11.03.1932
Neðri deild: 26. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2865)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Einar Arnórsson:

Ég get skrifað undir flest af því, sem hv. 3. þm. Reykv. segir til andmæla þessu frv.

Ég hefi leyft mér að koma með brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég kom með brtt. við frv. vegna þess, að það eru fyrirmæli í því, sem ég vil ekki fella, þótt það séu hinsvegar aðalákvæðin, sem ég vil fella. Aðalfyrirmæli frv. er að banna innflutning á kartöflum vissan tíma ársins. Mig furðar ekki á því, þó að sumir í landbn. hafi flutt frv., en mig furðar á því, að fulltrúar Sjálfstæðisflokks þessarar n. skuli hafa flutt það. Ég veit ekki betur en að stefnuskrá þess flokks sé frjáls verzlun og sem minnst höft á atvinnufrelsi manna. En hér tel ég, að þeir hafi hvarflað frá stefnuskrá sinni. En nú gæti hugsazt, að hér væri einhver voði á ferðum, sem heimtaði það óhjákvæmilega, að þessi höft væru sett, en svo er þó ekki. Kartöfluneytendur hér í Rvík kaupa allar þær íslenzku kartöflur, sem hægt er að fá á hverju ári, og mundu áreiðanlega gera það, þótt framleiðslan ykist stórlega. Og íslenzku kartöflurnar eru keyptar fremur en þær útlendu, jafnvel þótt þær séu dýrari, t. d. þær kartöflur, sem hv. þm. Borgf. og aðrir Akurnesingar láta selja hingað, af því að mörgum þykja þær betri. Hitt er einsætt, að þegar íslenzku kartöflurnar eru ekki fáanlegar, þá verður að kaupa þær útlendu. Ákvæði þessa frv. eru því ónauðsynleg til þess að tryggja íslenzku vörunni markað. Frv. er því framkomið í öðrum tilgangi. Það er einskonar krókaleið til þess að leggja verðtoll á útlenda vöru, og það er Rvík fyrst og fremst, og svo nokkrir aðrir kaupstaðir og kauptún, sem eiga að greiða hann verðtoll.

En það gæti farið svo ólánlega, að innflutningsbannið yrði til þess, að það yrði skortur á þessari vörutegund á vissum tímum árs. Ef bann yrði látið gilda t. d. allan veturinn, eins og einn hv. dm. stakk upp á, þá gæti farið svo, að varan þryti. Það gæti óneitanlega orðið ekki svo lítill hagur fyrir þá, sem síðastir yrðu til þess að selja sínar birgðir, því að þá hefðu þeir góða aðstöðu til þess að hækka verðið. Það er langt frá því, að þeim hv. stjórnarvöldum, sem ætlað er að vera dómarar um það, hvenær bann skuli gilda eða ekki, sé fyllilega trúandi til þess að líta óhlutdrægt á málið, því að það er full ástæða til að ætla, að Búnaðarfélag Íslands og landstj. líti meira á hag framleiðenda en neytenda í sambandi við þetta mál.

Annað atriði er það í þessu frv., sem ég að vísu sé mér ekki fært að setja mig á móti, en það er flutningsstyrkurinn. Þó má ætla, að það ákvæði, ef að lögum verður, geti dregið allalvarlegan dilk á eftir sér. Það er hugsanlegt, að komið gæti fram krafa um það, að ríkissjóður færi að styrkja flutninga á kjöti og ull til hafna og milli hafna. En ég játa það, að það er svo mikilsvert atriði, að kartöfluframleiðslan aukist í landinu, að það mætti gera tilraun til þess að láta ríkissjóð styrkja flutning til sölustaða annaðhvort beint eða óbeint, en þá virðist mér ósanngjarnt, að þeir einir njóti þessa styrks, sem flytja þessa voru með skipum. Finnst mér því brtt. hv. þm. Rang. sanngjarnari heldur en till. flm. í þessu atriði, og mun ég því greiða brtt. þeirra atkv. Það er nú líklega fyrirsjáanlegt um afdrif frv. hér í þessari hv. d. þau, að deildin samþykkir þennan grímuklædda verðtoll á kartöflum, en ég ber það traust til hv. Ed., að hún athugi málið nákvæmlegar og felli ákvæðin um innflutningsbann burt úr frv.