21.05.1932
Neðri deild: 80. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

3. mál, landsreikningar 1930

Magnús Guðmundsson:

Ég vona, að ég þurfi ekki eins langan tíma til þess að svara hæstv. ráðh. eins og hann hefir þurft til að flytja þessa ræðu. Hann hefir nú talað 11/2 klst. þó skal ég engu lofa um að vera mjög fljótur, en vildi mælast til, að hæstv. dómsmrh. hafi eirð í sér til að vera kyrr í d. á meðan. (Dómsmrh.: Ég hlusta á hv. þm. — svona hæfilega). Já, ég veit, að ráðh. á ekki þá skapstillingu til, að hann geti setið kyrr undir því, sem ég nú mun segja við hann.

Hæstv. ráðh. byrjaði á því að tala um launaviðbót þá, sem hann gaf Sigvalda Kaldalóns. Hann segir, að það hafi verið nokkurskonar stríðsráðstöfun eða herkostnaður, sem stj. hafi orðið að leggja í, af því að hún hafi lent í stríði við læknana. Hún hafi orðið að kaupa Sigvalda Kaldalóns með því að láta hann fá hærri laun en lög heimila frekast. Ég verð að segja, að ég er hæstv. ráðh. þakklátur fyrir að vera svona hreinskilinn. Þetta mun vera alveg rétt, að hæstv. stj. keypti Sigvalda til þess að taka að sér Keflavíkur læknishérað, þegar hún var komin í vandræði vegna þess, hvernig hún hafði hagað sér um veitingu læknisembætta áður. Hvað sú ráðstöfun kemur til með að kosta ríkið, skal ég ekki um segja; það fer eftir því, hvað þessi læknir lifir lengi; en undir svona 20 til 30 þús. kr. er ekki líklegt, að það verði. En úr því þetta er nú svona lagað, eins og hæstv. dómsmrh. segir, þá hefði hann ekki átt að segja í svari stj. við hér að lútandi aths. yfirskoðunarmanna, að hann hafi gert þetta samkv. akvæðum stjskr. Hæstv. ráðh. segir nú allt annað heldur en í svari sínu, sem prentað er með LR., og það er auðvitað af því, að hann hefir seð við nánari athugun, að hann gat ekki borið fyrir sig stjskr., hún veitti honum ekkert lið í þessu efni, því að með tiltæki sínu hafði hann skýlaust brotið landslögin. Það er því ekki hægt að sjá annað en að hæstv. ráðh. hafi beinlínis sagt ósatt í svari sínu til yfirskoðunarmannanna og Alþingis um það, hvers vegna hann lét þennan lækni hafa launaviðbót.

Hæstv. ráðh. fór mörgum orðum um það, að ef læknarnir hefðu sigrað í þessari deilu, þá hefði verið brotið stórt skarð í okkar þjóðskipulag, eins og hann orðaði það. Ég held, að það hefði ekki haft nein áhrif á þjóðskipulagið, en hinsvegar hefði það e. t. v. brotið eitthvert skarð í það einræðisvald, sem hæstv. dómsmrh. vill hafa um veitingu embætta. Það er kunnugt, að læknadeilan reis upphaflega út af því, að hæstv. ráðh. hafði veitt hvert læknisembættið á fætur öðru þvert á móti tillögum landlæknis, þótt svo hafi verið litið á hingað til, að hann ætti að fara eftir þeim, nema hann hefði fullgildar ástæður til annars. En hann hafði engar gildar ástæður til þess að fara þvert ofan í till. landlæknis, heldur fór hann eftir því, sem honum leizt, eins og hann er vanur, hvort sem hann hefir rétt eða rangt fyrir sér eða er í samræmi við reglur þær, sem áður hefir verið fylgt, eða ekki. Ég skal ekki segja, hvort hann telur sig hafa haft sigur í baráttu sinni við læknana. En það er víst, að kostnaðinn af herferð þeirri, sem hann lagði út í, verður ríkissjóður, eftir hans eigin sögusögn, að gjalda, og ég hefi alltaf heyrt, að sá yrði að borga herkostnað, sem tapar, en ekki sá, sem vinnur. Hér er því annaðhvort, að hæstv. ráðherra hefir beðið ósigur í læknadeilunni eða að herkostnaðurinn er ófyrirsynju lagður á ríkissjóð.

