11.03.1932
Neðri deild: 26. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2868)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Einar Arnórsson:

Ég vil gera fáeinar aths. við ræðu hv. þm. Borgf.

Hv. þm. byrjaði á að tala um það, hve mikið að vöxtum yrði eftir af frv., ef brtt. mínar væru samþ. En ég gat ekki farið öðruvísi að, úr því ég skildi eftir í frv. það, sem ég gat helzt fellt mig við. Að öðrum kosti hefði ég orðið að leggja til, að frv. væri fellt.

Ég játa það, að menn verða stundum að slá af stefnumálum sínum, ef bráða nauðsyn ber til. En ég sýndi ljóslega fram á það í ræðu minni, að enga nauðsyn bæri til að banna innflutning á kartöflum. Okkur hv. þm. kemur saman um það, að innlenda framleiðslan sé betri og að hún seljist á undan erlendri framleiðslu. Svo hefir það verið, jafnvel þótt innlendar kartöflur hafi verið seldar hærra verði en þær útlendu. Og svo á það líka að vera. Það er því algerlega óþarft að banna innflutning á kartöflum í því skyni að örfá söluna. Þess þarf ekki við. Hið eina, sem hefðist upp úr aðflutningsbanni, er það, að verðið mundi hækka, þegar einokun er komin á voruna. Þeirri stefnu hlýt ég að vera mótfallinn. En það brýtur ekki í bág við skoðun mína, þótt veittur sé styrkur til að flytja þessa framleiðslu á markaðinn. T. d. er ekki hægt að koma þessari góðu vöru hingað á markaðinn úr héruðunum austan fjalls, vegna þess hve mikið kostar að flytja hana. Ef ríflegur hluti flutningskostnaðar væri greiddur, þá væri tækt að flytja framleiðsluna á markaðinn og selja hana með hæfilegu verði.

Hv. þm. Borgf. var með nokkra gamansemi í minn garð. Hann sagði, að ég hefði fallizt á stefnuskrá kommúnista, vegna þess að ég taldi mig geta fallizt á sumt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um þetta mál í ræðu sinni. Þetta er vitanlega heldur hæpin rökfærsla. Þótt ég og hv. 3. þm. Reykv. séum sammala um eitt einstakt atriði, þá er engin ástæða til að ætla, að ég hafi fallizt á stefnumál kommúnista. En þegar hv. andstæðingar eru á sama máli og ég og í samræmi við mína stefnu, þá dettur mér vitanlega ekki í hug að vera á öðru máli um þau atriði. — Ég get með engu móti séð, að samþ. frv. þessa verði okkur til gagns, heldur þvert á móti. Það er okkur sjálfum í hag, að við komum okkur vel við þau lönd, sem hingað flytja kartöflur. Og þótt hér sé ekki um mikil verzlunarviðskipti að ræða, þá getur þó frjáls verzlun í þessu efni bætt fyrir góðu samkomulagi. Hv. þm. Borgf. talaði um verndartollastefnu þá, sem tekin hefir verið upp og rekin í Norðurálfunni og víðar. Það er rétt, að þessi tollapólitík hefir talsvert verið rekin, en reynslan af henni hefir ekki verið sem glæsilegust. — Ameríka varð einna fyrst til að reka þessa pólitík og þar byrjaði kreppan. Utanríkisverzlun Bandaríkjanna hefir beðið mikið tjón af sinni verndartollapólitík og er upphaf kreppunnar rekin til þeirrar stefnu. Þótt Norðurálfan standi nú á blístri af tollafargani, þá er það engin afsökun fyrir okkur um það að setja viðskiptahöft þar sem engin þörf er á. Hin eina afleiðing fyrir okkur er sú, að það gæti gert okkur ógagn út á við. — Hv. þm. talaði í þessu sambandi um, að England hefði horfið frá frjálsri verzlun. Þetta er að nokkru leyti rétt, en að nokkru leyti ekki rétt. Það er að vísu lagður alhár tollur á sumar innfluttar iðnaðarvörur, en ekki á nauðsynlega matvöru, nema 10% á fisk og er það gert til verndar innlendu útgerðinni. — En innflutningsbann hefir ekki verið sett á vörur þar, þótt það sé rétt, að þeir hafi horfið frá sinni fyrri stefnu í tollamálum. En eins og ég hefi áður tekið fram, er engin þörf á slíkum ráðstöfunum hér með þessa vörutegund. Ef létt er undir með framleiðendum á þann hátt að greiða fyrir þá flutninginn að einhverju leyti til markaðsstaðar, þá er erlenda varan þar með útilokuð á fullkomlega sæmilegan hátt.

Hv. þm. Borgf. var að gera að gamni sínu, með því að segja, að ég væri að skrifa undir stefnu kommúnista með því að vera sammála hv. 3. þm. Reykv. um þetta frv. Ég hefi svarað því. En ef ég vildi nú gjalda líku líkt, þá gæti ég bent hv. þm. á, að öl framkvæmd laganna er lögð á herðar atvmrh., að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands. Frv. er því í raun og veru traustsyfirlýsing til stjórnarinnar, og þar sem hv. þm. berst svo ákveðið fyrir því, að stjórninni sé sýnt þetta traust, þá er fullkomin ástæða til að óska henni til hamingju með þennan nýja liðsmann. Hv. þm. sagðist bera fullkomið traust til Búnaðarfélags Íslands. En um leið felst í því fullt traust til stjórnarinnar um að hún muni fara eftir tillögum Búnaðarfélagsins. Ég hefi nú ekki þetta traust til Búnaðarfélags Íslands. Ég er hræddur um, að stjórn þess setji stækkunarglerið, sem hv. þm. Húnv. var að tala um nýlega, fyrir það augað, sem hún lítur á hag framleiðenda með. En smækkunargler fyrir það augað, sem hún lítur á hag neytendanna með, eða verð jafnvel steinblind á því auganu, sem veit að hag kaupenda. Eins býst ég við, að núverandi atvmrh. (TrÞ) muni verða miklu hallari undir framleiðendur en neytendur. En þarna skilur okkur a. hv. þm. Borgf. og mig. Ég ber ekkert traust að þessu leyti til þeirra aðilja, sem eiga að hafa á hendi framkvæmd laganna. En hv. þm. Borgf. er, gæddur slíku trausti. Því fer fjarri, að ég taki aftur brtt. mínar. Ég hefi sannfærzt betur en áður, undir þessum umr., að þær eru í alla staði réttmætar. Og þótt þær verði allar felldar, þá hverf ég ekki frá réttu máli af ótta við það að lenda í minni hluta. Ég get sagt hv. þm. Borgf. það, að það er alveg óhætt fyrir hann að framleiða 20 sinnum meira af kartöflum en nú. Það verður allt étið í Reykjavík og borgað fyrir það verð, sem hægt er að ná á frjálsum markaði og þó meira. Við verðum fegnir að fá þessa vöru hjá hv. þm. og hann þarf ekki að kviða því, að hún seljist ekki, enda þótt engin innflutningshöft á þessari vörutegund sé samþ.