23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

3. mál, landsreikningar 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vildi gera fáeinar aths. við ræðu hv. 2. þm. Skagf. á síðasta fundi. Ég ætla að fylgja sömu röð og fylgt hefir verið áður við þessar umr., þótt sum atriðin séu að vísu nokkurn veginn útrædd.

Ég ætla þá aftur að víkja að þeim smáatriðum, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, og er þá fyrst eyðsla stj. í hestahald. Hv. þm. viðurkenndi, að þessir hestar hefðu verið komnir fyrir mína tíð í stjórnarráðið og verið þar í tíð íhaldsstj., og þá verið notaðir af ráðh., en hann vildi ekki viðurkenna, að hann hefði notað þá nema í embættiseftirlitsferðir. Nú er það vitað, að ráðh. í íhaldsstj. fóru pólitískar ferðir um landið, og ég vil minna hv. þm. á, að hann lét sækja sig á þessum hestum 1927 norður í land, eftir að hann hafði verið þar á pólitískum fundum. Það er þess vegna ekki rangt, að hann hafi notað þá í eigin þarfir, og vil ég leiðrétta þetta hjá hv. þm.

Hv. þm. heldur því fram, að allir þeir bílar, sem notaðir eru til ýmiskonar séreyðslu og færðir eru á LR., séu stj. að kenna, og þá sérstaklega mér. Hann vill helzt færa kostnaðinn við póstbílinn, símabíinn og bankabílinn mér til syndar. Hann vill láta ferðir bílanna með biskupinn, landlækni, verkfræðinga, skólafólk, starfsmenn Búnaðarfélagsins o. fl., vera á kostnað stj. En svona er það einmitt, að þessir bílar hafa verið meira notaðir almennt í þágu þjóðarinnar en aðrir bílar. Og þegar svo er komið, að stofnanir eins og bankarnir, sem hafa tiltölulega lítið við bíl að gera, og póstmeistarinn hafa fengið sér bíla til afnota, þá þýðir ekki að vera að halda því fram, að þetta eigi öðruvísi að vera. Þar að auki er þetta siður í öðrum löndum, að stj. hafa bíla fyrir hverja skrifstofu, af því að þær sjá, að það er ódýrara og praktiskara en að leigja bíla.

Hv. þm. gaf í skyn, — ég held ég hafi skilið það rétt, — að ég hefði gert einhverja falssamninga um sölu bíla og dregið mér peningana fyrir þá, og vísa ég þessu heim til föðurhúsanna aftur. Hann getur séð það í reikningunum, að ég hefi selt bílana eftir mati bifreiðaeftirlitsmannanna og að tekjurnar hafa runnið í ríkissjóð. Ef þær eru ekki færðar á reikning landhelgissjóðs, þó er það af því, að þeir, sem sjá um bókhaldið, hafa ekki vitað, að svo ætti að vera, og látið þær renna í ríkissjóð, en peningarnir hafa ekki fremur runnið til mín en til hv. 2. þm. Skagf. enda átti hvorugur okkar að fá þá.

