07.03.1932
Neðri deild: 22. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2857)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. frsm. landbn. hefir svarað svo rækilega þeim mótbárum, sem komið hafa gegn þessu frv., að ég hefi aðeins fáu þar við að bæta. Ég vildi aðeins undirstrika með nokkrum orðum sumt af því, sem sagt hefir verið frv. til stuðnings. Á venjulegum tímum hefði mig ekki undrað það, þó að aðrar eins mótbárur kæmu fram eins og þær hjá hv. 4. þm. Reykv., að lögin væru brot á frjálsri verzlunarsamkeppni, en nú þegar þjóðin þarf í þessum einstöku vandræðum að leita allra bragða, til þess að halda þjóðarskútunni á réttum kili, þá er það næsta mikið undrunarefni, að ekki skuli vera tekið vinsamlega öllum þeim ráðstöfunum, sem miða til þess að tryggja aðstöðu þjóðarinnar gegn þeim óhöppum, sem yfir vofa. Þótt það sé mikilsvert, að hægt er að framleiða þessa vöru, kartöflurnar, hér á landi, þá er annar þáttur þeirrar starfsemi engu síður mikilsverður, en það er verzlunin með þessa framleiðslu. það þarf að greiða fyrir verzluninni og tryggja það, að kaupendur séu til. En því er ekki þannig farið nú, því að þó að sagt sé, að íslenzku kartöflurnar eigi að vera samkeppnisfærar við þær útlendu, þá er það nú svo, að þegar íslenzku kartöflurnar koma á markaðinn, þá er mikið fyrir þar af útlendum kartöflum, og íslenzku kartöflurnar geta ekki útlokað þær, nema með því að undirbjóða verðið.

Með þessu frv. er gerð tilraun til þess að vernda íslenzka framleiðslu gegn þeirri útlendu, og það sýnist þjóðarnauðsyn ná á tímum að láta það íslenzka sitja fyrir hinu útlenda. Ég vil ennfremur undirstrika þá bendingu til hv. 3. þm. Reykv., sem ekki að ástæðulausu kvartar fyrir munn þeirra manna, sem hann er þingfulltrúi fyrir, um atvinnuleysi og ískyggilegar horfur, að hann ætti að skoða huga sinn vandlega, áður en hann slær hendi á móti þessu frv., sem ótvírætt stefnir í þá átt að auka atvinnu í landinu og skapa skilyrði fyrir hina atvinnulausu kjósendur hans. Og hv. 4. þm. Reykv., sem allajafnan hefir látið sig fjármál ríkisins og bankanna miklu skipta, vil ég benda á það, að það er ekki þýðingarlítið fyrir þjóðarbúið að geta þarna sparað kannske hundruð þúsunda kr. á greiðslum ú úr landinu með aukinni framleiðslu og atvinnu í landinu sjálfu.

Í þessu máli eru tvö atriði, sem koma til greina og eru þýðingarmikil fyrir þjóðina. Það eru minnkuð útgjöld og aukin atvinna, og þau eru svo þung á metunum, að það er ekki rétt að ganga fram hjá þeim, og ég vil beina þeirri áskorun til hv. þdm., að þeir leggi sér alvöru þessa máls vel á hjarta.

Þótt hv. þm. N.-Ísf. tali um það, að kartöflur séu dýrari fæða en korn, miðað við næringargildi, en það getur vel verið, að sé rétt, þá veit hann það, að sá maður, sem enga peninga hefir til þess að kaupa korn, hann fer ekki út í það að mæla næringargildið, heldur tekur hann þann kostinn, sem hann er fær um að ráða yfir, að framleiða handa sjálfum sér þá vöru, sem hann hefir ráð á að framleiða. Hann er í þessu tilfelli herra yfir kartöflunum, en ekki yfir korninu. Og þjóðinni er nú á þessum tímum allt að einu farið.

Aðalmótbáran gegn frv. hefir verið sú, að verðið mundi hækka, en ég fullyrði það, að hægt er að stórauka kartöfluframleiðsluna hér á landi, án þess að verðið hækki, og ef nokkur hætta væri á því, að verðið hækkaði, þá er ég sammála hv. 1. þm. Skagf. um það, að hægt er að koma í veg fyrir það með hámarksverði. Það er ekki verðlagið, sem staðið hefir kartöfluframleiðslunnni fyrir þrifum, heldur erfiðleikarnir á því að selja vörurnar. Og skilyrði fyrir kartöfluræktinni eru fyrir hendi um allt Suður- og Suð-Vesturland. Við alla kaupstaði og sjávarþorp geta atvinnulausir menn stundað þessa ræktun, ef aðeins söluskilyrðin eru bætt.

