19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2910)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Bjarni Ásgeirsson:

Ég hefi verið fjarverandi og ekki tekið þátt í umr. þessa máls, enda geri ég ráð fyrir, að þau rök séu komin fram með frv. þessu, að ég bæti þar litlu við. En þó vildi ég áður en frv. fer út úr hv. d. segja mína skoðun og draga saman aðalatriði þessa máls, því að þótt umr. séu nú orðnar talsvert langar, hafa þær upp á síðkastið lent nokkuð á við og dreif og utan við aðalkjarna málsins.

Það þarf varla að lýsa því ástandi, sem atvinnuvegir landsins eru í nú. Öll atvinnufyrirtæki eru rekin með tapi, og því augljóst, að sá gjaldeyrir, sem þjóðin fær, verður mjög af skornum skammti, og því nauðsynlegt að spara hann. Af þessu er þá líka ljóst, að mikið atvinnuleysi er yfirvofandi í landinu, ekki aðeins nú að vetrinum, heldur og á sumri komanda.

Þess vegna ætti öllum að vera ljóst, og ekki hvað sízt hér á Alþingi, að þegar svona ástand er ríkjandi, þarf að gera allt, sem hægt er, til þess að auka framleiðsluna og draga sem mest úr kaupum á erlendum varningi. Ef Íslendingar beittu sér fyrir því að framleiða hér í landinu það, sem hægt er, af þeim vörum, er þeir þurfa sér til lífsviðurværis, þá er áreiðanlegt, að þeir gætu sparað sér mörg hundruð þúsund krónur, sem árlega renna út úr landinu.

Það má nú ef til vill segja, að þetta mál sé ekkert stórmal, en það er þó einn líður í því, sem ætti að vera aðalstarf þessa þings: að auka innlenda framleiðslu. Og ég er sannfærður um, að með slíkum ríkistofunum sem þessum geti Íslendingar á fáum árum orðið sjálfbjarga í kartöfluframleiðslu sinni og þurfi ekki að sækja þá vöru til annara. Möguleikarnir fyrir samtökum í svipaða átt eru því fyrir hendi. Hér er nóg til af landi, bæði á Austur-, Vestur- og Norðurlandi, sem bíður ónotað til slíkrar framleiðslu. Ég er því sannfærður um, að svo fremi sem samþ. verða lög, sem fara í svipaða átt og frv. Þetta, þá líður ekki á löngu, að þetta land verði notað. Hér er hægt að rækta nóg af kartöflum, og þeim jafngóðum og þeim erlendu, en það þarf að tryggja markaðinn fyrir þær, svo að þær holi samkeppnina, því að aðstaðan er svo góð fyrir hinar erlendu þjóðir að flytja inn kartöflur, og bjóða okkar út. Þetta er því sá ódýrasti stuðningur, sem löggjafarvaldið getur veitt þessari framleiðslu, að vernda markaðinn fyrir börn landsins, sem að henni vinna.

Þá vil ég með nokkrum orðum snúa mér að þeim höfuðástæðum, sem færðar hafa verið fram gegn frv. þessu. Því hefir fyrst og fremst verið haldið fram, að það væri brot á móti þeim heilaga anda, því viðskiptalög máli, sem ríkt hefir um frjálsa verzlun landa á milli. Um þetta er það að segja, að hin frjálsa samkeppni er nú tæplega orðin til nema í orði. Hún hefir orðið að laga sig eftir staðháttunum, og það hefir sýnt sig, að fræðikenningar hennar, sem vaxið hafa á blómatímum hennar, hafa allar verið þverbrotnar og beygðar til jarðar í viðskiptaofviðri því, sem geisað hefir að undanförnu.

Það hefir mikið verið talað um það, að Ísland ætti að vera fyrir Íslendinga, og nýlega hefir birzt ávarp frá 30 stéttarfélögum, þar sem skorað er á menn að láta Íslendinga ganga fyrir um alla vinnu. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa ofurlítinn kafla úr ávarpi þessu: „Verður mönnum þá meðal annars starsýnt á það, að hér er fjöldi erlendra manna í góðu yfirlæti við ýmiskonar atvinnu, og alltaf eru hingað að flytjist erlendir menn, sem atvinnu fá við allskonar störf“. Ég býst við, að allir séu sammála um, að þetta sé rétt, og að skylt sé að sporna á móti innflutningi útlendinga í atvinnuskyni. En ég vil vekja athygli á því, að það eru fleiri útlendingar á gangi hér en þeir, sem sjást. Þeir eru dulbúnir í allskonar gerfum, meðal annars í gerfi erlendra kartaflna, því að framleiðslu þeirra vinna erlendir menn, sem senda þær svo hingað og taka kaup sitt í verði þeirra. Er því ekkert betra að láta þá vinna að framleiðslu þeirra erlendis heldur en beinlínis að lofa þeim að framleiða þær hér. Sé það því stórt atriði að vernda innlenda vinnu, þá er ekki síður stórt atriði að vernda innlenda framleiðslu. Það má kalla þessa tilraun okkar flm., að vernda innlenda framleiðslu, skottulækningu, og velja henni ýms háðuleg nöfn, en hún er ekkert annað en tilraun til þess, sem allar þjóðir reyna nú um gervallan heim, að vera sjálfum sér nógar, kaupa sem minnst að og búa sem mest að sínu.