Þá hefir gleymzt hjá mér eitt atriði, sem hv. þm. hefir oft minnzt á, en það er kosningaferðalag okkar landskjörsmanna sumarið 1930 á varðskipinu, og telur hann það vera mikla synd og lætur sem ég einn hafi haft not af skipinu í þessari ferð. Ég skal því rifja það upp, að allir aðalfulltrúar flokkanna voru í þessari ferð og að þetta var eini möguleikinn til að ná til kjósendanna úti um allt land; við héldum um 40 fundi víðsvegar um landið, og vorum við reyndar oftast aðeins 2 af framhjóðendunum, en nokkurn hl. af ferðinni var þó íhaldsframbjóðandinn með eða þá staðgengill hans. Þess vegna er það rangt, að Framsóknarflokkurinn hafi haft meira gagn af þessari ferð en aðrir flokkar, því að þar ríkti fyllsta réttlæti. Það hefði verið alveg eins og ef hv. þm. hefði látið senda leiguhesta norður í Skagafjörð til afnota fyrir sig og mótframbjóðendur sína, en ekki til afnota fyrir sig einan, eins og hann gerði. (MG: Hæstv. ráðh. neitaði andstæðingi sínum um far). Ekki nema manni, sem var brotlegur við landhelgislögin. Hv. þm. veit, að Árni frá Múla er nú þungur, og hann var lengi með, og það mun ekki hafa kostað skipið minna erfiði að hafa hann um borð en okkur hina báða. (MG: Var hv. þm. G.-K. ekki nógu feitur til að fá far?). Hann var of syndugur í landhelgismálum. — Það var þess vegna gaett fyllsta réttlætis milli flokkanna. Og þessu var vel fagnað af kjósendunum og almenningur mjög ánægður yfir því, að við skyldum koma, eins og sást á því, að mjög víða létu sjómenn falla niður róðra þennan dag og bókuðu sér með því mikið tjón, miðað við þröngt sjónarmið. En án þess að taka varðskipið í þessa ferð hefðu frambjóðendurnir alls ekki komizt í snerting við kjósendurna. Þetta vor höfðu líka skipin minna að gera við landhelgisgæzlu en undanfarin án, og svo hefir það alltaf þau áhrif, þegar skipin eru við landið, hvort sem þau eru fyrir austan, norðan eða vestan, að þá eru trollararnir ekki þar við land. Þetta skip fór því líka ferðir tilheyrandi starfi sínu. Og þar sem gæzlan hafði verið svo goð undanfarið, þá þurfti heldur ekki einsmikla gæzlu til að halda trollurunum burtu.

En því, sem hv. þm. notar venjulega sem aðalástæðuna fyrir árásum sínum út af þessari ferð, að hún hafi verið farin vegna flokkshagsmuna, vísa ég algerlega til baka, með því að það er skjallega sannað, að hans flokkur hafði rétt til að hafa aðalmann flokksins, sem sé frambjóðandann, með í förinni eins og hinir flokkarnir, svo að Framsóknarflokkurinn sýndi ekki nokkra hlutdraegni í þessum efnum.

Þá skal ég minnast á læknamálið. Hv. þm. er ekki ánægður með það, að Sigvaldi Kaldalóns skyldi fá Keflavíkurhérað. En út af því, sem hann sagði um löglegt heiti á héraðinu, þá vil ég benda á, eins og líka hv. þm. mun vera kunnugt, að í frv. því, sem mi hefir verið samþ. Hér um skipun læknishéraða, er, eins og áður var, gert ráð fyrir því, að veita megi undanþágur frá ákvæðunum um læknissetur, ef þær stafa af því, að ekki er húsrúm til fyrir lækninn á þeim stað, sem hann á að sitja. Nú vill svo til, að í Keflavík fékk læknirinn ekkert húsnæði, en í Grindavík var skotið saman um 20 þús. kr. til að byggja yfir hann, af því að Grindvíkingar vildu vinna það til, til að fá til sín svo góðan mann, og hefir aldrei í neinu héraði verið sýndur eins mikill áhugi fyrir að fá ákveðinn lækni eins og þarna, og hefir þó enginn læknir orðið fyrir eins miklum harðyrðum og þessi læknir. Þess vegna er það, að fólkið hefir dæmt framkomu læknanna fyrir sitt leyti og kann vel að meta hana á réttan hátt. En Sigvaldi Kaldalóns veit það vel, að hvenær sem héraðið reisir læknisbústað í Keflavík, þá verður hann að flytja þangað. En sem stendur kaera héraðsbúar sig víst ekki um að byggja.