Þá nefndi hæstv. ráðh. einhvern sérstakan samning um eftirlaun mín. Ég kannast ekki við þann samning. þau eftirlaun, sem ég hefi, eru frá sýslumannsstarfi mínu og skrifstofustjórn í stjórnarráðinu. Ég er margbúinn að segja hæstv. ráðh. þetta og hann veit þetta ofurvel, en samt getur hann ekki annað en tuggið það upp, sem einusinni komst inn í hann fyrir misskilning.

Ég vík þá aftur að launum áðurnefnds læknis og vil benda á, að það, sem hér er um að ræða, er það, hvort ráðh. á að komast upp með að greiða hærri laun en launalögin ákveða. Verði þetta samþ. á þinginu, þá er ekki til neins að hafa launalög. Þá er alveg eins gott að láta ráðh. fá heimild til að ákveða laun embættismanna.

Annars skal ég ekki eyða tíma í að sýna fram á misskilninginn í svari stj. við aths. yfirskoðunarmanna. Það hefir hv. 4. þm. Reykv. gert greinilega. En jafnvel þótt stj. hefði getað gert þetta í samræmi við stjskr:, sem hún ekki gat, þá hefir hún ekki gert það, hún hefir ekki farið eftir ótvíræðum fyrirmælum hennar, heldur virt þau að vettugi.

Svo er það enn eitt. Læknirinn á að sitja í Keflavík, en ekki í Grindavík. Á þessu þingi hafa verið endurtekin fyrirmælin um það, að hann skuli sitja í Keflavík. Það verður gaman að sjá, hvort hæstv. ráðh., eftir að hafa undirskrifað þau lög og lagt þau fyrir konung, ætlar að hlýða þeim og fyrirskipa lækninum að setja í Keflavík.

Það ræður að líkum, að mér dettur ekki í hug að gefa hæstv. ráðh. kvittun fyrir þessum greiðslum til Kaldalóns. En það mætti orða sætt upp á það, að læknirinn mætti halda því, sem hann þegar hefir fengið, ef þetta fer framvegis eftir lögum.

Næst kom hæstv. ráðh. að landsspítalanum. Hann vafði mikið um það, að hann hefði getað byggt miklu meira á lóð hans en gert var, og það væri honum að þakka, að ekki var byggt þar meira. Úr því hann eyddi ekki fé í þetta, þá mætti hann eyða jafnmiklu í eitthvað annað. Eftir slíkum hugsanagangi má náttúrlega komast nokkuð langt. En þetta er ekkert nema vitleysa. Stj. var auðvitað skyldug að byggja ekki meira á lóð spítalans en hann nauðsynlega þurfti. Hann sagði, að stj. hefði sparað þarna svo mikið, að það væri ekki nema fjöður á fati, þótt hann hefði stofnað bú á Reykjum í Ölusi. En að því er snertir það bú vil ég allra undiránugast leyfa mér að spyrja. Hvar er heimildin? Ég get sagt hæstv. ráðh. Það, að hann hefir ekki fjárveitingarvaldið. Það hefir þingið. Því spyr ég: Hvar er heimildin? Hún er engin. Þetta er gert í heimildarleysi. Þær 50 þús. kr., sem færðar eru á reikning landsspítalans af kostnaðinum við Reykjabúið, eru spítalanum óviðkomandi, og þessi aðferð er ekkert annað en fölsun reikninga.

Hæstv. ráðh. segir, að mjólkin frá Reykjum sé ódýrari en önnur mjólk, sem landsspítalinn ætti völ á. Ég skal ekkert um þetta segja. Ég hefi ekki séð þá reikninga. En það verð ég að segja, að eftir öðrum sögusögnum sama hæstv. ráðh. um slíkt, þá er langt frá því, að ég leggi trúnað á þetta. Ég fór einusinni í vetur til eins af yfirlæknum landsspítalans og spurði, hvernig þetta væri með búskapinn á Reykjum. Hann sagðist ekkert um hann vita. Hæstv. ráðh. mun hafa gert þetta einn án allrar ihlutunar af halfu spítalastjórnarinnar. Hann hefir verið svo sólginn í að koma þessu undir einn hátt og gera Reyki að framleiðslusvæði allra spítalanna, að hann hefir látið rífa niður hús, er byggt hafði verið á Vífilsstöðum til að rækta í grænmeti, og flytja það austur. En svo segir sagan, að þegar austur kom, hafi öll glerin úr gróðurhúsinu — og það var nærri allt úr gleri — verið brotin, ekki verið nærri því þess virði, er það kostaði að rífa niður húsið og flytja glerbrotin austur. Þetta er eitt dæmi af fyrirhyggju og fjárgreind hæstv. ráðh.

