30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2955)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Jón Þorláksson:

Ég hefi þegar tekið tvisvar til máls. Get ég því ekki, án þess að ganga þá of nærri þingsköpum, svarað hæstv. fjmrh. ýtarlega, enda er þess ekki brýn þörf að því er snertir hinar almennu hliðar ríkisbúskaparins og skattamálanna, þar sem til þess munu verða næg tækifæri síðar. Mun ég því halda mig sem mest við mál það, er hér liggur fyrir. Aðalatriðið, sem hér er um að ræða, er það, að á síðasta ári gekkst stjórnarflokkurinn fyrir breyt. á lögum, sem hafði í för með sér allmikla lækkun á tekjum ríkissjóðs af tóbaksvörum, og hér er farið fram á að bæta ríkissjóði upp þá tekjulækkun.

Hæstv. fjmrh. spurði, hvað ég myndi gera undir þessum kringumstæðum, ef ég sæti í sæti hans. Þessu skal ég þegar svara hæstv. ráðh. Ég myndi hiklaust bera fram frv. um afnám tóbakseinkasölunnar og tryggja ríkissjóði þar með sömu tekjur af tóbakinu og hann hafði áður.

Ég stend fast við þá skoðun mína, að þar sem ríkissjóður hefir ennþá óskerta þá skatta, sem lagðir voru á 1924, þá eigi sérhver fjármalastjórn að geta komizt af með þá nú án þess að biðja þingið um nýjar álögur á þjóðina. Það stendur allt öðruvísi á um þetta hjá öðrum þjóðum; þær hafa ekki framkvæmt hjá sér nú hin síðari ár tilsvarandi skattaaukningu og við gerðum 1924, sem svo var endurtekin 1928. Ég veit heldur ekki af neinum ríkissjóði, sem undanfarin 3 ár a. m. k. hefir haft svo miklar tekjur, að nálgazt hafi 50–100% umfram áætlun, eins og hér hefir átt sér stað. Þá verður og að taka tillit til þess, að hér er búið að þrautpína þjóðina svo með skattaálagningum umfram þarfir, að hún þolir ekki frekari álögur, og það sízt í hörðustu kreppuárum. Ég kann varla við að henda á lofti aðra eins fjarstæðu hjá hæstv. fjmrh. eins og þá, að tóbaksreykingar væru atvinnuvegur — hann sagði þetta þó í rökþrotum sínum —, þar sem það veit hver maður, og ráðh. líka, að fé það, sem eytt er fyrir tóbak í landinu, er tekið annaðhvort af afrakstri þrautpíndra atvinnuvega eða samanspöruðu fé þjóðarinnar. Ég hefi enga sérstaka tilhneigingu til þess að hlífast við, að teknar séu tekjur af þessum tekjustofni, en ég tel það ekki forsvaranlegt af flokki, sem gerir leik að því að rýra tekjur ríkissjóðs eitt árið, að koma svo næsta ár og biðja andstæðingana um hjálp til að ná þeim aftur.

Þá verð ég aðeins að svara þeim ummælum hæstv. fjmrh., að skuldaaukning ríkissjóðs hafi ekki sætt andstöðu Sjálfstæðisflokksins. þetta er mjög fjarri sanni. Ég veit ekki betur en flest það, sem vitnazt hefir um eyðslu stj. utan fjárl., hafi verið harðlega átalið af stjórnarandstæðingunum, og ég býst við, að þær upphæðir allar væru nógu miklar til þess að gera grein fyrir allri skuldaaukningunni. Þá nefndi hæstv. ráðh. Íslandsbanka í þessu sambandi, en honum er kunnugt um, að allar þær ráðstafanir, sem nú hafa orðið þess valdandi, að framlag ríkissjóðs til Útvegsbankans er nú að mestu tapað fé, voru gerðar í andstöðu við Sjálfstæðisfl. og gegn aðvörunum hans, sem þó komu fram í tíma.

Ég verð að andmæla þeim ummælum hv. 2. landsk., að engir aðrir samningar hafi farið fram milli Alþýðufl. og Framsóknarfl. um tóbakseinkasöluna en þeir, sem felast í lögunum sjálfum. Ég verð að segja það, að þá hefir ástin á einkasölu fyrirkomulaginu hjá Framsókn ráðið meiru en stefnan, sem annars er mjög erfitt að henda reiður á, því Framsóknarfl. mun sennilega vera stefnulausasti flokkur í veröldinni. Hann hefir t. d. lýst því yfir, að hann sé fylgjandi frjálsri verzlun, nema í einstökum tilfellum, þegar um sé að ræða að útvega ríkissjóði tekjuauka. En þegar vikið er af grundvelli hinnar frjálsu verzlunar til þess að rýra tekjur ríkissjóðs og af velvild til forráðamanna flokksins, þá verður ekki sagt, að það eitt vaki fyrir þeim að vernda hag ríkissjóðsins, heldur að þeim hafi skrikað fótur.

Út af ummælum hv. 2. landsk. vil ég geta þess, að ekkert samkomulag er um það milli Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. að breyta tóbakseinkasölulögunum svo, að niður falli um stundarsakir eða lengri tíma framlög einkasölunnar til verkamannabústaðanna og byggingar- og landnámssjóðs. Einstakir þm. Sjálfstæðisfl. í fjvn. Nd. hafa verið látnir sjálfráðir um till. sínar í n. Um skýið, sem ráðh. var að boða frá Nd., skulum við tala þegar það kemur hingað.