30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2956)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 1. landsk. er þráfaldlega með þá fullyrðingu, að ríkissjóður biði mikið tjón af tóbakseinkasölunni. Framsóknarmenn hafa margsannað hið gagnstæða. Ég tel ekki, að hægt sé að lasta þá fyrir annað en það, hve lengi þeir létu dragast að koma tóbakseinkasölunni á. Tóbakseinkasalan hefir þegar fengið samninga við öll þau „firmu“, sem tóbaksheildsölur verzluðu áður við, um betri kjör og lengri gjaldfrest. Þegar svo tollurinn er óbreyttur, er mér óskiljanlegt, í hverju þetta tap á að geta legið, nema ef vera skyldi í því, að ekki væru nógu áhugasamir menn við einkasöluna um að koma vorunni út á meðal fólksins. Kostir frjálsu verzlunarinnar virðast þá eiga að liggja í því að koma út sem mesta tóbaki, en þá kemur annað sjónarmið, sem sé það, hvort ekki sé betra frá þjóðarhagslegu sjónarmiði, að tóbaksnautn minnki í landinu heldur en að hún aukist, enda þótt ríkissjóður missti nokkurs í við rýrnunina. Nei, ágæti hinnar frjálsu verzlunar er hæpið, þegar það liggur í því, að koma sem mestu af ónauðsynlegum vörum út til fólksins. Um það hljóta allir þjóðlegir menn að vera sammála. Annars hverf ég ekki frá því, að tóbakseinkasalan hljóti að gefa meiri tekjur en hin frjálsa verzlun með tóbak. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að árið 1925 var ég á ferð í Svíþjóð. Var þá nýbúið að afnema tóbakseinkasöluna hér. Átti ég þá tal við einn merkan íhaldsmann þar og sagði honum m. a. þessar fréttir. Hann var hissa og spurði, hvort við hefðum efni á að kasta öllum heildsöluarðinum frá okkur. Í Svíþjóð dytti engum manni í hug afnám tóbakseinkasölu. Það hefir heldur engin till. komið fram í Svíþjóð um að afnema tóbakseinkasöluna sænsku. Hún stendur óhögguð og óáreitt og gefur ríkissjóði miklar tekjur. Forstjóri hennar er einn af helztu fjármálamönnum Svíþjóðar, maður, sem heldur mjög fram einstaklingshyggjunni að flestu leyti. Hann er af hinni alþekktu Wallenbergsætt. Þetta getur átt sér stað annarsstaðar, þar sem enginn sjálfstæðisflokksmaður íslenzkur er til þess að leiðbeina í þessum efnum.

Hv. 1. landsk. heldur því fram, að með tóbakseinkasölunni hafi verið kastað burt tekjum, sem ríkissjóður hefði annars getað nælt í. Meðan ekki eru færð önnur rök fyrir þessu en þau, að einkasalan selji minna af tóbaki en hin frjálsa verzlun, hlusta ég sem fjmrh. ekki á það.

Ég þakka hv. þm. fyrir leiðbeiningarnar um það, að tóbaksreykingar væru ekki atvinnuvegur. Það, sem gaf mér tilefni til þessa orðalags, var það, að hv. þm. spurði mig, hvaða atvinnuvegur það væri, sem þyldi aukin álög. Ég svaraði eins og spurt var.

Hv. 1. og 2. landsk. krossa sig og sverja fyrir allt samkomulag, og mér skilst helzt, að þeir lofi guð fyrir það ósamkomulag, sem er ríkjandi.

Að endingu vil ég endurtaka þá ósk mína, að frv. fái að ganga til nefndar.