Þá kem ég að hestahaldinu og bílunum. Hæstv. ráðh. þykist ná sér vel niðri, þegar hann getur bent á, að áður hafi verið til hestar í stjórnarráðinu. En það merkilega við þetta er það, að kostnaðurinn er sífellt að aukast, þótt hann segi, að hestunum sé alltaf að fækka. Þegar stj. hefir líka nokkrar bifreiðar til að leika sér með, þá ætti að mega spara nokkuð á hestahaldinu.

Það fannst á hæstv. ráðh., að ef hann gat vitnað til mín eða Jóns heitins Magnússonar, þá þóttist hann góður. Ég er á því, að það sé talsvert til í þessu. En hann gætir ekki að því, að það er dálítið annað að eyða hundruðum kr. eða tugum þúsunda í þetta eða hitt. Hann segir, að ég hafi farið í kosningaferð á hestum ríkissjóðs. Það er ósatt. Hann hefir heldur ekki farið á hestum ríkissjóðs til þess að finna sína kjósendur. Hann hefir notað finni farartæki. Einu sinni tók hann undir sig varðskip og hafði í kosningasnatti upp undir mánuð. Útgerð skipsins mun kosta allt að 2000 kr. á dag. Hafi hann notað það í 30 daga, þá verða þetta 60 þús. kr. Stundum hafði hann tvö, annað til að flytja sig um grunnfirðina, hitt þar, sem dýpra var. Svo hefir hann notað bifreiðar ríkisins, eins og allir vita. Hann vildi láta líta svo út, að bílahald sitt væri örlítið. Hann sagði, að það væri ekki nema 2 bifreiðar, sem hann hefði til ráðstöfunar. Það getur verið, að þær séu ekki fleiri nú, en þær voru fleiri. Á reikningum ríkisins sést ekki, að það hafi verið seldar bifreiðar. Ég veit, að þær hafa samt verið seldar. En hvar er andvirðið? Ég veit það ekki, en mér er sagt, að hann hafi selt þær gegn því að fá að éta út andvirðið í akstri. Auk þess hefir hann ráð á öðrum tveim bifreiðum hjá hinu svonefnda bifreiðaeftirliti.

Á reikningi landhelgissjóðs 1930 er kostnaður við bíla, risnu og hestahald færður 40 þús. kr. Nú halda menn kannske, að þarna sé allur kostnaðurinn við bílana. En því fer fjarri. Hann er víða annarsstaðar. Það má benda á þessa liði: 19. gr. 43. liður: rekstrarkostnaður ríkissjóðsbílanna kr. 7556,92; 19. gr. 14. liður: bifreiðakostnaður kr. 1130,80; 19. gr. 12. liður: ferðakostnaður ýmislegur. Svo má ekki gleyma bílum bifreiðaeftirlitsins, sem hafa verið reknar með 16–20 þús. kr. halla, þótt gengið væri út frá því, að þær bókuðu ríkissjóði engin útgjöld, þegar lögin voru sett.

Það eru því dálítil tíundarsvik hjá hæstv. ráðh., þegar hann segist aðeins ráða yfir tveimur bifreiðum.

Svo má ekki gleyma því, að hann hefir verið svo „flott“ að byggja tvisvar yfir bifreiðarnar, fyrst við stjórnarráðshúsið fyrir 2000 kr., seinna hjá Arnarhváli fyrir 20 þús. kr.

Þá ræddi hæstv. ráðh. um aðgerðir sínar á Þingvöllum og fannst þær harla góðar. Ég veit ekki nema það væri rétt fyrir hann að bregða sér austur og sjá árangurinn. Það er búið að leggja tugi þúsunda í kostnað við að verja Þingvallahraun ágangi, en nú kvað það vera fullt af sauðfé, þrátt fyrir girðinguna. En þetta er þó minnst af því, sem þar hefir verið eytt að óþörfu. Kostnaðurinn, sem leiddi af flutningi Valhallar, varð gífurlegur. Það varð að byggja nýja brú á Öxará, leggja langan veg, fylla upp mýri. Allt þetta kostaði ekki undir 100 þús. kr. Hann sagði, að þetta hefði verið gert með samþykki alþingishátíðarnefndar. En það voru ekki nema 4 af 7 nm., sem samþ. þetta, og ég veit, að flestir ef ekki allir sjálfstæðismennirnir í nefndinni voru á móti því.