Að íslenzku kartöflurnar koma allar á markaðinn í einu, gerir það að verkum, að þær haldast í sanngjörnu verði. Menn keppast við að koma heim út sem fyrst, og í því er fólgin trygging gegn óeðlilegri hækkun. Og þótt svo færi, að íslenzku kartöflurnar hækkuðu eitthvað í verði, álít ég, að hinir óvenjulegu tímar réttlæti það fullkomlega. Með því að takmarka innflutning á útlendum kartöflum sporum við gjaldeyri, og eins og sakir standa nú, skiptir ráð miklu meira máli, heldur en þótt innlendar kartöflur lækkuðu lítið eitt í verði.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um, hvað þetta væri mikið brot á frjálsræði, brot á meginreglu frjálsrar verzlunar. Þó að slík rök hefðu e. t. v. eitthvert gildi á venjulegum tímum, hafa þau það ekki nú, þegar svo að segja öll ríki hafa hlaðið um sig háa tollmúra. Við kennum þess þegar alltilfinnanlega, þar sem við getum ekki selt framleiðsluvörur okkar. Og er þá ekki nauðsynlegt að tryggja sölu á okkar eigin vörum á hinum litla markaði innanlands? þegar aðrar þjóðir hefta innflutning hjá sér verðum við að dansa með, nauðugir eða viljugir. Þegar þetta fyrirkomulag er komið á í heiminum, verðum við að beygja okkur fyrir nauðsyninni og reyna að bjarga okkur eins og við bezt getum.

Það hefir komið fram hjá mönnum hræðsla um það, að Búnaðarfélagi Íslands væri veitt of mikið vald í þessu máli, eftir frv., eins og það liggur fyrir. Það var ekki ætlun okkar með frv. að fá Búnaðarfélaginu í hendur neitt verulegt vald. Tilætlunin var, að það safnaði nauðsynlegum gögnum um málið, sem stj. gæti svo byggt á sín afskipti. Ef menn eru hræddir um, að þetta veiti Búnaðarfélaginu of mikil áhrif, get ég fallizt á að víkja við þeim ákvæðum í frv., sem þetta snerta.

Það hafa komið fram tvær mótbárur gegn þessu frv., sem risa algerlega hvor gegn annari. Hv. þm. N.-Ísf. var hræddur um, að svo miklar birgðir yrðu til af útlendum kartöflum í landinu, þegar innflutningur væri bannaður í hvert sinn, að þær mundu skemmast og eyðileggjast. Aftur á móti helt hv. 4. þm. Reykv. fram því gagnstæða, að kaupmenn mundu ekki þora að flytja inn nema svo lítið af kartöflum, að það yrði skortur á þeim. Ég hygg, að hér mundi reynslan fara mitt á milli öfganna. Hyggnir kaupmenn mundu kaupa nokkurnveginn hæfilega mikið til þess tíma, sem þeir mega selja, par sem innflutningsbannið á að auglýsa fyrirfram. Þessar tvær mótbárur slá því hvor aðra niður.

Hv. 2. þm. Reykv. virtist mjög þrútinn yfir þessu frv. Taldi hann, að því til grundvallar lægi það eitt, að íslenzka framleiðslan væri ekki samkeppnisfær við þá útlendu. En með núverandi fyrirkomulagi þarf íslenzka framleiðslan að vera meira en samkeppnisfær. Útlendu kartöflurnar hafa jafngóða aðstöðu á markaðinum hér eins og þær íslenzku, og þarf því að bjóða íslenzku kartöflurnar fyrir lægra verð, ef þær eiga að útiloka hinar. Ef sama verð er á útlendum kartöflum, hafa þær alltaf einhvern hluta af okkar litla markaði.

Hv. 1. þm. Rang. og hv. 4. þm. Reykv. töluðu um skottulækningar. Skildist mér þeir telja þetta frv. til skottulækninga. En ég get ekki séð, að þetta frv. sé fremur skottulækning en aðrar tilraunir í þá átt að bæta aðstöðu þjóðarinnar til að lifa í landinu.

Önnur slagorð hafa andstæðingar frv. verið með, sem ég ætla aðeins að drepa á. Þeir töluðu um kartöflusýki í þinginu. Ég held, að það hafi komið skýrt fram, að meginkjarni þessa máls er að tryggja eina grein íslenzkrar framleiðslu á íslenkum markaði. Það er einn líður þeirrar starfsemi, sem nú er haldið uppi í þessa átt og allir þykjast hlynntir. Ef réttmætt er að kalla þessa tilraun til að gera okkur sjálfbjarga á einu sviði sýki, þá mætti eins kalla alla sjálfsbjargar- og sjálfstæðisviðleitni okkar íslendinga einu nafni íslenzka sýki, hégómamál, sem engan rétt á á sér. Ef íslenzk sjálfsbjargarviðleitni á rétt á sér á öðrum sviðum, hlýtur hún einnig að eiga það á því sviði, sem hér er um að ræða.