19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2912)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Jón Ólafsson:

Hv. þm. Borgf. var að tala um þá illu rót, sem brtt. okkar þm. Rang. væru runnar af. En ég get sagt hv. þm. það í fyllstu hreinskilni, að það, sem við höfðum fyrir augum með brtt. okkar, var ekkert annað en það, að flm. fengju þær bætur á frv., að það yrði þeim ekki til hreinustu vanvirðu, því að þess eru engin fordæmi, hvorki hér á landi né í nálægum löndum, að einstökum héruðum líðist að fá samþ. einokun á önnur héruð í sama landinu. Hitt er til í viðskiptum landa á milli, að leggja toll á innfluttar vörur til þess að létta undir með framleiðslunni, og ég er hissa á, að hv. þm. Mýr., sem lét mjólkurverksmiðjuna „Mjöll“ sálast í höndum sínum, skyldi ekki grípa til þeirra ráða. Ég verð nú að segja það, að mér finnst mál þetta sótt meira af kappi en forsjá. Það má t. d. alveg eins láta það ná til ullarframleiðendanna og banna með öllu innflutning á erlendum fötum og fataefnum, og láta þá jafnframt fá ívilnanir á farmgjöldum fyrir ull sína hafna á milli. Þannig mætti og lengi telja. Ég fæ því ekki séð, hvar þetta ætti að taka enda, ef gengið væri inn á þá braut að styrkja ýmsar framleiðslugreinar á þennan hátt.

Ég get látið það sem vind um eyrun þjóta, þó að hv. þm. Mýr. hleypi sér á skeið og stökkvi út af því með köflum, eins og t. d. á síðasta þingi, þegar hann rak sig á okkur þm. Rang. Ég vil taka á málinu með meiri alvöru og víðsýni en hann, því að ég tel mér skylt að sjá sem mest fyrir þörfum allra landsmanna í heild, og mun því ekki ljá sérhagsmunamálum einstakra héraða stuðning minn meðan ég á sæti á þingi. En þetta mál er einmitt eitt af slíkum málum. Það er byggt á þeim grundvelli, sem forðast verður að gefa fordæmi um.

Hv. þm. sagði, að við þm. Rang. værum með skrípaleik í þessu máli og vildum gera úr því einskonar skrípi. Ég get þá sagt þessum hv. þm. það, að úr frv. er ekki hægt að gera annað en það, sem það er, — skrípamynd af hugsunarhætti þeirra manna, sem bera það fram. Ég sé ekki, ef tekin eru trúanleg orð flm., að þetta eigi ekki að verða til að hækka kartöflurnar í verði, að nokkuð það sé í frv., sem gæti gefið mönnum byr í seglin um það, að meira verði ræktað. — Hv. þm. Borgf. sagði, að verið væri að leggja stein í götu þess, að frv. gæti veitt bændum hann styrk og þá stælingu, sem því væri ætlað að veita þeim. Ég sé núi ekki, á hvern hátt það ætti að veita bændum stælingu og styrk, nema þá með því, að þeir fái að ráða verðinu á vörunni.

Hv. þm. Mýr. var að tala um, að menn ættu að vera sjálfum sér nógir. (BÁ: Ég sagði, að menn ættu að vera það að svo miklu leyti, sem hægt væri). En það þýðir ekkert að tala svona. Það er svo margt, sem við verðum að sækja til annara landa og ekki er hægt að framleiða hér. Það þýðir t. d. ekki að planta hér vínviði. Slíkt gæti ekki borgað sig. Sú planta vex ekki í íslenzkri mold. Hið eina, sem hægt er að rækta hér af því, sem vinna má vín úr, eru líklega kartöflurnar. Það er sagt, að úr þeim megi brugga allgóðan „landa“. annars er óþarfi að eltast meira við mál þetta. Er bezt, að því verði sem fyrst vísað frá frekari aðgerðum þingsins heim til sinna föðurhúsa.