14.03.1932
Neðri deild: 28. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2880)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Halldór Stefánsson:

Ég ætla ekki að blanda mér inn í hinar almennu umr. þessa máls, en vil einungis láta þess getið, að ég vil styðja að öllum hóflegum og skynsamlegum tilraunum til þess að efla innlenda framleiðslu, þó að ég hinsvegar sé ekki svo starblindur, að ég sjái ekki að það er þörf á að styðja aukna ræktun á fleiru garðmeti en kartöflum. Ég verð að vera sammála þeim, sem bent hafa á það, að miklir annmarkar séu á því að banna algerlega innflutning á kartöflum um vissa tíma árs. Hinsvegar myndi ég geta fylgt till., sem hefði sömu þýðingu og bann, t. d. að tolla kartöflur svo hátt á vissum tímum árs, að það verkaði sem bann, því að það verður að teljast færari leið. Ennfremur gæti ég fylgt því að leggja hóflegan, fastan innflutningstoll á kartöflur og aðrar innlendar framleiðsluvörur, til þess að styðja að aukningu innlendrar framleiðslu.

Ég vildi aðeins gera þessa grein fyrir afstöðu minni í þessu máli.