23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

3. mál, landsreikningar 1930

Magnús Guðmundsson:

Ég vona, að hv. þm. Dal. hafi heyrt, er hæstv. forseti sagði, að ég myndi aðeins fá að gera stutta aths., því að ég er nú í rauninni dauður, en ég skal svara honum síðar í sambandi við annað mál á dagskrá.

Hv. þm. talaði um, að ég berðist sem hetja um ýmsar smáupphæðir, en hann tæki aftur þær stóru. Nefndi hann 35 þús. kr. og 100 þús. kr. Ég talaði um nokkur hundruð þús., sem borguð hafa verið þvert ofan í lög, svo að ég ræði hér um þó nokkuð stærri upphæðir en hann. Mun ég ekki mæla bót fjársukki, hver sem í hlut á.

Hv. þm. talaði um það, viðvíkjandi veitingu Keflavíkurhéraðs, að rökin hefðu farið fram hjá mér, en það hafa víst engin rök komið fram í þessu máli. Kalla ég það ekki rök, að Sigvalda Kaldalóns hafi verjð veitt héraðið af því, að ekki kom fram nema 1 umsókn og hún frá Jónasi Kristjánssyni. — Jafnframt lýsti hv. þm. yfir því, að það hefði einmitt verið þessi maður, sem hefði átt að fá héraðið. Gat hæstv. ráðh. þá ekki verið ánægður, þegar umsókn kemur frá þeim manni einum, sem hann viðurkennir sem réttborinn til embættisins? Fyrst þá, er ráðh. er ósamþykkur læknafélaginu, er ástæða til þess að veita öðruvísi en það vill. Hver getur skilið, að ástæða sé til þess fyrir ráðh. að veita embættið þvert ofan í sannfæringu sína, — því að hv. þm. lýsti yfir því, að Jónas Kristjánsson ætti rétt til héraðsins —, fyrir það eitt, að læknafélagið hafi lagt hið rétta til? Það, sem hér hefir verið gert, er þá eftir yfirlýsingu hv. þm. Dal. Það, að ráðh. veitjr embætti ofan í sannfæringu sína af því að læknafélagið leggur til það, sem hann telur rétt. Hver trúir þessu? Ekki ég. Ég held, að ráðh. hafi alls ekki viljað láta Jónas Kristjánsson fá héraðið og að hann hafi notað læknafélagið sem yfirvarp til þess að komast hjá því, sem rétt var. Hér er um hlutdrægni að ræða og ekkert annað, því að það er og verður vitleysa, að það hafi verið einhver nauðsyn á að fara í hernað við læknafélagið út af því, að það leggur til að veita embætti þeim manni, sem ráðh. telur til þess bezt fallinn.