14.03.1932
Neðri deild: 28. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Jón Ólafsson:

Það eru orðnir einskonar tyllidagar í þessari hv. d., þegar hv. þm. Borgf, kemur með sínar Skagakartöflur árlega. Mér virðist, að það myndi ráðlegast að selja aðganginn að þessum árgangi hans, og verja því svo til að styrkja ræktun, þessara fágætu afurða.

Svo röggsamlega er þessi slæmi málsstaður varinn, að ekki er skilinn eftir einn einasti taðköggull, sem komið hefir í málinu; allt er rekið öfugt til baka til þeirra, sem það kom frá, og þaðan má að ekki aftur að rísa. Hinu gleymdi hann alveg, að koma nærri nokkru af þeim atriðum, sem máli skipta, og minntist ekki á það, sem borið var á hann og n., sem sé það hugarfar, sem er á bak við þessar till., sem eru svo greinilega markaðar undir eyrnamark n. og hv. frsm.

Honum þótti ég bera þungar sakir á n. og heilindi hennar, og það er rétt. Ég veit ekki, hvernig á að réttlæta þetta mál í augum meiri hl. þjóðarinnar, þegar víðsvegar um allt land eru margir hreppar, — ég nefni þá ekki —, sem gersamlega ómögulegt eiga með að selja þessa framleiðslu án þess að fá flutningastyrk, alveg eins og við þm. Rang. höfum þegar tekið fram. Hvernig eiga hinir ýmsu hreppar að þjóta upp til handa og fóta með aukna ræktun, og geta svo ekki komið vörunni á markað með hæfilegum kostnaði.

Hv. þm. sagði, að ég gæti sparað mér allt ómak að hugsa umþarfir landbúnaðarins, því að hann gæti vel verið án þess. Í því sambandi vil ég segja það, að ef ég væri jafnþröngsýnn og hann, þá ætti ég að fara af þingi þegar í stað. Við erum ekki hingað komnir til að halda eingöngu fram málum þess héraðs, sem við erum þm. fyrir.

Hv. þm. talaði um asklok. Jú, það er það litla asklok, sem hv. frsm. ekki sér út fyrir, þegar hann vill veita aðeins einum hreppi svona hlunnindi. Þetta er ekki almenningi til hjálpar eða samkynja svo mörgu, sem gert hefir verið landbúnaðinum til styrktar. Þetta er ekkert annað en ýtni frá einu einasta héraði, sem eitt hefir hagsmuni af þessari ráðstöfun.

Hv. þm. sagði, að sala á útlendum kartöflum stöðvaðist algerlega, meðan verið væri að selja Skagakartöflurnar. Þar gægðust nú eyrun út hjá honum, og ég veit ekki, hvernig hann ætlar að samríma við það, sem hann hefir áður sagt. Hann var að minnast á kartöfluræktina á Garðskaga og víðar á stríðsárunum. Það var réttilega tekið fram, að svona fer það, þegar fyrirtækin eru á hönd bæjanna eða ríkisins. Þarna er sýnishorn af þessum bjargráðavindi, sem þaut um allt og í alla á stríðsárunum. Þá sögðu jafnaðarmenn, að þetta ætti að verða bjargráð fyrir þjóðina, og því sjálfsagt að verja fé til þess, en svo þegar þetta rauk út í geiminn aftur, þá sáu menn, að þetta gat ekki haldizt uppi án styrks. En þarna sést, hvernig oft er hægt að koma ýmsu af stað, sem ómerkilegt og gagnslaust er, þegar alvarlegir tímar standa yfir, því að það erfiða ástand gefur þessum vindbelgingi byr í seglin, svo að hann kemst lengra en hann ætti að komast. Þess vegna er sennilegt, að þetta mál verði sigursælt nú, vegna þessara óvenjulega erfiðu tíma, er nú standa yfir.

Það er alveg sama „princip“ fyrir þessu frv. eins og ef t. d. hv. frsm. fengi sett bann á nábúa sinn, svo að hann mætti ekki framleiða einhverja vöru, til þess svo að hann neyddist til að kaupa vöruna af þeim, sem framleiða mættu. Ef þetta er ekki heimaríki, þá veit ég ekki, hvað heimaríki er. Það er ekkert nema smátt og smásálarlegt heimaríki.

Þá þarf ég að bera af mér eina sérstaka rangfærslu. Hv. frsm. segir, að það sé ekki að tala um, að þetta eigi að gilda nema fyrir viðkomustaði ríkisskipanna. En 4. gr. skýrir þetta vel. Það þarf ekki annað en að lesa upphafið á henni til þess að sannfærast um, að þetta á að gilda fyrir hvert það hérað, sem aflögufært er með þessa vöru. Þar er engin undantekning. Það er líka rangfærsla, að við þm. Rang. séum að seilast í einhver sérréttindi fyrir Rangárvallasýslu. Það er fjarri því, að við séum að slíku. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp brtt. okkar við 4. gr., því að ýmsum, sem hlýða á umr., gæti dottið í hug, að það væri rétt hjá hv. þm. Borgf., að við værum hér að biðja um einhver sérstök fríðindi fyrir okkar hérað. Gr. hljóðar svo, eins og við viljum hafa hana:

„Til þess að greiða fyrir sölu á innlendum kartöflum í landinu, skal atvmrh. heimilt að greiða allt að helmingi flutningskostnaðar með skipum ríkisins á kartöflum frá þeim héruðum, sem aflögufær eru í þeim efnum, til þeirra landshluta, sem verða að kaupa kartöflur“.

Það er greinilegt, að þetta gildir fyrir alla landsmenn, og það er sú eina rétta viðleitni, að öllum landsmönnum standi þessi hjálp til boða. Það, sem við fórum fram á, er ekkert annað en jafnrétti við aðra, og því held ég fast við brtt., og greiði atkv. á móti frv., ef hún verður felld.