Hv. þm. var að halda því fram, að það hefði ekki verið sambærilegt, þegar ég hefði tekið dæmi af honum sjálfum, þegar hann fór frá embætti með eftirlaunum, og borið saman við flutninginn á Sigvalda Kaldalóns milli embætta. Þetta eru þó stjórnarsamningar hvorttveggja. Því að ég vil segja hv. þm. Það, eins og hann líka veit, að þegar hann lét af ráðherræmbætti, var búið að afnema eftirlaun ráðh. Hann veit líka, að sýslumaður á hans aldri og við góða heilsu, sem hann sem betur fer hefir, á ekki að fá nein eftirlaun. Þótt hann færi úr embætti. T. d. er einn sýslumaður nú að sækja um lausn frá embætti, maður, sem er enn á góðum aldri, og sendi með umsókninni læknisvottorð um heilsuleysi, en honum var sagt, að ef hann vildi fá eftirlaun, þá yrði hann að koma suður og láta skoða sig í landsspítalanum, svo að það væri fullvíst, að áliti helztu lækna, að hann væri svo heilsulaus, að hann hefði rétt til eftirlauna. Það þýðir því ekkert fyrir hv. þm. að reyna að bera það fyrir sig í þessu sambandi, að hann fengi eftirlaun vegna sýslumannsembættisins. því að þótt hann hafi verið ráðh., og þótt hann hafi verið sýslumaður, þá átti hann ekki kost á neinum eftirlaunum þess vegna, af því að ráðherraeftirlaun voru afnumin, þegar hann lét af ráðherraembætti, og af því að hann var heill heilsu, þegar hann lét af sýslumannsembætti. Og hv. þm. sér, að það er óeðlilegt, að hann fái eftirlaun, þegar hann á hvorki rétt til þeirra sem fyrrv. ráðh. né sýslumaður, og þar sem þetta er þannig óviðfeldið fyrir hann og sýnir ágengni hans við ríkissjóðinn, þá ætti hann nú, af því að hann er nú laglega efnaður maður, að haetta að taka þessa peninga og sýna með því rausn sína, en vera ekki að taka þetta fé lengur, úr því að það er svona fengið. Það er vitað, að með þessari ljómandi heilsu, sem hv. þm: hefir og vonandi heldur áfram að hafa, geta það orðið 40–50 þús. kr., sem hann fær í eftirlaun, þrátt fyrir ráð, að hann hefði annaðhvort orðið að vera veikur sýslumaður eða ráðh., áður en ráðherraeftirlaun voru afnumin, til þess að geta fengið þessi eftirlaun, sem ekki var nokkur minnsti siðferðilegur réttur til að veita honum. Mér finnst það því sitja illa á sýslumanni, sem með harðdrægni hefir komið þessu í gegn og tekur svona fengin eftirlaun, og það þó illa ári, að vera að tala um, þótt Sigvaldi Kaldalóns, sem er fátækur og heilsulítill maður, fái þetta fé, og vera að bera honum á brýn hörku.

Hv. þm. hélt því fram, að hann væri nú ekki viss um, að sá sigur, sem stj. hefði unnið á læknunum, væri svo mikill. En ég get sagt honum það, að sá sigur var svo mikill, að nú eru allir vissir um, að sú tilraun, sem læknarnir gerðu til að draga veitingarvaldið úr hondum ríkisstj., mistókst og að læknarnir lögðu niður vopnin. Og nú munu ekki aðrar stj. þurfa að óttast, að það verði reynt af nokkrum embættismannaflokki að fara hinu sama fram. Það var þess vegna sá sigur, sem stj. vann, að þjóðskipulaginu var bjargað.

Hv. þm. fór nokkrum orðum um það, að læknarnir hefðu haft siðferðilega ástæðu til að bera fram kvörtun út af veitingum á læknaembættum, áður en veiting Keflavíkurhéraðs fór fram, af því að stj. hefði ekki farið eftir till. landlæknis um þær embættaveitingar. Þar til er því að svara, að stj. fór nákvæmlega eftir till. landlæknis um þær veitingar, þeim, sem bréflega lágu fyrir í stjórnarráðinu, og get ég sýnt hv. þm. Það, ef hann óskar þess. En ég vil í þessu sambandi geta þess, að það var löngu fyrir mína tíð í stjórnarráðinu, mig minnir að það hafi verið árið 1922, sem Blönduósshérað varð laust, og þeir höfðu þar, Austur-Húnvetningar, sent stj. áskorun um að veita Kristjáni Arinbjarnarsyni, sem þeir síðar fengu, héraðið, og þá skrifaði landlæknir stj. bréf, þar sem hann segir, að hann hallist að því, að þegar fólkið í læknishéruðunum biðji um ákveðinn lækni, sem það vilji fá, þá fái það þann lækni. Og hann segist hafa verið sjónarvottur að því, að ef þetta hafi ekki verið gert, þá hafi það orðið til óláns fyrir báða, bæði lækninn og héraðsbúa. Og Guðmundur Björnson réð svo til, að þessi maður fengi Blönduósshérað, af því að Austur-Húnvetningar vildu fá hann. Og þeir fengu hann.