Þá kom hæstv. ráðh. að Laugarvatnsskóla og sagðist ætla að skoða það mál frá dálítið víðara sjónarmiði en ég hafði gert. Ég get ímyndað mér að honum komi ráð betur að taka það frá víðara sjónarmiði. Honum er nefnil. ekkert vel við að vera bent á, hvaða lög gildi um héraðsskólana.

Hann byrjaði tal sitt með því að segja, að ég væri á móti öllum héraðsskólum, og talaði um það í heilan stundarfjórðung. þetta er vitleysa og fjarstæða, sem ég ætla ekki að svara með öðru en því, að skora á hann að sýna það svart á hvítu, að ég hafi látið þá skoðun í ljós í orði eða verki. En hins krefst ég, að lögin um héraðsskóla séu ekki þverbrotin í mörgum atriðum, eins og hæstv. ráðh. hefir gert. Hann gerði enga tilraun til að bera á móti þessum lögbrotum, enda liggja þau um of í augum uppi til þess, að það væri hægt. Þó var hann að reyna að bera í bætiflákann fyrir sig með því að segja, að í lögum frá 1929 hafi verið heimild fyrir stj. til að taka lán til héraðsskólanna. Þetta er rétt, en hvað kemur það málinu við, úr því að stj. hefir lýst yfir því á þinginu 1931, að htin hafi engin lán tekið til héraðsskóla? Hæstv. ráðh. vildi segja, að úr því að heimildin hefði ekki verið notuð, hefði mátt taka fé úr ríkissjóði. Slíkt er auðvitað ekkert annað en fjarstæða, og auk þess ákveðu lögin, að ekki megi verja meira fé úr ríkissjóði en veitt er í fjárl. En hæstv. ráðh. hefir greitt til Laugarvatnsskólans níu sinnum meira en fjárlagaveiting nam. Annað atriði laganna hefir hann og þverbrotið. Í lögunum er svo ákveðið, að koma skuli jafnhátt framlag á móti annarsstaðar frá. Allir vita, hvað á það skortir um Laugarvatnsskóla, það er á 3. hundr. þús. kr.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að það, sem hann sagði um eignir Skálholtsstóls í svari sínu, ætti ekki að þýða annað en að sýna, að stóllinn hefði verið auðugur. Þetta er nú ekki annað en það, sem ég og aðrir vissu áður. En af ummælum hæstv. ráðh. mátti helzt skilja, að hann teldi, að Árnessýsla hefði rétt tilkall til allra þessara eigna, þótt allir viti, að þetta voru upphaflega eignir kaþólsku kirkjunnar og síðan hinnar lútersku, en annars eign Skálholtsstiftis, og Árnessýsla átti ekkert tilkall til þeirra fremur öðrum heruðum innan stiftisins. Líka mátti skilja á hæstv. ráðh., að hann kenndi mér um, að Suðurlandsundirlendið hefði misst skóla sinn fyrir öldum síðan.

Það er mjög vafasamt, hvort telja ber listaverk, sem einstakir menn hafa gefið, sem framlag til kostnaðar skólans. Ég leyfi mér að efast um, að málverk, sem gefin eru löngu eftir að skólinn er byggður og tekinn til starfa, geti talizt sem framlag til stofnunar skólans. Þá nefndi hæstv. ráðh. sem framlag steina, steypta af kennurum og nemendum. En þessir steinar eru tilfærðir á reikningi beint, sem sendur var endurskoðendum. En nú vill ráðh. tvítelja þennan lið, og er það auðvitað í samræmi við aðra viðleitni hans til að falsa og rugla reikningana.

