17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2886)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Sveinbjörn Högnason:

Það er út af brtt. okkar þm. Rang., sem ég vildi segja nokkur orð.

Við förum ekki fram á annað en að öllum framleiðendum landsins sé gert jafnhátt undir höfði að þessu leyti af löggjafarvaldinu. D. felldi till. okkar við 2. umr., um það að greiða fyrir þessari framleiðsluvöru á næsta markaðsstað. Það getur verið, að það hafi við nokkur rök að styðjast, að þeir, sem næstir búa, hafi ekki rétt til að vænta styrks af hinu opinbera. Þess vegna höfum við farið fram á í þessari brtt. okkar, að skylt sé að veita styrkinn, þegar komið er yfir 40 km. frá markaðsstað, þar sem erfið aðstaða er að koma vörunni á markað. Þá fyrst sé tekið tillit til þess, hvernig aðstaðan er, bæði til þess að koma vörunni á markað og til þess að framleiða hana. Ég verð að segja það, að það hlýtur að vera eitthvert fyrsta hlutverk þingsins að líta á þennan aðstöðumun í þjóðfélaginu, hvar borgi sig bezt framleiðslan og hitt, að styrkur sé veittur eftir því, að hvaða niðurstöðu er komizt um það efni.