Þegar ég svo tók við ráðherraembætti, þá hélt ég þessari sömu stefnu, sem landlæknir hafði tekið fram og formúlerað svo skýrt og skarpt, að þegar fólkið vildi fá einhvern ákveðinn lækni, þá ætti það að fá hann. Nú hafði ég veitt 3 læknishéruð á undan Keflavíkurhéraði, sem sé Dala-, Stykkishólms- og Seyðisfjarðarlæknishérað, og borgararnir sendu eindregnar áskoranir — ég held það hafi verið 80% af öllum mönnum í héruðum, sem báðu um þá menn, sem veitingarnar fengu. Og ég veitti héruðin heim mönnum, sem fólkið óskaði eftir, en ekki eftir neinu flokksfylgi, því að af þessum 3 mönnum var enginn stuðningsmaður stj. og varð það heldur ekki síðar, heldur hafa þeir tilheyrt andstæðingunum. Það var þess vegna engin pólitík í þessum veitingum, heldur var aðeins haldin áfram sú stefna, sem Guðmundur Björnsson hafði hafið í þessu efni. Ef hv. 2. þm. Skagf. hefði viljað koma vini sínum, Jónasi Kristjánssyni, í Keflavíkurhérað, þá hefði hann því ekki þurft annað en safna undirskriftum í héraðinu, — og ég trúi ekki öðru en að það hefði tekizt, þar sem hv. þm. er nú svo vinmargur í héraðinu, a. m. k. sumstaðar —, um að skora á stj. að veita Jónasi Kristjánssyni héraðið, og þá hefði ég veitt honum það. En hv. þm. hefir kannske ekki verið svo hrifinn af því, að Jónas Kristjánsson fengi héraðið; ég get vel trúað, að hann hafi ekki kært sig um að missa svo ágætan agitator úr Skagafirði. (MG: Nú, hæstv. ráðh. hefir þá kannske verið að hjálpa mér! ! ). Já, stj. leit Svo á, að það væri enginn velgerningur við hv. þm. að láta hann missa þennan agitator. Hinsvegar er það víst, að ef hv. þm. hefði aflað undirskrifta fyrir þennan vin sinn í Keflavíkurhéraði, og fólkið valið hann, þá hefði stj. lagt það til við konung, að honum yrði veitt embættið. En þetta vildu læknarnir ekki, því að svo illt sem þeim þótti, að ráðh. réði veitingu læknisembættanna, þá vildu þeir þó enn síður, að fólkið réði. Baráttan var því um það, hvort fólkið ætti að ráða veitingu þessara embætta eða fámenn læknaklíka í Reykjavík. Og sá sigur, sem unninn var, var svo mikill, að það verður erfitt fyrir nokkra stj. Hér eftir að neita því að verða við óskum borgaranna, ef þeir biðja um ákveðinn lækni, eftir að þessi venja hefir myndazt.

Hv. 2. þm. Skagf. vildi lítið fara út í þann hernað, sem ég líkti þessu læknastríði við, sem sé hernað hans sjálfs, ég held það hafi verið 1922, út af rússneska drengnum. En ástæðan fyrir þeim hernaði reyndist nú annars mest tóm vitleysa, því að þessi drengur kom hér í sumar og hafði þá vottorð lækna um, að honum væri nú batnað, eftir að hann hefði verið á spítala í 3 mánuði, og væri nú alheilbrigður. Ráðunautar stj. höfðu því á röngu að standa. En ég ásaka ekki hv. þm. fyrir það; hann trúði þeim og varð því að fara að eins og hann fór. Þeir leigðu byssur, púður og blý og létu útbúa spítala og leigðu börur, og svo var stofnaður hér, og það voru víst í pöntun um 500 menn í allt undir vopnum, til að verja þjóðfélagið. Svo komu þeir til Alþingis og báðu um að fá þetta góðkennt, og það samþ. þennan herkostnað, sem var nokkuð hár, út af þessu lítilfjörlega og raunar ranga tilefni.

