11.03.1932
Neðri deild: 26. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2869)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Steingrímur Steinþórsson:

Ég þarf ekki að segja margt. Það er óþarfi að styðja hv. frsm. Hann er fullfær að svara fyrir sig og n.

Hv. 3. þm. Reykv. hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að bannið gegn innflutningi á kartöflum mundi aðeins koma til framkvæmda á haustin, en að þm. Borgf. hefði sagt, að ekki þyrfti að banna innflutninginn á haustin, og taldi, að hér væri um ósamræmi að ræða milli mín og hv. þm. Borgf. — Þetta er nú ekki rétt haft eftir mér. Ég sagði, að innflutningur mundi verða bannaður á haustin og fram eftir vetri eða ári, eftir því sem reynsla og atvik bentu til.

Þá sagði hv. þm., að þetta mál væri með öllu óskipulagt. Hann vildi fyrst láta rannsókn fara fram um þörfina og þá fyrst að henni lokinni hefja framkvæmdir, ef ástæða þætti til. —- Þetta mál er nú naumast svo flókið, að ástæða sé til slíkrar rannsóknar. Og að litlu haldi mundi það koma bændum á næsta ári, ef fyrst ætti að fara fram umfangsmikil rannsókn. En þetta mál er einmitt fram komið til stuðnings framleiðendum þessarar vöru nú á hinum erfiðu tímum.

Þá sagði hv. þm., að einhver hefði fundið upp á því að kalla þetta „frv. til 1. um skemmdar kartöflur“. — Þetta nafn er í meira lagi óheppilega valið hjá þeim, sem vilja niðra þessu frv. Í því er einmitt ákvæði, sem ekki hefir verið í 1. áður hér á landi, og er því nýmæli, að kaupendur séu með mati á kaupum, sem nema 500 kg. eða meira, tryggðir fyrir því, að þeir fái óskemmda og góða vöru með ákveðnu geymsluþoli.

Hv. 2. þm. Reykv. hefir haldið því mjög eindregið fram, að frv. Þetta, ef að 1. verður, muni ekki leiða til aukinnar framleiðslu, heldur aðeins verða til að hækka verðið til neytenda. Þetta er ekki rétt. Ef markaðurinn er tryggður íslenzkum framleiðendum, þá örfar það framleiðsluna. Skeytingarleysi kaupmanna og neytenda um að láta innlenda framleiðslu ganga fyrir dregur úr framkvæmdum manna um ræktun kartaflna.

Hv. sami þm. talaði mikið um verndartollastefnur þær, sem nú leggja löndin undir sig. Ég er að mörgu leyti sammála um hinar almennu niðurstöður hv. þm., en við verðum bara að taka ástandið eins og það er nú og laga okkur eftir því. Allar menningarþjóðir eru nú að girða fyrir frjálsa verzlun með öllum mögulegum ráðum. Þeim ráðstöfunum erum við einnig háðir hér, og þýðir því eigi meðan svo stendur að tala um ákveðnar stefnur. Það er okkar nauðvörn að fylgja öllu því fram nú, er miðað getur að því að efla íslenzka framleiðslu. Það er einn nauðsynlegur þáttur í sjálfstæðisbaráttu okkar. Og þess vegna verðum við einnig að grípa til svipaðra ráða og allur hinn menntaði heimur notar nú. Er það næsta einkennilegt, hvern mótblástur þetta frv. fær. Ef andmælendur þess hefðu bent á eitthvert annað betra ráð til að ná hinu sama marki, þá mundi landbn. gjarnan taka það til athugunar. En þar sem ekki er bent á nein önnur úrræði, sem koma að gagni, þá getum við ekki fallizt á till. hv. 2. þm. Reykv., sem miða að því að fella frv. algerlega niður. Annars vil ég líka í þessu sambandi benda á það, að þeir, sem hafa haldið því fram, eins og hv. 2. þm. Reykv. o. fl., að þetta frv., ef að l. yrði, mundi að einhverju leyti verða til þess að hækka verðlag á kartöflum í landinu, heldu allt öðru fram, að vísu í öðru, en sambærilegu máli, sem hér var á dagskrá í gær, sem sé l. um húsaleigu í Reykjavík. Þegar verið var að tala um það mál hér í gær, heldu þm. Reykv. því fram, að ákvæði þess frv. væru óþörf, af því að húsin í Reykjavík væru á svo mörgum höndum, að það mundi ekki verða um neitt húsaleiguokur að ræða, nema þá að kæmu fram samtök húseigenda, sem nú væru ekki fyrir hendi.

Nú er það svo um kartöfluframleiðsluna í landinu, alveg eins og húsin í Reykjavík, að hún er á margra manna höndum, og ekki um nein samtök kartöfluframleiðenda eða hring, sem þeir hafi myndað um sölu á kartöflum, að ræða. (EA: Ef hægt væri að banna innflutning á húsum, þá yrði sama niðurstaðan um þau.) Þetta er alveg hliðstætt því, sem hér var verið að ræða um húsin í gær. Ég dreg þá ályktun af þessu, að þeir menn, sem álíta, að ekki muni verða heimtuð ósanngjarnlega þá húsaleiga í Reykjavík, af því að húsin séu á margra manna höndum — þeir sömu menn hljóti að álíta, að framleiðendur kartaflna úti um land muni ekki heimta ósanngjarnlega hátt verð fyrir þær, af því að þær eru líka á margra manna höndum og salan frjáls. Þetta er alveg rökrétt ályktun. Annars, eins og ég tók fram við l. umr. þessa máls, er ég fús til þess að stuðla að því, ef það sýnir sig, að það verður óhæfileg verðhækkun á kartöflum, að kippa í taumana og fylgja því, að sett verði hámarksverð á kartöflur.

Þetta mál snertir ekki eingöngu Reykjavík og aðra kaupstaði. Það eru líka ýmsar sveitir, sem ekki hafa aðstöðu til að rækta kartöflur og verða því að kaupa þær, svo að þetta er ekki einungis hagsmunamál milli sveita og kaupstaða. Ég er t. d. fulltrúi fyrir eitt slíkt kjördæmi, sem þarf að kaupa kartöflur, en hika þó ekki við að fylgja þessu frv., sem ég álít vera til styrktar kartöfluframleiðslu landsmanna yfirleitt, því að ég er ekkert hræddur um, að það hækki verðið eins og andmælendur þess hafa haldið fram, og álít, að þeir hafi þar verið að mála á vegginn með allt of dökkum og svörtum litum og ekki fært nein skynsamleg rök fyrir því, að svo mundi verða.

Ja, ég ætlaði nú ekki að lengja umr. mjög mikið, og ég held, að það sé þá ekki fleira, sem ég hefi ástæðu til að taka fram.