19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2911)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Sveinbjörn Högnason:

Aðeins nokkur orð til þess að bera af mér sakir. Það hefir oft verið minnzt á hreppapólitík undir þessum umr., og það nær eingöngu af flm. málsins, en ég hygg, að það verði þeim sjálfum alltaf til því meiri skammar, því oftar sem þeir minnast á hana í sambandi við þetta mál. (Forseti hringir). Hv. þm. Mýr. bauð það fram til þess að losna við allan grun um eiginhagsmunapólitík í þessu máli, að afsala sér og hv. þm. Borgf. öllum þeim hlunnindum, er það gæti haft í för með sér fyrir þá persónulega. Þá taldi hann enga synd, þó að héruð þeirra yrðu látin verða aðnjótandi allra þeirra gæða, er í því fælust. Ég vil því spyrja hv. þm., að úr því hann telur það enga synd, að héruð þeirra njóti hlunninda af þessu, hvaða synd er það þá, þó að við þm. Rang. viljum, að hérað okkar njóti sama réttar. Þá taldi hv. þm., að það hefði verið undarlegt af mér að leggjast á móti frv. þessu, þegar sýnilegt var, að till. mín um styrk til landflutninga náði ekki fram á ganga. Þetta tel ég ekkert undarlegt. Úr því að mál þetta á að vera fyrir allt landið, þá er ekkert réttlæti að gera sum héruð afskipt þeim hlunnindum, sem það hefir að bjóða. Hv. þm. beindi því til mín, að ég hefði ekki getað unnt öðrum héruðum að njóta þessara hlunninda, ef hérað það, sem ég er fulltrúi fyrir, nyti þess ekki, og taldi, að mér færi þar líkt og hinum meinfýsna manni, er vildi vinna það til að láta rífa úr sér annað augað, til þess að félagi hans missti bæði sín. En ég vil þá segja, að honum sé svipað farið og manni, sem þykir ekkert varið í að eignast góðan hlut, ef hann veit, að aðrir geta eignast hann einnig. Svo er t. d. talið, að sé um sumar hégómagjarnar konur, að þeim þykir ekkert til þess koma að eignast fallegan og góðan hlut, ef þær vita, að grannkonan getur eignast hann líka. Og læt ég hv. þm. um að dæma um, hvoru er betra að líkjast.