Hv. þm. hélt því fram, að það væri mótsetning milli svarsins í LR. og minnar ræðu um kostnaðinn við að brjóta læknaklíkuna á bak aftur. En það er ekki. Hv. þm. veit, að stjskr. gerir ráð fyrir því, að hægt sé að flytja embættismann milli jafngóðra embætta. Og úr því stjskr. gerir ráð fyrir, að þetta sé gert, þá ætlast hún auðvitað til, að stj., undir vissum kringumstæðum, þegar þjóðfélaginu liggur á, skuli gera það. Nú væri það heimska að skilja þetta stjskr.ákvæði svo, að stj. mætti ekki gera neinar ráðstafanir til að afstýra þjóðfélagshættu nema þær, sem kostuðu ekki neitt.

Það liggur í hlutarins eðli, að stj. verður að geta gert samninga um slíkar ráðstafanir sem þessar, þótt þær kunni að kosta ríkissjóð nokkurt fé, á sama hátt og hv. þm. sjálfur gerði, þegar hann var í stjórn 1922, þegar hann keypti byssur og önnur hernaðartæki af vopnasolum hér í bænum til varnar þjóðskipulaginu. Þess vegna er það rétt, sem ég hefi haldið fram um þetta. Flutningur læknisins milli héraðanna styðst við þá reglu, sem stj. verða að fylgja í þeim efnum samkv. stjskr.

Með fordæmi ríkisstj. 1922 hafði ríkisstj. skuldbundið ríkissjóð til þess að standa straum af þeim kostnaði, er af því stafar, að verjast uppreisn gegn þjóðskipulaginu. — Get ég svo látið úttalað um Sigvalda Kaldalóns, en það mál hefir orðið eitt hið vinsælasta hér á landi, því að almennt hafa menn skilið, hversu brýn nauðsyn var á að brjóta niður ofsa og uppreisnaráform læknafélagsins, eins og hugur og framkoma íbúanna sýnir í því þorpi, sem læknirinn situr í.

Þá kem ég að Laugarvatnsskólanum, sem hv. 2. þm. Skagf. dvaldi lengst við í ræðu sinni. Ég vil þá fyrst minna hv þm. á það, að þessir fimm nýju héraðsskólar, sem reistir hafa verið á síðari arum, hafa samtals kostað ríkið álíka fjárupphæð og einn gjaldþrota smakaupmaður hefir kostað þjóðina, það er Sæmundur Halldórsson í Stykkishólmi. Á honum hefir ríkið eða bankarnir tapað eins og kunnugt er 600–700 þús. kr., og er það eitt einasta dæmi.

Það er eitt dæmi um fjárstæður hv. þm. í aths. hans út af fjárframlaginu til Laugarvatnsskólans, að hann heldur því fram, að heimild stj. til þess að taka lán vegna bygginga héraðsskólanna beri ekki að skoða sem heimild til þess að nota tekjur ríkissjóðsins umfram áaetlun sem tillag ríkissjóðs til skólanna. En þetta er aðeins meinloka hjá hv. þm. Það liggur í augum uppi, að það er ekki ætlazt til, að ríkissjóður fari að taka lán, ef hann hefir nóg fé fyrir hendi til þess, sem á að framkvæma. Það dettur engum í hug, þegar þingið er búið að gefa stj. heimild til þess að taka lán til byggingar, t. d. landsspítalans, að þá sé henni ekki jafnheimilt að nota umframtekjur góðærisins í því sama skyni, og það meira að segja fremur en að taka lan, því heimild til lántöku gildir vitanlega aðeins, ef fé er ekki fyrir hendi með öðru móti.