Hv. þm. Vestm. talaði mikið um það, að frv. Þetta. ef að lögum yrði, gæti orðið skaðlegt fyrir smáþorpin úti á landinu. Þetta held ég, að sé að hafa hausavíxl á hlutunum, því að hér eru víða, bæði á Austur-,Vestur- og Suðurlandi góð skilyrði til þess að rækta kartöflur. Á þessum stöðum sem annarsstaðar vantar verkafólk atvinnu. Er frv. því útrétt hönd til smáþorpanna, útrétt hönd til þess að auka hjá þeim atvinnu, og jafnframt innlenda framleiðslu, í stað þess að bera til þess að skaða þau.

Ég get ekki lokið máli mínu án þess að svara hv. 2. þm. Rang. frá því um daginn.

Hann sakaði okkur flm. frv. um eigingirni, hreppapólitík o. fl. Þessum hv. þm. vil ég fyrst segja það, að ég býst við, að við, hv. þm. Borgf. og ég, teljum þetta mál til svo mikilla hagsbóta fyrir kartöfluframleiðsluna í landinu, að við myndum vilja vinna til af afsala okkur sjálfum þeim hlunnindum, sem það kynni að hafa í fór með sér fyrir okkur, ef ráð gæti orðið því til framdráttar. Hinsvegar teljum við það ekki ósanngjarnt, þar sem hér er um að ræða hagsmunamál fyrir allt landið, að héruð okkar njóti góðs af því eins og önnur héruð landsins. Annars verð ég að segja það, að mér fundust þessi ummæli þessa hv. þm. um hreppapólitík koma úr hörðustu átt, þar sem hann hefir þegar unnið sér hann orðstír sjálfur að vera ekki aðeins mesti hreppapólitíkus, sem sæti á á þingi nú heldur einnig sá mesti, sem um langt skeið hefir átt sæti á því. Það er því ekki beinlínis hægt að ætlast til, að hann skilji það, að sé hér um hagsmunamál að ræða, þá sé það að meira eða minna leyti hagsmunamál fyrir öll þau héruð, sem kartöflur framleiða. Ef t. d. um er að ræða góð skilyrði fyrir kartöflurækt í Rangárvallasýslunum, þá er það einnig hagsmunamál fyrir hana, sem kemur fram í betri sölumöguleikum fyrir vöruna. Ákvæðið um ívilnanir í flutningsgjöldum er sett vegna þeirra héraða, sem ekki geta ræktað kartöflur, og verða því að fá þær fluttar að. Verður það því neytendunum til hagnaðar, en ekki framleiðendunum. Ég verð að segja það, að mér fannst það dálítið hlálegt, að þessi hv. þm. virtist vera með frv. á meðan hann hafði einhverja von um, að brtt. hans um sérréttindi fyrir Rangæinga kæmist í gegn, en þegar hún er felld, gengur hann gegn frv. Hv. þm. gat bara ekki unnað öðrum héruðum að njóta þessara hlunninda, þó að þau á engan hátt gætu skaðað hann eða sýslubúa hans. Þetta minnir á manninn, sem vann það til að láta stinga úr sér annað augað, til þess að félagi hans skyldi missa bæði sin. Brtt. þessi setur sannarlega kórónuna á allt sköpunarverkið. Hagsmunir Rangárvallasýslu eru þar hafðir fyrir augum og ekkert annað. Maður nokkur, sem sá hana um daginn, sagði t. d., að þótt hann hefði ekkert vitað, hvað langt væri héðan úr Reykjavík austur í Fljótshlíð, þá hefði hann getað séð á till., að það myndi vera nær 100 km. Þetta ætti að nægja til þess að sanna það orð, sem komið er á hv. 2. þm. Rang. Hann ætti því allra manna sízt að vera að brigzla öðrum um hreppapólitík og einsýni á hlutina.

Hv. þm. Dal. talaði nokkur orð á móti frv., og taldi hann nægilegt, ef hægt yrði að koma upp kartöflukjallara. Ég skal fúslega játa, að það væri mikil hjálp fyrir þetta mál að fá hann, en með því er ekki fengin verndun á markaðinum fyrir þær kartöflur, sem til eru í landinu, en á því er engu minni þörf heldur en að vernda vinnumarkaðinn fyrir útlendingum, eins og farið er fram á í ávarpi hinna mörgu stéttarfélaga. Eins og kunnugt er, er með lögum bannað að flytja inn erlenda verkamenn, og býst ég við, að allir séu sammála um, að það sé rétt. Er andstaðan gegn frv. Þessu því alls ekki í samræmi við það. Með henni er beinlínis sagt við íslenzka verkamenn: þið eigið að vera samkeppnisfærir við erlenda stéttarbræður ykkar. Þetta er svarið, sem íslenzkir verkamenn, er að kartöfluframleiðslu vinna, fá hjá þessum mönnum. Þó verður ekki annað séð en að þeir eigi rétt til sömu verndar á vinnukrafti sínum og aðrir.

Ég býst nú ekki við að taka öllu meiri þátt í þessum umr. Það má vel vera, að kraftar þeirra, er vinna vilja gegn íslenzkri framleiðslu, verði ofan á í bili, svo að þeim takist að eyðileggja málið í þetta sinn, en það er trúa mín, að síðar komi sá máttur, er meira má sín en atkvæði þeirra, en það er neyðin, — neyðin, sem kennir naktri konu að spinna.