30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (2950)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þetta frv. kemur frá Nd. og hefir ekki mæt þar verulegu hnjaski. Frv. er þorið fram til tekjuöflunar. Það hefir reynzt svo víðast hvar á þessum tímum, að orðið hefir að afla nýrra tekna. Nú má segja um tóbakið, að á því hvíli þegar tollar, en þó ekki meira en svo, að vindlar og sígarettur eru hér ódýrari en víðast annarsstaðar. En aftur eru aðrar tóbaksvörur, svo sem „skraa“ og rjól, álagningslitlar hér á landi, og mundi því ekki óhæfilegt að bæta 15% á þær á svona tímum. Og lögin um tóbakseinkasöluna ætlast til, að helmingur ágóðans renni til byggingar- og landnámssjóðs og hinn helmingurinn til byggingarsjóðs verkamanna. Nú kemur sú hugsun jafnan upp á slíkum tímum sem þessum, hvort ekki sé hægt að draga í ríkissjóð nokkuð af tekjum, sem á góðærum falla til annara þarfa. Ég hefi ekki viljað gera till. um það að fella niður þennan styrk til svo þarfra stofnana sem byggingar- og landnámssjóðs og byggingarsjóðs verkamanna, en ég hefi hinsvegar ekki séð mér annað fært en að leggja það til nú, að nokkuð gangi á þennan ágóða. Ég get búizt við, ef þetta frv. verður samþ., að þá muni þessi ágóði minnka frá því, sem ella mundi. Það er komið fram frv. frá Nd., frá fjvn. þar, um að ágóði tóbakseinkasölunnar falli alveg til ríkissjóðs. En ég verð að halda mér við þá till., sem ég hefi borið fram, að setja verðtoll á tóbaksvörur, hækka nokkuð sumar tegundir. Ég lýsti yfir því áðan, að ég teldi óforsvaranlegt að afla ekki nú nýrra tekna, sem ættu að gefa á ári 1–11/2 millj. kr. og héldust til ársloka 1933. Eftir því, sem tíðkast nú um allan heim, er ekki farið fram á annað en það, sem allir verða að beygja sig fyrir. Það er ekki annað sýnt en að þetta þing verði að sjá fyrir nýjum tekjum, svo framarlega sem það kýs ekki af öðrum og óskyldum ástæðum að koma hér öllu í öngþveiti.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til fjhn. og 2. umr.