Þá kem ég að því aðalatriði þessa mals, hvort þau náttúrugæði, sem fyrir hendi eru og notfærð eru skólanum til blessunar, vinni honum gagn, sem nemur vöxtum af 300 þús. kr. á ári, og hvort rangt sé að telja þessi hlunnindi sem framlag til skólans. Það heyrðist á, að hv. þm. var heldur ókunnugur þessum sökum. Hann talaði um, að það næði engri átt, að hitunarkostnaður Laugarvatnsskóla hefði orðið svona mikill, og gat um til samanburðar, að hitunarkostnaður Hólaskóla væri ekki nema 6–8 þús. kr. á ári. Ég skal nú segja hv. þm. Það, að hann með þessum slumpreikningi sínum á hitunarkostnaði Hólaskóla fer ekki svo langt frá því að gera það eðlilegt, að sá kostnaður mundi á Langarvatnsskóla nema ca. kr. 18 þús., þegar á það er litið, hve miklu dýrari er flutningur á kolum að Laugarvatni heðan frá Reykjavík heldur en til Hóla frá næstu höfn, en þó sérstaklega þegar litið er á það, að Laugarvatnsskóli rúmar nálægt þrisvar sinnum jafnmarga nemendur og Hólaskóli, og væri því eðlilegt, að hitunarkostnaðurinn hefði orðið þeim mun meiri en á Hólaskóla fyrir utan það, sem hann hefði orðið hærri fyrir aðra verri aðstöðu. — En fyrir utan þetta er sundlaugin á Laugarvatni, sem hv. 2. þm. Skagf. hefir ekki tekið með í reikninginn í sínum samanburði. Húsameistari ríkisins hefir reiknað út, hvað árlegur rekstur hefði kostað, ef skólinn á Laugarvatni hefði verið byggður við Ölfusarbrú, og bæði hann og sundlaugin hefði verið upphituð með kolum, og nemur það hvorki meira né minna en 100 þús. kr. á ári. Þetta er gert við einn skóla fyrir ríkra manna börn í Englandi, sem ég þekki. Það eru náttúrlega dýr heilsumeðul þetta, en það eru þægindi og menningarskilyrði, sem eru ákaflega æskileg, bæði fyrir fátæka og ríka. Af þessu sést, að það hefir verið ómetanlegur hagur fyrir þennan skóla og alla þá, er hans eiga að njóta, að þessi náttúruauður skyldi verða notaður í þágu hans, og það er alveg augljóst mál, að ef prívatmaður hefði átt þennan stað, þá hefði hann viljað hafa eitthvað ekki Iítið fyrir snúð sinn. Hann hefði blátt áfram miðað sölu Laugarvatns við verðmæti náttúrugæðanna, eins og byggingarnefndin hefir gert að nokkru leyti. Til þess að sýna, að þetta er ekkert óeðlilegt, ætla ég að taka dæmi af bónda, sem býr á jörð á einni eyjunni á Breiðafirði, sem er eign hv. þm. Bóndi hefir byggt hús á þessari jörð fyrir 10 þús. kr. og vill nú selja jarðeiganda þetta hús með kostnaðarverði, en hv. þm. vill ekki gefa nema 1 þús. kr. fyrir húsið. Við þessu er náttúrlega ekkert hægt að segja, en þetta er þó meira harðræði heldur en stj. og þing geta verið þekkt fyrir að beita. Hér er um að ræða einstakling, sem notar sér sína aðstöðu. Aftur er ég viss um, að hv. þm. er mér sammála um það, að ríkið getur ekki beitt sér á líkan hátt; það gæti ekki farið að selja fólkinu náttúrugæðin við okurverði, og ég er viss um, að hv. þm. hefði ekki, þótt hann hefði verið ráðh., fremur en ég farið að meta hitann í Reykholti sem tillag frá ríkinu, þótt bæði hann og ég sem einstaklingar hefðum viljað virða hitann til peninga, ef við hefðum verið að selja ríkinu eignina. Það sér hver maður, að það er enginn smáræðissparnaður, sem verður fyrir notkun jarðhitans, þar sem hann skuli nema 100 þús. kr. á ári