17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2895)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Þetta mál hefir hlaupið frá mér, meðan ég var forfallaður vegna lasleika, og vegna þess, að ég á fremur óhægt með að tala mikið, mun ég ekki að þessu sinni fara út í það að færa fram almennar ástæður á móti frv.. heldur vil ég nú leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við það, sem gerir þó afgreiðslu málsins skárri en ella, ef samþ. verður. Þótt ég sé þeirrar skoðunar, að verzlun á kartöflum eigi að vera frjáls, þá ber ég nú fram þá brtt., að lögin verði aðeins heimildarlög. Þegar vafasöm mál eru á ferðinni, þá eru þó heimildarlög skárri heldur en bindandi lagaákvæði.

1. og 2. liður brtt. minnar fara í þá átt, að í stað banns komi heimild fyrir atvmrh. til þess að setja innflutningsbann á kartöflur. Ég er hræddur um, að menn hafi ekki enn gert sér fulla grein fyrir afleiðingum frv., og ef þingið fyrir ofurkapp einstakra manna leiðist til að afgr. það sem lög, að þá sé þó ráðh. gefinn frestur til að athuga það nánar, hvort gera eigi leik til þess að auka dýrtíð í landinu.

3. liður í mínum brtt. er við 5. gr. Það hefir margsinnis verið borið fram af hv. flm. frv., að innflutningsbannið eigi ekki að verða til þess að hækka verð á kartöflunum, og hafa þeir talað um, að það væri ekkert annað en setja bara hámarksverð á kartöflurnar. Brtt. mín við 5. gr. frv. fer í þessa átt og er þannig:

Við 5. gr. bætist: Þar skal og setja ákvæði, er tryggi, að verð á kartöflum fari ekki fram úr því, sem vera myndi, ef innflutningur væri frjáls.

Mér skilst, að hv. landbn. geti, eftir því að dæma, sem hún hefir haldið fram, fallizt á þessa breyt., því að n. hefir marglýst því yfir, að verðið ætti ekki að hækka. sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meir, en afhendi hæstv. forseta þessar brtt. og óska þess, að hann leiti afbrigða frá þingsköpum vegna þeirra.