22.03.1932
Efri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2946)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Jón Þorláksson:

Þetta frv. um verðtoll af tóbaksvörum skilst mér að muni vera borið fram til þess að reyna að bæta upp þá rýrnun á tekjum ríkissjóðs, sem er fyrirsjáanleg afleiðing af l. um einkasölu á tóbaki, sem samþ. voru á síðasta þingi. Ég lýsti því þá, hvers vegna ég væri á móti þeim lögum, og var það fyrst og fremst vegna fjárhags ríkissjóðs, því að reynslan hafði sýnt, að innflutningur af þeim tóbaksvörum, sem tollur er greiddur af, var minni meðan fyrrv. tóbakseinkasala stóð yfir en bæði fyrir og eftir. Ég gekk að því vísu að sama mundi niðurstaðan enn verða. Og frá 1. í sumar var svo gengið með samkomulagi milli framsóknar- og jafnaðarmanna, að ríkissjóður átti engar tekjur að fá af verzlunarhagnaði einkasölunnar. Þá var á það bent, að með þessu móti mundu tekjur ríkissjóðs af tóbaksinnflutningi minnka sem svaraði þeirri lækkun á tolltekjum, sem kæmi af minnkandi innflutningi. Ég viðurkenni þörfina fyrir að bæta úr þeirri missmíði, sem 1. um tóbakseinkasöluna voru, en það væri gert á einfaldastan og beztan máta með því að fella l. hreinlega úr gildi. — Öllum tóbaksneytendum ber saman um það, að verð á tóbaki hafi hækkað síðan einkasalan tók til starfa. En það er dálítið hættuleg leið að hækka vöruna í verði, ef tekið er tillit til tekna ríkissjóðs. Með því móti minnkar neyzlan, og þá tolltekjurnar um leið, en ríkissjóður fær engan ágóða af verðhækkuninni. Afleiðingin verður tekjurýrnun fyrir ríkissjóð. Og ég álit það ófæra leið að bæta upp þessa tekjurýrnun með því að hækka enn toll af tóbaksvörum. Það er nú svo komið, að tollur af tóbaksvörum nemur næstum eins hárri upphæð og andvirði alls innflutts tóbaks samkv. verzlunarskýrslum. Ég hefi sagt það áður, og ég er jafnsannfærður um það enn, að tollhækkun undir einkasölufyrirkomulagi er ekki ráðið til þess að auka tekjur ríkissjóðs, heldur dregur aðeins ú neyzlu tóbaks og rýrir þannig tekjurnar. Ég mun þess vegna ekki sjá mér fært að greiða þessu frv. meðatkv.