17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (2893)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Sveinbjörn Högnason:

Hv. frsm. sagði um brtt. okkar þm. Rang., að tilgangarinn helgaði meðalið. Ég býst við að þessi kenning Jesúítamunkanna sé eina afsökunin, sem hv. flm. frv. hafa treyst á og fyrir þeim hefir vakað við samningu þess.

Hv. þm. sagði, að brtt. okkar þm. Rang. væru fram komnar til þess að gera frv. að skrípi, en ég skal segja honum það, að þetta er alveg öfugt. Brtt. okkar eiga að koma í veg fyrir það, að frv. verði skrípi og þingi og þjóð ósamboðið, eins og það er frá hendi flm., mengað hreppapólitík á hæsta stigi. Það, sem við viljum tryggja með okkar brtt., er, að frv. verði ekki aðeins til hagsmuna fyrir einstaka menn, heldur að allir þegnarnir njóti samskonar styrks og verndar. Ég vil svo óska, að hv. landbn. athugi það, að brtt. okkar eru ekki runnar af hreppapólitík, heldur til þess að draga úr þeirri hagsmunapólitík, sem legið hefir til grundvallar við samningu frv.