30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. landsk. gaf það í skyn, að samið hefði verið um eitthvað fleira en það, sem felst í l. um tóbakseinkasöluna, þegar það frv. var til meðferðar hér á þinginu. Þetta er ekki rétt. Það var hvorki samið um annað né meira en það, hvernig verja skyldi ágóða þeim, sem yrði af tóbakseinkasölunni, þannig að honum yrði skipt milli tveggja sjóða, sem báðir flokkar höfðu barizt sérstaklega fyrir, við Alþýðuflokksmenn fyrir verkamannabústöðunum og Framsókn fyrir byggingar- og landnámssjóði. Þetta varð að samkomulagi, þegar það gekk ekki fram, að nokkur hluti ágóðans gengi til rafveitna. En Alþýðuflokkurinn vildi ekki samþ. tekjuaukafrv. fyrir ríkissjóð nema ákveðið væri, hvernig tekjunum skyldi varið.

Án þess að ég vilji fara að bera blak af framsóknarflokksmönnum, þá er ekki líklegt, að þá hefði þurft að kaupa dýrt til þess að vera með einkasölu á tóbaki. Ég man ekki betur en þeir væru allmjög á móti afnámi tóbakseinkasölunnar 1925, og svo mun fjmrh. þeirra hafa látið undirbúa lög um einkasölu á tóbaki fyrir þingin 1928 og 1929. Það hefir því alls ekki þurft að kaupa þá til þess að fylgja því, heldur hefir verið um það fullt samkomulag milli þeirra og Alþýðuflokksfulltrúanna. En nú hefir hæstv. fjmrh. viljað fara á snið við þetta samkomulag, sem felst í tóbakseinkasölulögunum frá síðasta þingi. Hann segist ekki hafa heyrt um neina samninga um það, að tóbakstollurinn ætti að standa óbreyttur. Ég skal fúslega játa, að þetta voru engir formlegir samningar, heldur samkomulag, gert í góðri trú af hálfu Alþýðuflokksmanna, og ekki við því búizt, að Framsóknarfl. ætlaði að brigða þetta síðar. En það gerir hæstv. ráðh. með þessu frv., þar sem sá hagnaður, sem gert hefir verið ráð fyrir, að einkasalan gæfi, hlýtur að minnka að miklum mun. Hv. 1. landsk. hefir líka bent hæstv. fjmrh. á, að hann hefði alveg í hendi sér, hver verzlunarhagnaðurinn yrði, þar sem svo er ákveðið í 8. gr. einkasölulaganna, að álagning á tóbak megi vera frá 75–80%. Getur hann því komið þessu þannig fyrir, að verzlunarhagnaðurinn verði sama sem ekki neitt. Þetta er því að fara á snið við einkasölulögin og samkomulag það, er varð um samþykkt þeirra.

Hæstv. fjmrh. þóttist hafa heyrt það eftir mér, að þegar slíkt samkomulag væri gert sem þetta, þá væru það kontant viðskipti og engin eftirkaup, En hafi svo verið í þessu, þá ganga till. hæstv. ráðh. nú gegn þessu samkomulagi, og hann vill ekki standa við „kontant“-viðskiptin, heldur láta „skrifa í reikning“ nokkurn hluta af áður gerðu samkomulagi. Þá var hæstv. ráðh. að beina því til mín, hvort ég vildi ekki heldur hafa hálft reifið en ekki neitt, því að skýið frá neðri deild færi fljótt yfir. Átti hann þar við frv. það, sem er á ferðinni í Nd. um að fella niður um stundarsakir þau ákvæði tóbakseinkasölulaganna, að ágóðinn af einkasölunni renni í áður nefnda sjóði. Ég veit ekki, hvort betra er eða verra. Ef samþ. yrði nú að láta hagnaðinn renna til ríkissjóðs, myndi því ekki verða breytt síðar, því að reynslan er sú, að flestir tollar og skattar eru og hafa verið settir sem bráðabirgðafyrirkomulag, en hefir svo ekki verið breytt aftur. Þannig var t. d. hinn hái sykurtollur settur til bráðabirgða 1907, en gildir enn í dag. Vörutollurinn 1912 sömuleiðis til bráðabirgða, en stendur enn í dag. þannig myndi og fara um þennan toll, að hann yrði fastur tekjustofn fyrir ríkissjóðinn, en byggingar- og landnámssjóður og byggingarsjóður verkamanna myndu ekki fá neitt, ef farið yrði að gera bráðabirgðabreytingu á honum nú.

Ég geri nú ráð fyrir, eftir því sem hæstv. fjmrh. hagaði orðum sínum, að ský það, er væri á ferðinni í Nd., færi fljótt yfir, að þá sé orðið samkomulag milli Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. um að fella niður þessa greiðslu til hinna umræddu sjóða, og mér skilst, að fjvn. Nd. standi óskipt að því frv. Geri ég því ráð fyrir, að það verði fljótlega samþ. í þessari hv. deild, ef hæstv. ráðh. skýrir rétt frá. Þrátt fyrir þetta mun ég ekki hleypa þessu máli áfram hér með mínu atkv., og ef það er á mínu valdi að stöðva það. Um hitt frv. verður að taka því, sem að höndum ber. Ég er eindregið á móti því, því að ég vil alls ekki, að gerð séu að engu þau ákvæði, sem sett voru í tóbakseinkasölulögin á síðasta þingi.