07.03.1932
Neðri deild: 22. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2851)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Magnús Guðmundsson:

Ég stend upp að þessu sinni aðallega til þess að gera grein fyrir því, að ég er mótfallinn ákvæði 4. gr. þessa frv., um eftirgjöf á helmingi flutningsgjalda með ríkissjóðsskipunum fram með ströndunum. Ég álít, að við eigum, á tímum eins og nú standa yfir, að vera mjög varkárir með það að binda ríkissjóði nýjar byrðar, hvað smáar sem þær eru. Ég er á því, að stj. ríkisskipanna muni sjá til þess, að flutningur með ströndum fram yrði ekki dýrari en flutningur frá útlöndum til viðkomandi hafna, svo að kartöflurnar áttu ekki að þurfa að verða dýrari þess vegna. Líka var það mjög réttilega tekið fram hjá hv. 2. þm. Rang., að hin ýmsu héruð landsins standa ekki jafnt að vígi við notkun þessara hlunninda. Ég geri því ráð fyrir, að komi engin brtt. fram viðvíkjandi þessu, muni ég greiða atkv. á móti 4. gr. frv. við 2. umr.

En hinsvegar skil ég alls ekki þann andróður, sem frv. hefir mætt her. nú á þessum erfiðu tímum er heftur svo er flutningur til landsins, að ekki er hægt að ná í bráðnauðsynlegar vörur. Gjaldeyrisskortur bankanna er svo mikill, að þeir sjá engin ráð til þess að útvega gjaldeyri til að borga með nauðsynjavörur. Þegar svona stendur á, er það óráð hið mesta að gera ekki allar mögulegar ráðstafanir til þess, að sem minnst verði flutt inn. Ein slík ráðstöfun felst í frv. því, sem hér liggur fyrir. Í því er ekki farið fram á annað en að reynt sé að takmarka kaup á erlendum varningi og auka sölu íslenzkra afurða, og álít ég hvorttveggja gott. Tilgangur frv. er alls ekki sá, sem nokkrir hv. þm. hafa viljað vera láta, að hækka kartöfluverðið. Þvert á móti. En menn verða að hafa það hugfast, að óvanalegir tímar krefjast óvanalegra ráðstafana. Og ég sé ekki, að nokkuð sé athugavert við Það að stuðla að minnkun innflutnings á vörum, sem lítil þörf er á, að inn séu fluttar. — Hvort þessar ráðstafanir verða til þess, að kartöfluverð hækki eða kartöfluát minnki, fer eftir framkvæmd þeirra, og ég fyrir mitt leyti treysti Búnaðarfél. Íslands til þess að meta þarfir manna rétt. — Að lokum vil ég endurtaka það, sem ég sagði í byrjun ræðu minnar, að ég álít ekki rétt að binda ríkissjóði nýjar byrðar. En hinsvegar er ég meðmæltur frv. að öðru leyti og mun ákveðið greiða því atkv. mitt.