30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Jón Þorláksson:

Þegar þetta frv. kom hér upphaflega á dagskrá til 1. umr., var fjmrh. ekki viðstaddur og leit út fyrir, að enginn tæki til máls. Ég geri ráð fyrir, að ef frv. hefði komið til atkvgr. þá, hefði það verið fellt. En ég kunni ekki við það, mér fannst það hálfgerð ókurteisi að fella frv. að hæstv. fjmrh. fjarstöddum umræðulaust, og kvaddi mér því hljóðs, þó að ég hefði í rauninni engan til að tala við, og það varð til þess, að málið var tekið út af dagskrá, svo að hann hefir nú fengið tækifæri til að gera grein fyrir sínu máli. En ummæli hæstv. ráðh. hafa ekki getað breytt skoðun minni á þessu máli. Hann segir, að frv. sé borið fram ríkissjóði til tekjuöflunar, og það var náttúrlega frá upphafi ljóst, en það fer fram á að afla tekna með breyt. á þeirri löggjöf um einkasölu á tóbaki, sem sett var á síðasta ári með samkomulagi milli Alþýðufl. og Framsóknarfl. og móti atkv. og vilja okkar sjálfstæðismanna. Það var gerð grein fyrir því þá, að sú löggjöf, sem sett var um einkasölu á tóbaki, hlyti að leiða til þess að minnka tekjur ríkissjóðs af þessari vörutegund, og voru færð fyrir því rök, sem lögð voru fram í tíma, svo að stuðningsmenn málsins gætu tekið tillit til þess. Þá var fyrirsjáanlegt, að krepputímar væru framundan, bæði fyrir ríkissjóð og aðra. En öll rök væru metin að engu og einhverjir samningar voru gerðir bak við tjöldin, samningar, sem aðrir vita ekki um, hvað hafa haft inni að halda, að öðru leyti en því, sem tekur til sjálfra ákvæðanna í tóbakseinkasölulögunum, en af því að ýmsir helztu menn í Framsóknarfl. hafa sagt, að þeir hefðu ekki ríkiseinkasölu á stefnuskrá sinni að öðru leyti en því, að þeir vildu grípa til þess einstöku sinnum, ef það væri hentugt til að auka tekjur ríkissjóðs, þá geri ég ráð fyrir, að Framsóknarfl. hljóti að hafa fengið einhver fríðindi, sem ekki sjást, fyrir að víkja þannig frá stefnu sinni, að taka upp einkasölu, sem hlýtur að leiða til minnkunar á tekjum ríkissjóðs, en um innihald þeirra fríðinda er ókunnugt. Nú er aftur komið til okkar sjálfstæðismanna og farið fram á það við okkur, að við ljáum atkv. til að samþ. verðtoll á tóbaki ofan á gildandi toll, til þess að bæta ríkissjóði hann tekjumissi, sem var fyrirsjáanlegur af þessari samningalöggjöf Framsóknar- og Alýðufl. Út af fyrir sig er sjálfstæðismönnum ekki ógeðfellt að taka tekjur af tóbaksvörum, en það er svo mikið stjórnmálalegt óheilbrigði í því, að það geti átt sér stað svona samningar til beggja hliða, fyrst við Alþýðufl. um að rýra tekjur af tóbaki, og svo við Sjálfstæðisfl. um að bæta rýrnunina upp. Ég get ekki fallizt á, að það sé rétt af Sjálfstæðisfl. að ljá atkv. til slíkrar verzlunar. Ég tek undir það með hv. 2. landsk., að fyrst samningarnir voru gerðir, og að þeim stóð meiri hl. þings, sé rétt að þeir séu haldnir meðan annað er óbreytt að öðru leyti.