á einum einasta skóla, miðað við þá skóla, sem reknir eru í Reykjavík, auk þess sem þessi skóli vegna hinna sérstöku hlunninda skapar fjörugra og heilsusamlegra skólalíf en þeir. Þetta eru gæði, sem virkilega eru peningavirði, gæði, sem eru varanleg og engum manni dettur í hug að gera lítið úr nema af pólitískum ástæðum. Hv. 2. þm. Skagf. hefir tvisvar í þessum umr. minnzt á sænskan mann, Ivar Krenger, og er helzt að skilja, að hann haldi, að ég hafi staðið í einhverju oleyfilegu sambandi við þennan mann, sem ég hefi þó aldrei séð. (MG: Hæstv. ráðh. hefir þó skrifað eftirmæli um hann). Ef ég væri skáld, getur vel verið, að ég hefði reynt að yrkja eftirmæli um þennan sænska íhaldsforkólf, en ég mundi þá líklega ekki síður reyna að gera löndum mínum í þessum flokki sömu skil. Það hefir komið upp við rannsókn á eftirlátnum eignum þessa manns, að ýmsar voru mjög lítils virði, svo sem fölsuðu ríkisskuldabréfin, og það eru því ákaflega ósambærileg verðmæti, þessi ítölsku ríkisskuldabréf og heita vatnið í alþýðuskólunum, sem vara mun um aldur og ævi, og er því ekki gott að átta sig á hugsanagangi hv. þm. í þeim samanburði. En úr því að hv. þm. er að ástæðulausu að reyna að sýna fram á samband milli mín og þessa íhaldsforkólfs, sem með stórfeldum fjárframlögum hefir styrkt íhaldið og kommúnista, bæði í sínu föðurlandi og öðrum löndum, þá er ekki úr vegi að minna hv. þm. á, að einmitt hann hefir á sínum stjórnararum komizt í samband við útlenda menn af sama tagi. Hér um árið kynntist hann norður við Eyjafjörð manni, sem óvirt hafði Íslendinga og íslenzk lög. Hann hefir játað sig hafa fengið kaffi hjá þessum manni (MG: Og með því.), þegar hann atti að rannsaka mál hans, en ekki viljað kannast við að hafa þegið af honum veizlu, en nokkuð var það, að þjóðinni þótti hv. þm., sem þá var ráðh., verða helzt til lítill í viðureigninni við þennan erlenda fjárbraskara, sem misboðið hafði okkar þjóð. Annað dæmi af hv. þm. sem ráðh. er, þegar hann tók enska lánið og fékk þá Pál Torfason og sænskan mann, sem kallaður hefir verið Kúlu-Andersen, til þess að vinna fyrir landið. Þessi sænski maður var nú skömmu seinna viðurkenndur glæpamaður, en hv. þm. taldi sér ekki fært að borga þessum mönnum minna en 100 þús. kr. fyrir að fara til Lundúna og tala við væntanlega lánardrottna. Hann gaf strax út skipun um að greiða þeim 53 þús. kr., og hitt hafa þeir fengið í ýmsum baugabrotum samkv. samningum, sem Alþingi er kunnugt um. Þegar athugað er, að hv. þm. hefir sjálfur reynt það að vera í lífrænu sambandi við slíka menn sem Kúlu-Andersen og gefið honum af landsins fé, er ekki gott að skilja, hvaða rök hann sér fyrir því, að blanda þessum útlenda íhaldsfjárglæframanni, sem aldrei hefir komið nærri neinum Íslandsmálum, saman við skólamal okkar. En ég vil spyrja hv. þm., hvaðan hann hafi haft heimild til þess að borga þessum mönnum aðra eins ógnarupphæð fyrir lítilsháttar undirbúningsvinnu við lántöku: ég get bent hv. þm. á að athuga það til samanburðar, að ég undirbjó lántöku í Englandi nokkru síðar, og mun sá undirbúningur hafa fyllilega svarað til þess starfs, sem þessir liðsmenn hans leystu af hendi, en kostnaðurinn var harla ólíkur. Þegar á það er litið, að þessi hv. þm. hefir