23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

3. mál, landsreikningar 1930

Jónas Þorbergsson:

Það er að vísu ekkert nýmæli hér á Alþingi, að endurskoðunarmenn LR. geri nokkrar aths. við reikninginn og að nokkur orðasenna verði milli þeirrar stj., sem ber ábyrgð á LR., og yfirskoðunarmanna. Það er eðlilegur hlutur og ekki nema sjálfsögð skylda yfirskoðunarmanna að athuga þessa hluti vel. En eigi að síður getur vitanlega orkað tvímælis, hve langt beri að ganga í þessum aths. Ég hygg, að það muni verða álit nokkuð margra hv. þdm., að yfirskoðunarmenn LR. hafi að þessu sinni ekki einungis gert skyldu sína, heldur e. t. v. að sumu leyti gengið lengra en beint hefir verið ástæða til í smámunum. Sjálfur skal ég ekki um þetta dæma og yfirleitt ekki deila neitt á þessa menn fyrst í stað. En það, sem er ljóst af þessum aths. og ræðu hv. 2. þm. Skagf., er fyrst og fremst það, að hann hefir mjög lofsverðan áhuga á eftirgrennslan um það, hvernig fé er varið, og þá vitanlega fyrst og fremst ríkisfé. Þegar ég verð var við þennan mikla áhuga hjá þessum hv. þm., og ég hefi af samstarfi við hann í fjvn. einnig orðið var við þennan sama áhuga og samvizkusemi hans, þá vænti ég, að ég hljóti hinn mesta stuðning hans í öðru máli, sem hér liggur fyrir Alþingi, sem sé þáltill., sem ég hefi borið fram um að fela ríkisstj. að bera fram lagafrv. um meðferð lánsfjár og starfsfjár. Ég hefi í alllangri ræðu gert nokkra grein fyrir höfuðtilgangi mínum með því að bera fram þessa till., og hvort sem hún nær afgreiðslu þessa þings eða ekki, vænti ég, að þetta mál, sem þar nm ræðir, sé þannig vaxið, að það sé ekki dautt hér í þinginu, og þegar það verður tekið til rækilegrar athugunar — meiri athugunar en kostur er á að gera á þessu þingi, vegna þess að mjög er liðið að þinglausnum — þá vænti ég þess, að ég hljóti stuðning þessa hv. þm. og ýmissa hans samherja, sem munu vera svipaðs sinnis og hann, að ekki misfarist fé í meðförum þeirra, sem með það fara á ábyrgð ríkisins eða stofnana þess. Ég býst við, að þegar þetta mál verður nánar athugað, þá verði gerð einhver eftirgrennslan u.m það, og rætt og reynt að brjóta til mergjar, hvernig á því geti staðið, að einn af bankastjórum Íslandsbanka gat eytt 35 þús. kr. í utanför, og annar mun hafa eytt um 15 þús. kr. í utanför. Það verður gerð eftirgrennslan um, hvernig í því geti legið, að sumir flokksmenn hv. 2. þm. Skagf. fengu milljónir af fé með svo furðulegum hætti eins og Iýst var í minni ræðu, sem var þó ekki nema lítið brot af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um óskiljanlega og glæpsamlega meðferð fjár. — Ég skal ekki fara langt út í þetta mál að sinni, því að það heyrir ekki beint til þess mals, sem fyrir liggur, en vildi benda á þetta, og ég held, þótt það sé mikil nauðsyn og skylda hv. 2. þm. Skagf. að gæta vel trúnaðarstarfs síns sem endurskoðandi 1.R., og þótt hann berjist hér eins og hetja við hinar smærri upphæðir, þá liggi nú fyrir honum og öðrum hv. þm. að stríða við stærri hluti, þegar öll kurl koma til grafar.

