07.03.1932
Neðri deild: 22. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. þm. Borgf. hélt fram, að íslenzkar kartöflur væru yfirleitt ódýrari en þær útlendu. Hvaða þörf væri á því að setja lög til að vernda sölu á íslenzkum kartöflum, ef þær væru ódýrari? Vissulega engin. Jafnframt því, að það er skylda hvers góðs Íslendings að kaupa að öðru jöfnu íslenzka vöru, er það persónulegur hagur, ef hún er ódýrari. Hefðu menn því tvöfalda ástæðu til að kaupa eingöngu íslenzkar kartöflur, ef það er rétt hjá hv. þm., að þær séu ódýrari. En ég er hræddur um, að samanburður hv. þm. á meðalverði útlendu og innlendu kartaflnanna sé nokkuð fljótfærnislegur. Útlendar kartöflur eru stundum í mjög þau verði, en það er á þeim tíma árs, sem íslenzkar kartöflur eru ekki til. Á þeim tíma er ekki hægt að fá kartöflur nýjar nema frá fáum löndum. Þýzkaland, til dæmis, kaupir kartöflur frá Ítalíu á vorin, en svo er aftur selt þaðan margfalt meira út úr landinu á haustin, fyrir stórum lægra verð.

Það er rétt hjá hv. þm. Borgf., að ég hefi lofað að vera með því að veita fé úr ríkissjóði til þess að styrkja með innlenda framleiðslu á heilbrigðan hátt, ef menn geta fallizt á að spara aftur á þeim útgjaldaliðum ríkissjóðs, sem ég tel sjálfsagt að spara á. Það má spara milljón eða meira af ríkisútgjöldum, landsmönnum algerlega að skaðlausu. Eitthvað af því fé mætti svo nota til að styðja atvinnuvegina og bæta aðstöðu íslenzkrar framleiðslu, þar á meðal kartöfluræktarinnar.

Ég hefi ekki leyfi til að gera nema stutta aths. og get því ekki svarað öllu, sem fram hefir komið. Hv. þm. Mýr. vil ég benda á það, að við þurfum að flytja afarmikið út af vörum, tiltölulega meira en nokkur önnur þjóð, af því að við þurfum að kaupa að svo margar tegundir nauðsynjavöru, t. d. kol, salt, korn, byggingarvörur o. s. frv., efni, sem landið er snautt af. Til þess að við getum flutt út fyrir öllu þessu, dugir ekki að styðja innlenda framleiðslu á þann hátt, að hún verði baggi á ríkinu, heldur verður að stuðla að því, að hún verði samkeppnisfær á heimsmarkaðinum.