með einum pennadrætti samp. þessa rausnarlegu greiðslu til hinna frægu umboðsmanna sinna, þá er það dálítið undarlegt, að hann skuli geta fengið sig til að spyrja um lítilfjörlegan stríðskostnað í baráttunni við læknaklíkuna, enda er árangurinn af þessum tveimur greiðslum ríkisins harla ólíkur. Ég get varla lokið svo máli mínu um Laugarvatnsskólann að minnast ekki á þá þakklætisskuld, sem þessi skóli sérstaklega stendur í við höfuðforkólfa Íhaldsflokksins, fyrir öll þau ósannindi, sem þeir hafa breitt út um þennan skóla, alla rangsleitnina og andúðina gegn honum, því að þetta hefir allt verkað öfugt í reyndinni. Þegar menn hafa farið að kynna sér það, hvað hæft væri í þessnm málarekstri íhaldsins, og það sanna hefir komið í ljós, að allt var vitleysa hjá því, þá hafa öll ólætin snúizt upp í sórkostlega auglýsingu fyrir skólann, þannig að mótstaðan hefir snúizt í verklegt meðhald einmitt hjá sumum flokksmönnum hv. þm. Af öllum alþýðuskólunum hefir Laugarvatnsskóli einmitt hlotið hvað mesta aðsókn og aðdáun hjá þjóðinni, og þetta á hann að miklu leyti að þakka hinni stórkostlegu mót-agitation ihaldsins, sem ég býst ekki við, ai5 hægt verði að meta til peninga fremur en jarðhitann. Hv. íhaldsmenn hafa mjög mikið ýkt áhrif mín í þá átt að auka vinsældir þessa skóla, því að þeir hafa viljað þakka mér nær eingöngu hans glæsilega upphaf. Þótt þeir hafi náttúrlega gert allt of mikið úr mínum áhrifum, þá langar mig til að launa þeim „complimentin“, ekki með illu, eins og mér sýnist hv. þm. búast við, eftir brosi hans að dæma, heldur með því að minna á það, að þessir afvegaleiddu andstæðingar skólans virðast hafa snúizt til réttrar skoðunar á skólanum. Þessi skóli er nú orðinn yfir veturinn heimkynni 140–150 namssveina og meyja víðsvegar af landinu, en 5 sumrin er hann gisti- og dvalarstaður hinna efnameiri borgara landsins, sérstaklega þessa bæjar. Vegna ríkulegra skilyrða frá nátturunnar hendi og framlaga frá hinu opinbera er nú þessi staður orðinn þannig búinn, að efnamennirnir kjósa sér staðinn öðrum fremur til þess að verja þar sínum fjármunum sér til hvíldar og heilsubótar. Það er kunnugt, að ríku fólki verður oft það á að borða meira en það hefir gott af, en því fylgir svo gigtveiki og ýmsir aðrir kvillar. Og þó að gufuböðin á Laugarvatni veiti kannske ekki öllum, sem þangað leita, fulla bót sinna meina, þá er ég fullviss um það, að hv. 2. þm. Skagf. mun eftir nokkur ár sannfærast imi það, að ég mun fá miklar þakkir fyrir áhrif mín á stofnun þessa skóla, og á sama hátt óverðskuldaðar og það aðkast hefir verið, sem ég hefi hingað til sætt í því máli frá flokksmönnum hv. þm. Þess mun verða minnzt, að fyrir þetta fólk hafi ég þarna látið byggja slíkt hvíldar og hressingarhæli, að annað eins finnst ekki fyrr en suður í heitari löndum. Á þennan hátt mun Íhaldið smámsaman móttaka laun fyrir þann skerf, er það hefir lagt til stofnunar skólans.

Ég hefi nú í tveim ræðum gefið nokkra skýringu á hinni pólitísku hlið þessa skólamáls, sem upplýsir nokkuð ástæðurnar fyrir aths. hv. þm. um byggingarkostnað Laugarvatnsskóla. Mun ég svo láta við svo búið sitja að sinni og ekki teygja lopann meir um þetta mál, með því líka að ég þarf öðrum fundarstörfum að sinna bráðlega.