Ég skal ekki fara almennt meira út í þetta mál, en ég kvaddi mér hljóðs til þess að gera ofurlitla aths. við eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. Skagf. (MG: Bara eitt atriði?). Já, bara eitt atriði. Mér er málið óskylt, en það gekk svo fram af mér, að ég vildi gera dálitla aths. (MG: Gott). Það var þetta margumtalaða mál — veiting Keflavíkurhéraðs — og sú þóknun, sem Sigvaldi læknir Kaldalóns hefir fengið og mjög hefir verið umtöluð hér í þinginu. Ég kvaddi mér hljóðs út af því, sem hv. þm. sagði síðast um þetta mál, því að hann gekk fram hjá þeim ástæðum og rökum, sem hæstv. dómsmrh. hafði borið fram í þessu máli, alveg eins og hann hefði ekki heyrt þau. Hv. þm. kvartar oft um það, að hæstv. dómsmrh. sé oft fjárverandi og heyri ekki orð hans. en það er þó betra og afsakanlegra að heyra ekki vegna fjarveru, heldur en hitt að heyra ekki né skilja og vera þó viðstaddur. Nú er hv. 2. þm. Skagf. þaulsætinn og prýðilegur þm. að hegðun til. Það er því lítt verjandi, að hann talar nú eins og hann hefði verið fjárstaddur ræðu hæstv. dómsmrh., því að hann gekk bókstaflega fram hjá öllum rökum hans um þetta mal. (MG: Ég fann þau ekki). Hv. þm. hélt því fram, að veitingunni í Keflavíkurhéraði hefði ráðið rangsleitni og ekkert annað en rangsleitni. Hann sagði ennfremur, að aðrir læknar hefðu samkv. veitingarreglum átt að fá héraðið. Samkv. réttum lögum sagði hann, að Jónas Kristjánsson hefði átt að fá embættið, en hann og aðrir hefðu sótt, en ekki fengið. Ég vil gera aths. við þetta. Ég skal reyndar vera stuttorður, því að það verða sjálfsagt langar umr. ennþá frá hálfu hv. 2. þm. Skagf. Hæstv. dómsmrh. hefir í sínum umr. um þetta mál ekki borið á móti því, að Jónas Kristjánsson hefði, ef allt hefði verið með felldu, átt að fá héraðið. Hann hefir meira að segja lýst því yfir, að ef umsókn Jónasar Kristjánssonar hefði borið að með skaplegum hætti og ekki verið notuð sem einskonar herbragð í læknadeilunni, þá hefði hann veitt honum héraðið. En það, sem hv. 2. þm. Skagf. gengur alveg framhjá í þessu máli, er að taka til greina, hvernig umsókn Jónasar Kristjánssonar bar að. Það er ekki til neins fyrir hv. 2. þm. Skagf. að berja höfðinu við steininn um eiginlegt innihald þessa máls. Allir vita, að læknastéttin hafði myndað harðvítug samtök um allt land í þeim tilgangi að fá sjálf ráðið um veitingu læknisembætta.

Þegar hið margumtalaða Keflavíkurhérað var veitt, munu hafa komið um 18 eða 20 umsóknir. Læknafélagið hafði skipað svonefnda embættaveitingarnefnd. Þessi nefnd stakk síðan undir stól öllum þessum umsóknum, nema umsókn Jónasar Kristjánssonar. Hana sendi n. eina. Ef Iæknafélagið hefði sent stj. t. d. þrjár umsóknir, þá hefði verið öðru máli að gegna, en þar sem það sendi aðeins eina, átti stj. ekki kost á neinu vali. (MG: Hver var það, sem læknafél. stakk upp á?) það var Jónas Kristjánsson. Ef hv. 2. þm. Skagf. hefir ekki heyrt, hvað ég sagði, þá ætla ég að endurtaka það. Ég sagði, að læknafél. hefði aðeins sent eina umsókn og að stj. hefði því ekki átt úr neinu að velja. Þó að þetta hafi farið fram hjá hv. bm. síðustu 2–3 þing, getur það ekki hafa farið fram hjá þeim, sem beita vilja skysemi sinni. Málið lá þannig fyrir, að annað hvort varð stj. að afsala sér veitingarvaldinu í hendur læknafélaginu, ellegar að halda því, fara sínu fram og hafa þessa einskorðuðu till. læknafél. að engu. Og stj. gerði í þessu falli það, sem var sjálfsagt, að halda fast á rétti ríkisvaldsins gegn svo ósvífnum samtökum ofbeldismanna. Ég mundi leyfa mér að álíta það vafasamt, ef jafnvel hv. 2. þm. Skagf. kæmist í svipaða raun í viðureign við einhverja embættismannastétt landsins, að hann teldi rétt að beygja sig, enda þótt hann og samflokksmenn hans álasi hæstv. dómsmrh. fyrir að hafa ekki beygt sig fyrir ofbeldissamtökum læknanna.