að vega á hana án þess að nokkur taki eftir skekkju.

Hv. þm. hafa verið að tæpa á því, að forstöðumaður löggildingarstofunnar, sem hefir gefið þetta vottorð, sem þeim líkar ekki, hafi ekkert vit á þessu, af því hann hafi aldrei vegið síld og aldrei keypt eða selt síld. Ég get nú ekki séð, að það komi málinu mikið við. Aðalatriðið er þetta: Hefir hann vit á vogum? Það er eins og hv. þm. haldi, að vogir hagi sér allt öðruvísi, ef það er síld, sem á þeim liggur, heldur en ef það er eitthvað annað. Þetta minnir mig á manninn, sem var að reikna út þorsk, en svo var honum sagt, að það væri ýsa, og þá reiknaði hann upp aftur, og hélt, að þá yrði þunginn allt annar. Svona eru rök hv. þm. Ísaf., sem er að tala um rökvillur hjá öðrum.

Það er rangt, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að ég hefði sagt, að ekki væri hægt að smíða rétt mál. Hv. þm. vildi, að mér virtist, halda, að ef einhverju skakkaði með síldarmál, þá væru þar að verki einhver óþekkt máttarvöld frá öðrum heimi. Ég hefi aldrei sagt, að ómögulegt væri að smíða rétt mál, en þegar það hefir hent sjálfa löggildingarstofuna að smíða vitlaust mál, þá virðist ekki þurfa neitt dularfullt fyrirbrigði til að það geti átt sér stað.

Hv. 2. þm. Skagf. dró skýrt fram, hversu mikil nákvæmnin er, þegar verið er að nota þessi tæki. Síldin er hvorki mæld né vegin á neina gullvog og lítið skeytt um það, þó að nokkurra þumlunga borð verði á kerunum. Það er ekkert nema hótfyndni, þegar verið er að gera mikið veður út af því, þó að skakki sé á kerunum, sem svarar 1–2 þumlunga borðs á þeim. Það er ekkert nema pólitík, þegar verið er að blása upp slík mál. Menn eru að þenja sig út með þetta bara af því, að það passar í kramið.

Ég ætla ekki að svara hv. þm. Barð. mörgum orðum; það er búið að svara svo rækilega þessum orðum hans um kúgunartilraunina. Ef nokkuð væri kúgun í þessu máli, þá væri það það, ef kaupandi væri skyldur til að kaupa síldina með þeim skilyrðum, sem seljandi setur. Það er þá ekki kúgun til, af það er ekki kúgun að banna kaupanda að segja: „Ég vil ekki kaupa vöruna með þessum skilmálum“. Það er það minnsta frelsi, sem hver maður verður að hafa, að hann fá að ráða, hvort hann tekur þeim kostum, sem honum eru boðnir.

Hvers vegna kaupir hv. þm. Barð. ekki síld? Hann segir vafalaust: „Af því að ég hefi enga bræðsluverksmiðju“. Væri það ekki hart fyrir hann, ef ætti nú að skylda hann til að kaupa síldina á móti sínum vilja? En það er alveg sama, sem um væri að ræða, ef ætti að skylda verksmiðjurnar til þess að kaupa síld eftir vigt, ef þær vildu það ekki. Við skulum segja, að bæði tækin séu löggilt, við skulum segja, að þau séu bæði rétt, þá verður munurinn sá, að ef vogin er misnotuð, þá kemur það niður á báðum aðiljum, bæði seljanda og kaupanda, en ef mælikerin eru misnotuð, þá kemur það aðeins niður á kaupanda. (HG: Ekki, ef mælikerin eru of stór). Ég geng út frá, að kerin séu rétt samkv. lögunum. (HG: Það stendur ekkert um mæliker í lögunum). Þar, sem mæliker eru notuð, getur kaupandi aldrei fengið meira en það, sem mælikerin taka. Þó einhver kunni að halda því fram, að það sé hægt að hafa kerin kúfuð, þá munu þeir, sem kunnugleika hafa á þeirri mælingu, viðurkenna, að það sé ekki framkvæmanlegt. Því er það skiljanlegt, að sú verksmiðja, sem kaupir síld eftir vog, vilji alls ekki breyta til. Aftur á móti, þegar verksmiðja vill heldur kaupa eftir máli, hlýtur að liggja til einhver sérstök ástæða fyrir því, t. d. sú, að vont sé að koma vogartækjum fyrir eða að verksmiðjan telji sér það ófært vegna kostnaðar.

Þó að á Hesteyri hafi verið notuð of stór mál, þá hefir nú reynslan orðið sú, að þar hafa aldrei fengizt 150 lítrar úr máli til jafnaðar. Og eftir þeim merkilegu upplýsingum, sem hv. þm. Ak. flutti hér, fengust ekki í Krossanesi nema 150 lítrar úr máli, þó málin væru þar of stór, eins og kunnugt er. Og enn er það reynslan í Noregi, að ef málin eiga að gefa til jafnaðar 150 lítra, þurfa þau að taka meira, a. m. k. 160 lítra. Ef aftur á móti vog skekkist, þá getur það munað á báða bóga. Annars vil ég taka það fram, að það, sem hv. þm. Mýr. hafði eftir mér um að meira vigtaðist úr skipum en mældist; var ekki rétt skilið. Ég var að sýna fram á það, að mismunurinn lægi í því, hvort nýja eða gamla aðferðin væri notuð. Ef 135 kg. er minni eining er 150 ltr. þá fást auðvitað fleiri einingar, ef vigtað er heldur en mælt, en það er enginn gróði fyrir þá, sem selja, því auðvitað hlýtur kaupandinn að gefa því minna verð fyrir eininguna, sem einingin er minni.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frv. Ég býst við, að hv. þdm. séu þegar ráðnir í því, hvernig þeir greiða atkv. um frv., af hvaða hvötum, sem þeir svo beita sínu fylgi. (VJ: Sumir greiða atkv. fyrir Kveldúlf. — ÓTh: Sumir fyrir Jónas).