Hæstv. ráðh. vildi ekki láta uppi, hver hefði gefið rúm þau, sem talin eru 15 þús. kr. á viðbótarreikningum. Ég vil nú segja hæstv. ráðh., að yfirskoðunarmenn hafa stjórnarskrártryggðan rétt til að sjá alla reikninga hins opinbera og að þeir verða aldrei samþ. nema þeir séu athugaðir af yfirskoðunarmönnum. Ég býst við, að hæstv. ráðh. komi með skilríki um þessa gjöf, og geymi því að láta í ljós, hvort ég tek þau gild unz ég sé þau.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir lofsyrði hans um mig sem fjármálamann og vona, að hann sýni þá í verki, að hann taki fjármálavit mitt til greina. Hann taldi 18 hús. kr. sparnað á ári að því að nota hverahita til upphitunar á Laugarvatni, í stað þess að hita upp með kolum. Þetta ætla ég, að sé nokkuð hátt reiknað, þegar borin er saman hitunarkostnaður annara skóla, sem brenna kolum, eins og t. d. Hólaskóla. Þar er kostnaðurinn 6–8 þús. árlega. Má gera ráð fyrir, að flutningskostnaður á kolum þar sé svipaður því, sem hér hefði orðið, ef skólinn hefði verið byggður á köldum stað. Út frá þessum forsendum metur svo ráðh. hitann á hálflendu Laugarvatns á 300000 kr. Nú er upplýst, að skólanefnd hefir keypt jörðina hálfa fyrir 16 þús. kr. En nú virðist vera tilætlunin að reikna ríkissjóði jörðina á 310 þús.kr. Þessi aðferð minnir á Kreuger, nafnfrægasta og stærsta svindlara veraldarinnar, sem nú hefir nýdrepið sig. Enginn getur tekið það sem alvöru, að ríkissjóður eigi að taka þetta gilt. Nú á að fara að selja Reykjatanga, sem er ríkiseign, til Reykjaskóla, og Reykholtsskóli fær hita í Reykholti. Verður gaman að heyra matið á þeim hita til handa skólanum. Hæstv. ráðh. reyndi að syna, að ríkið ætti ekki að fara eins að og leggja sama mælikvarða á gildi hitans og Laugarvatnsskólinn. Sú skoðun kom ljóst fram hjá honum, að einstaklingar ættu að féfletta ríkissjóð, og ríkissjóður ætti að lofa þeim það. Þetta er í samræmi við þá aðferð, sem hann hefir haft í sinni stjórnartíð, og tel ég ekki ástæðu til að kveða upp dóm yfir þessari skoðun hans og verkum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ríkið keypti hús á jörðum leiguliða sinna, en einstaklingar gætu hagað sér eins og harðdrægur jarðeigandi við Breiðafjörð, sem hann minntist á. En mér er þó kunnugt um, að ríkið neitaði bónda á Norðurlandi í fyrra um það, að kaupa hús af honum.

Út af þessum 1300 kr., sem ekki fyrirfinnast, vil ég segja hæstv. ráðh. Það, að það er ekki skylda mín að fara upp í stjórnarráð til að sækja plögg, sem hann hefir vanrækt að senda. Það er hans að koma þeim til yfirskoðunarmanna, ef til eru. En út af því, að hann sagði, að minna hefði verið veitt til skólans en LR. sýndi, vil ég taka fram, að þetta er ekki rétt, með því að ég hefi borið LR. saman við bækur ríkisféhirðis og allt hefir staðið heima.

Þá talaði hæstv. ráðh. um sparnað fyrir nemendur á Laugarvatni, og vísaði í útreikninga um kostnað við menntaskólann í Rvík. En sá samanburður haltrar töluvert, þegar nánar er á litið. Í kostnaðarútreikningum fyrir menntaskólann er gert ráð fyrir kostnaði af ritföngum, bókum og fatnaði, en kostnaður af þessum liðum er ekki áætlaður neinn á Laugarvatni. Í menntaskólanum er jafnvel klipping á hári talin með, en á Laugarvatni er ekki gert rað fyrir nauðsynlegasta fatnaði. Þetta gerir samanburðinn svo villandi, að mismunurinn á framantöldum liðum gerir 400 kr. á nemanda, eða 40 þús. kr. á 100 nemendur. Svona samanburð lætur hæstv. ráðh. sér sæma að láta koma fyrir almenningssjónir.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum til að svara hæstv. ráðh. Ég hefi notað hálfu skemmri tíma en fór í ræðu hans til að rífa niður allt, sem hann sagði.