30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2958)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Jakob Möller:

Mér finnst skylt að svara þessum hjartnæmu orðum hv. 2. þm. Árn. Ég vil því taka fram, þótt þess ætti reyndar ekki að þurfa, að það er ekki gert til þess að sýna þeirri hv. n., sent þar málið fram í Nd., né heldur hæstv. fjmrh. neina sérstaka ókurteisi, þótt frv. verði fellt við 1. umr. En því er svo varið, að hér er um ákveðið principmál að ræða, sem engin ástæða er til að ræða nema við 1. umr. Að greiða því atkv. til n. væri því ekki til annars en að tefja tíma þingsins og vekja vonir, sem ekki geta rætzt. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem hv. 1. landsk. hefir sagt um málið, en með því á að vinna upp tekjuhalla, sem hlotizt hefir af því, að upp var tekin einkasala á tóbakinu. Hæstv. fjmrh. virtist vera í óvissu um það, hverjar ástæður lægju til þess, að tekjur ríkissjóðs minnkuðu af tóbakinu, og taldi, að ef salan minnkaði ekki, þá gætu tekjurnar eigi heldur minnkað. Ég vil benda honum á, að þetta er einmitt orsökin. Tekjurýrnun ríkissjóðs byggist á því, að lögleg sala minnkar. Um það höfum við einmitt reynslu frá fyrri tímum. Allt annað mál er það, hvort æskilegt er að draga úr tóbakssölu og tóbaksnotkun í landinu og hvort gott er að hafa tóbakseinkasöluna í því skyni, ef hún dygði til þess. En það gerir hún bara ekki. Þótt hin opinbera sala minnki, þá gerir tóbaksnautnin í landinu það ekki. Undir því þvingaða fyrirkomulagi, sem tóbakseinkasalan skapar, þá eykst ólöglega salan, og við því er erfitt að sporna í landi eins og þessu, þar sem svo er háttað, að erfitt er um eftirlit. Þetta mál hefir nú verið margrætt og því óþarfi að endurtaka það nú.

Það, sem hæstv. ráðh. sagði um tóbakseinkasöluna í Svíþjóð, hefir næsta lítið gildi hér. Hún er allt öðruvísi vaxin þar. Henni er þannig fyrir komið, að hún hefir myndað utan um sig sterkan hring, og þess vegna hefir enginn þar orðað að leggja hana niður, sízt þeir, sem við hana eru riðnir, eins og sá maður er, sem hæstv. ráðh. nefndi, enda þótt hann sé íhaldsmaður. Það er nú einmitt einkenni íhaldsmanna að halda í það, sem fyrir er, einkum það, sem staðið hefir lengi, en svo er um tóbakseinkasöluna í Svíþjóð. Á þessu má m. a. sjá, hver áhrif slíkar stofnanir geta haft á hugsunarhátt manna. Þær geta skapað í kringum sig alveg sérstakt álit. Er það a. m. k. mjög umdeilanlegt, hvort rétt sé að setja á fót slíkar stofnanir, sem verða með tímanum ríki í ríkinu. Ég fyrir mitt leyti er 5 móti einkasölu, m. a. af þeirri ástæðu.

Ég skal svo ekki fjölyrða fleira um þetta. Hv. 1. landsk. hefir lýst afstöðu Sjálfstæðisfl. til þessa máls svo fullnægjandi er.