14.03.1932
Neðri deild: 28. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2875)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Einar Arnórsson:

Það er engin ástæða fyrir mig að fara nánar út í það, sem hv. þm. Borgf. sagði í síðustu ræðu sinni, því að það var aðallega endurtekning á því, sem hann hafði áður sagt. Ég get fullvissað hann um það, að traust mitt til hans hefir engan hnekki beðið við framkomu hans í þessu máli, þó að hann aftur á móti hafi gefið mér rækilega vantraustsyfirlýsingu. En við flutning þessarar síðustu ræðu sló hvað eftir annað út í fyrir hv. þm., og sýnir það, að hann hefir verið í verra og æstara skapi en vanalega. T. d. hélt hann því fram, að ég væri orðinn sócíalisti eða kommúnisti, af því að ég væri sammála hv. 3. þm. Reykv. um það, að ekki sé rétt að banna innflutning á kartöflum. Ég er hræddur um, að hv. þm. tækist illa að sanna Reykjavíkurborgurum það, að ég væri orðinn kommúnisti, þó að svo vildi til, að ég væri sammála sócialista um það, að ekki beri að banna innflutning á kartöflum árið 1932.

Mér skildist það á hv. þm. að hann teldi ágætt að setja slík bönn sem þessi, svo að hægt væri að slá af í viðskiptasamningum við önnur ríki, sem notuðu samskonar bönn. Eftir því mætti sem bezt hætta við þetta kartöflubann í miðju kafi, ef við með því gætum náð svolítið haganlegri viðskiptasamningum við erlent ríki. Hvar er þá allt gildi þess fyrir atvinnuvegina? En mér finnst þetta vera bannsettar krókaleiðir, að setja fyrst í mestu alvöru innflutningsbann og éta svo strax ofan í sig aftur, þegar einhver viðskiptaþjóðin vill heldur hafa það upphafið. Hv. þm. hefir hvað eftir annað neitað því, að þessar ráðstafanir yrðu til þess að hækka kartöfluverð, en í öðru orðinu talar hann um, að þetta innflutningsbann muni verka sem verndartollur. Og enginn vafi er á því, að venjulegasta afleiðing verndartolla er einmitt verðhækkun, enda þyrfti að vera ólíkt hefur búið um hnútana í þessu frv., ef ráðstafanir samkvæmt því yrðu ekki einmitt til þess að hækka verðið á kartöflum.

Hv. þm. talaði ennfremur um, að andstaðan gegn innlendri framleiðslu kæmi héðan úr Reykjavík, og við Reykvíkingar værum slitnir úr sambandi við þjóðlífið sem heild, og þó að við töluðum fagurlega um þörfina á aukinni íslenzkri framleiðslu, þá meintum við ekkert með því. Allt þetta sannar það, að hv. þm. Borgf., sem er gáfaður maður, hafi verið eitthvað miður sín, þegar hann flutti þessa ræðu, og ég er alveg viss um, að hann hefði ekki sagt helminginn af þessari endaleysu í venjulegu ástandi.