Þá skal ég víkja örfáum orðum að þeim almennu ástæðum, sem hæstv. ráðh. færði fyrir frv., og það var, að á krepputímum eins og þessum væri óhjákvæmilegt að afla nýrra tekjustofna, sem næmu eitthvað á 2. millj. kr. Ég vil minna á það, að á þingi 1928 stóðu hér í d. miklar deilur um það, hvort nauðsynlegt væri að auka aftur álögur á landsmönnum frá því, sem sett var á þingi 1926. Það voru tvö skatthækkunarfrv. fyrir þinginu þá, og þá voru færð talsverð rök fyrir því í fjhn. þd., að þær skattaukningar væru ekki nauðsynlegar vegna þarfa ríkissjóðs, en þó varð niðurstaðan sú, að það, sem farið var fram á, var samþ. Útkoman af þessari skatthækkun árið 1928 varð sú, að öll árin síðan hefir ríkisstj. fengið til umráða miklu hærri upphæðir en áætlað er í fjárl. Hún hefir svo varið þessum upphæðum eins og kunnugt er, eytt þeim að miklu leyti án heimilda frá þinginu, og ekki látið þar staðar numið, heldur líka á sama tíma hleypt ríkissjóði í skuldir. Nú er okkur tjáð, að þessi skatthækkun frá 1928, sem hefir reynzt óþörf þau árin, sem síðan eru liðin, nægi ekki lengur, heldur verði nú ennþá að leggja nýjar álögur á þjóðina, frá 1–2 millj. kr. Ég vildi, að hæstv. fjmrh. vildi eiga tal við hæstv. atvmrh. og spyrja hann, hvort sá atvinnuvegur sé til í landinu, sem sé fær að leggja á sig auknar álögur. (Fjmrh.: Tóbaksreykingar). Ég heyri ekki annað en að hver maður, sem eitthvað á og ekki vill tapa því,, þykist nú fyrst og fremst verða að gæta þess að fást ekki við neina framleiðslu f landinu. Ég held þess vegna, að auknar álögum núna geti ekki orðið til annars en eyðslu á því litla, sem kann að vera eytt af sparifé frá undanförnum árum. Ég held, að atvinnuvegir, sem ekki geta borið tilkostnað síns rekstrar, séu ekki færir um að bæta neinu við sig. Þetta segi ég út af þeim ummælum hæstv. ráðh., að ekki verði hjá því komizt að leggja nýjar álögur á þjóðina um 1–2 millj. kr. Þar við vil ég bæta því, að eftir að reynslan hefir sýnt það nú í 3 ár a. m. k., að eytt hefir verið umfram heimildir og umfram hina raunverulegu getu landsmanna mjög miklu af þeim tekjum, sem ríkissjóði hafa aflazt samkv. skattalöggjöfinni, sem hefir verið óbreytt í aðalatriðunum frá því að hin nýja hækkun var sett á 1928 og þar til einkasalan var lögleidd í fyrra, þá liggi það beint við, að það fyrsta, sem verður að gera, þegar loks opnast augun á þeim, sem hafa gæzlu ríkisfjárhirzlunnar á hendi, að það muni ekki vera hægt að halda áfram í sama horfi lengur, sé að gera rannsókn á því, hvað af eyðslu undanfarinna ára eigi nú að fella burt. Það höfðu allir búizt við, að sá ráðandi flokkur á þinginu mundi láta verða sitt fyrsta verk að kveðja þingið til starfa um það að athuga, á hvaða sviði er réttast að færa saman seglin til þess að lækka útgjöld ríkisins. Þingmeirihl. hreyfði sig ekki, og þá tók Sjálfstæðisfl. málið upp, samkv. skyldu sinni sem stjórnarandstöðuflokks og bar fram réttláta till. í Sþ. um, að þingið skipaði n. til að athuga þessi sjálfsögðu mal. En hvert er þá svarið af hálfu þingmeirihl.? Forseti er fenginn til að vísa till. frá, kveða upp þann úrskurð, sem er vægast sagt ekki byggður á neinum rökum. Það er nú liðinn 11/2 mán. af þingi, og fyrir mótstöðu þingmeirihl. hefir þingið ekki fengið að ganga að þessu sjálfsagða verki. Það getur ekki gengið, að á landsmenn séu nú lagðar nýjar álögur, sem nemi á 2. millj. kr. Ég veit ekki, hvernig á því stendur, að fjmrh., sem annars er maður vel viti borinn og ekki ósanngjarn, getur ekki komið auga á, hvernig sjálfsagt er að bregðast við þessu máli. Ég hefi heyrt hæstv. fjmrh. halda því fram, að það sé aldrei til neins að tala um niðurfærslur á gjöldum ríkisins, því af slíku tali verði aldrei neinn árangur. Ég vil minna hann á, að næst áður, Þegar stóð á líkt og nú, um áramótin 1923–24, var talað mikið um sparnað og gerðar niðurfærslur á gjöldum, sem námu 11/2 millj. af þeim 11 millj., sem útgjöldin voru þá. Það voru að vísu lagðir á auknir skattar, en engum eyri af þeim skattaukningum var varið til útgjalda ríkissjóðs.

Ég vildi aðeins geta þessa, til þess að vísa þeirri hugsun á hug, að ekki sé fært að færa niður útgjöld ríkissjóðs. Í þetta sinn var það gert eins og þurfti. Nú er einnig fært að færa niður útgjöldin, svo að þeir tekjustofnar nægi ríkissjóði, sem hann hefir nú, jafnvel þótt skuldabaggi hans hafi þyngzt miklu meira en þörf var á.

Ég hefði nú ekki þurft að blanda þessum almennu umr. inn í þetta mál, ef hæstv. fjmrh. hefði ekki gefið alveg sérstakt tilefni til þess með þeim ummælum, að ríkissjóði sé þörf á miklu meiri tekjum en gert er ráð fyrir eftir þessu frv. Ég fyrir mitt leyti geri ekki ráð fyrir því, að af þessu frv. fáist miklar tekjur, þó að I. verði, að öðru en því, að með því má draga inn í ríkissjóðinn fé, eftir því sem fjmrh. og forstöðumaður tóbakseinkasölunnar koma sér saman um, í stað þess að láta það renna, eins og nú, til byggingar- og landnámssjós og verkamannabústaða. Þegar lagður er á tóbakið verðtollur í stað álagningar, þá má, eftir því sem ráðh. og forstöðumaður tóbakseinkasölunnar koma sér saman, færa allt í ríkissjóðinn. En ég get ekki né vil ganga til samninga við Framsóknarfl. til að bæta úr því, er þeir misgerðu, þegar þeir samþ. tóbakseinkasöluna.